26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2656)

36. mál, þjóðjarðir

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg hafði ekki hugsað mjer mikla mótstöðu á móti frv. þessu og tel varla vert, að gera úr því mikla þrætu. Jeg bjóst ekki við mótstöðu, vegna þess, að fyrir skömmu gekk gegnum þingið umræðulítið frv. um Arnarstapaumboð. Ef til vill hefir það verið umhugsunarlítið. En nú er heil nefnd á móti þessu frv. þar sem jeg er vel kunnugur þessu umboði, vil jeg gefa nokkrar skýringar, sem snerta þetta mál. Jeg hefi verið umboðsmaður þar í nærri 20 ár. Það er þegar búið að selja mikið af jörðum og það, sem eftir er, á förum, nema jarðir þær, sem ætlaðar eru til opinberra eða almenningsnota og má því ekki selja. Í Reykdælahreppi er að eins eftir ein jörð, og hún er ætluð til læknisseturs. Flatey er öll ætluð til grasbýla, og þar er verslunarlóð. Hún er í 4 lögbýlum, en þar af eru 2 bygð einum og sama manni, og það er hreppstjórinn. Í Presthólahreppi eru 2 kauptún, Raufarhöfn og Kópasker. Innan skamms verða aðeins eftir þessar tvær jarðir, sem kauptúnin standa á. Verði einhver eftir, þá verður hún höfð til almenningsnota. Í Skinnastaðahreppi eru 2 jarðir. Önnur þeirra er seld, en hin gerð að læknissetri eða skólajörð. Jeg geri ekki ráð fyrir, að í öðrum hreppum verði nokkuð eftir, en ef svo færi, þá yrðu þær eignir annaðhvort ætlaðar til opinberra þarfa eða til almenningsafnota. Eðlilegra sýnist nú, að ríkisstjórnin sjálf velji og skipi þá menn, sem eiga að annast þær fasteignir, sem geymast eiga til almenningsnota, eða eru það þegar, en ekki sveitar- eða hjeraðsvöld.

Háttv. frsm. (St. St.) gerði endilega ráð fyrir því, að umboðsmaður yrði valinn út á útkjálka hjeraðsins. Þetta eru auðvitað getsakir einar. Það er stjórninni í sjálfsvald sett að velja menn af stöðum, sem liggja vel við. T. d. gæti umboðsmaður Norðursýslu vel átt heima á Húsavík. Þá ætti hann hægast með að komast til Raufarhafnar, Kópaskers og annara þeirra staða, sem eignirnar standa á. Jafnvel þótt hann ætti heima á Raufarhöfn, þá ætti hann ekki svo erfitt með að komast á staðina með strandferðaskipunum. En á Húsavík væri hann best settur, og þar eða í nágrenninu eru auðfengnastir hæfir menn til þess.

Jeg legg því meira upp úr orðum hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), þar sem hann benti á, að betra væri að treysta einum manni í hjeraðinu en 4 eða 5 hreppstjórum. Jeg er ekki að leggja hreppstjórunum til, enda sæti það síst á mjer. Í Norðursýsluumboði eru 2 hreppstjórar, báðir vinir mínir, og jeg ber hið fylsta traust til þeirra beggja, en annar þeirra er illa við riðinn, þar sem hann er ábúandi á hálfri Flatey.

Hv. frsm. (St. St) sagði, að rjettast væri þá að nema lögin öll úr gildi. Jeg er ekki á móti því, en eitthvað þarf að koma í staðinn, og jeg er ekki undir það búinn nú sem stendur. En af því áð jeg er svo nákunnugur Norðursýsluumboðinu, vildi jeg ekki sleppa tækifærinu nú til að fá því breytt, þar sem enn þá er ekki farið að afhenda umboðið hreppstjórum.

Viðvíkjandi brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), þá er jeg ekki á móti henni. Jeg skil vel þær ástæður, er hann færði fyrir henni, því þær eru þær sömu og í Norðursýsluumboði. En það, sem rekur hjer á eftir, að því er Norðursýsluumboðið snertir, er, eins og jeg hefi þegar getið um, það, að því hefir ekki verið skift enn þá. (P. O.: Hver hafði umboðið áður?). Jeg hafði umboðið þangað til jeg varð ráðherra, en varð þá auðvitað að sleppa því.

Annars finst mjer eins og það sje einhver hreppstjóraviðkvæmni, sem hafi ráðið afstöðu nefndarinnar og frsm (St. St.) til frv. þessa.