19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Magnús Kristjánsson:

Eins og nál. ber með sjer, hefi jeg skrifað undir með fyrirvara. Jeg geri ráð fyrir því, að öllum hv. þm. muni það kunnugt, að jeg álít varhugavert og jafnvel hættulegt hagsmunum þjóðfjelagsins, að innflutningur verði að öllu leyti gefinn frjáls á þessum tímum. En jeg hefi þó eigi klofnað frá nefndinni algerlega, og rjeði þar mestu um, að jeg vildi fylgjast með störfum hennar í þeirri von að geta haft einhver áhrif á þá í þá átt, sem jeg áleit rjetta.

Jeg hefi aldrei skilið fyllilega röksemdafærslu þeirra manna, sem halda því fram, að aðeins þurfi að opna allar gáttir, og þá losni maður við öll þau vandræði, sem við erum í, eins og aðrar þjóðir. Það má vera, að Reykvíkingar njóti þar einhvers góðs af, og er þá skiljanlegt, að hv. þm. þeirra mæli með því; en þeir menn, sem reyna að líta á hag heildarinnar, sjá þetta öðrum augum. Það er ekki nóg, að vörur sjeu fluttar inn og seldar fyrir lágt verð hjer í Reykjavík; það verður að líta á hitt, jafnframt, að vörurnar verði greiddar á þann hátt, að ekki þurfi að taka of mikil lán, sem að lokum yrðu of þung byrði að rísa undir. Margir hafa gengið svo langt í loftköstulum sínum, að þeir halda því fram, að vöruverð lækki að miklum mun, kaupgjald lækki og atvinnuvegirnir blómgist, ef viðskiftanefndinni er af ljett. En þetta er mestmegnis út í loftið sagt. Allir vita, að verðfall á þeim vörum, sem flytjast til landsins, verður altaf á eftir verðfallinu þar sem varan er keypt, og er það eðlilegt, eftir staðháttum. Jeg býst því ekki við, að breyting verði til batnaðar, þó sú ráðstöfun yrði gerð, sem nú er í ráði. Því er svo varið, að aldrei hefir verið meiri ástæða til að kaupa sem minst af útlendum varningi og reyna að bjargast sem mest við það, sem í landinu er framleitt, til þess að hægt verði að komast hjá of miklum skuldum. Nú eru horfur á því, að framleiðslan verði með minna móti, ef, til vill lítið meira en helmingur af venjulegu vörumagni, og ætti þá hv. þm. að vera ljóst, að vjer hljótum að safna skuldum, ef innflutningur er ótakmarkaður. En jeg býst ekki við, að miklu verði um þokað úr því, sem komið er, og verður þá að taka því og reyna að gera það eins viðunanlegt og hægt er. Jeg mun því halda fast við þá stefnu, að bannaður sje allur innflutningur á óþarfavarningi, og skírskota til ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.), sem er gagnslaust að hafa hjer upp aftur, en jeg get að mestu leyti fallist á.

Jeg beini þess vegna þeirri áskorun til stjórnarinnar, að hún framfylgi lögunum frá 8. mars eftir því, sem henni er frekast unt, því það, sem sparað er, er grætt.

Annars datt mjer í hug, þótt jeg búist ekki við, að það hafi mikinn árangur, að æskilegt væri, að þetta mál yrði ekki afgreitt í dag. Og ástæðurnar til þess, að jeg fer fram á það, að atkvgr. um þetta mál verði frestað, eru þær, að einn nefndarmanna úr viðskiftanefndinni, sem er bankastjóri Ludvig Kaaber, hefir verið erlendis til þess að kynna sjer þessi mál, og má því búast við, að hann hafi eitthvað að leggja til í þessu efni, þegar hann kemur. En hans er einmitt von í dag eða á morgun, og þykir mjer óviðfeldið, ef nefndin gæti ekki heyrt hans álit áður en fullnaðarúrskurður er lagður á þetta mál. Jeg veit ekki, hvort þetta þykir nægileg ástæða, en seint er slíkt mál sem þetta of vandlega athugað.

Það eru að vísu fyrirsjáanleg úrslit þessa máls, en ekki mundi það skaða, þótt úrskurðinum væri frestað í 1–2 daga.

Annars þykir mjer ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál. Mín skoðun er sú, að það mundi vera mjög til skaða að afnema þessar varúðarreglur nú þegar á þessum tíma, þegar útlitið er ískyggilegra en það hefir kannske verið nokkru sinni áður. Þá fer fyrir þessari þingdeild eins og borg í herumsát, ef lýðurinn inni fyrir tæki þau ráð, að hætta að verja sig, en gefast upp áður en að væri farið að þrengja. Þá yrði það sjálfsagt álitinn ófyrirgefanlegur amlóðaskapur, en fjárkreppan er óvinurinn, sem hjer sækir að. En þar sem verið er að ræða um það, að afnema öll höft og allar hömlur, þá er það sama og að opna borgarhliðin fyrir óvininum og segja: „Gerið þið svo vel, við viljum ekki vera að þessu lengur, svo að við komumst hjá þeim óþægindum, sem af því leiðir að halda lengur uppi vörninni.“