21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2697)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Sveinn Ólafsson:

Það er í raun og veru deilt um það, hvort rjett sje að halda nokkrum viðskiftahömlum áfram eða ekki. Það virðist mega ráða af nál., að nefndin vilji ekki fella úr gildi lögin frá 8. mars 1920 og telji það óvarlegt, þótt hún leggi til að fella niður bráðabirgðalögin frá 15. apríl.

Það segir sig sjálft, að ef nauðsyn er á innflutningshömlum, þá er rjettmætt og sjálfsagt, að lögin frá 8. mars standi óhögguð. En um þá nauðsyn þarf ekki langt að leita. Fjárhagshorfurnar erfiðu og skortur á erlendum gjaldmiðli sýnir hana átakanlega. Skuldir við útlenda skiftavini, banka og heildsala, tala nægilega hátt um nauðsyn á sparnaði.

Þjóðarbúinu má í þessu efni líkja við bú einstaks búanda, þar sem eyðsla og sukk hefir yfirstigið framleiðslu eða tekjur og lánstraust er að þverra. Aðeins ein leið er út úr þvílíkum kröggum, ef ekki er hægt að auka framleiðsluna, svo að hún haldist í hendur við eyðsluna, og það er að takmarka þarfirnar, kaupa sem minst eða spara, og það er hlutverk húsbóndans að taka í taumana og beita húsbóndavaldi sínu til að aftra eyðslu annara heimilismanna, ef annað tjóar ekki.

Hjer eru eyðsla, sukk og sundurgerð landlægir lestir, og það verður eigi á því bygt, að almenningur verði þegar í stað samtaka um nauðsynlegan sparnað, meðan gróðabrall einstakra manna og innflutningur munaðarvöru hverskonar, glingurs og óþarfa, er látið óheft að öllu. Húsbóndinn, sem hjer er stjórn og þing, verður hjer að láta til sín taka og neyða til sparnaðar, áður en það er um seinan, áður en gróðabrall einstakra fjesýslumanna steypir oss í gjaldþrot.

Þetta er alt almennar hugleiðingar, en jeg get ekki betur sjeð en að húsbóndinn á þjóðarheimilinu nái best almennum sparnaði með innflutnings- og viðskiftahömlum.

Hv. frsm. viðskiftamálanefndar (J. Þ.) komst að þeirri niðurstöðu, eftir hagskýrslum 1915–1917, að ekki borgaði sig að hamla innflutningi á glysvarningi og óþarfa, af því að slík vörukaup næmu litlu, eða í ítrasta lagi 200 þús. kr. á ári.

Þessu verður að taka með varhygð, og því má ekki gleyma, að margar vörutegundir má takmarka að meira eða minna leyti, sem ekki eru heimfærðar undir glingur eða óþarfa, eftir málvenjunni.

Jeg hefi ekki haft tíma til að athuga hagskýrslur, en jeg vil taka það fram, að það er ekki einhlítt að byggja á skýrslum frá 1915–1917 um verðgildi einstakra vörutegunda og bera það saman við verðgildi sömu tegundar fyrir stríðið. Innflutningur ýmsra vörutegunda var miklu minni 1917 en 1914, þótt verðgildið beggja ára væri líkt. Vörumagn það, sem kostaði 70 þús. kr. 1917, gat verið fimmfalt eða sexfalt 1914 fyrir sama vörumagn.

Til dæmis um þetta skal það nefnt, að ostur var fluttur inn 1914 fyrir 58 þús. kr., en 1917 fyrir 49 þús. Rangt væri að ætla, að hjer munaði að eins 1/6 á innflutningnum, því að osturinn var að minsta kosti tvöfalt dýrari 1917 en 1914, og þess vegna var innflutningurinn 1917 meira en helmingi minni en 1914.

Fyrir þessa sök er mjög valt að byggja á þessum þriggja ára samanburði (’15, ’16 og ’17) hjá hv. frsm. (J. Þ.). Jeg hefi ritað hjá mjer ýmislegt af honum og sje, að hann gefur óljósa mynd af ástandinu á reglulegum tímum. Jeg get verið sammála hv. þm. Borgf. (P. O.) um það, að vel mætti takmarka innflutning á niðursoðinni mjólk, ef jafnframt væri sett hámarksverð á innlenda framleiðslu mjólkur, og líkt mætti fara að um fleiri varningstegundir, sem afla má innanlands. 1917 var flutt inn niðursoðin mjólk fyrir 276,000 kr., en ostur fyrir 49,000 kr., og þetta eru vissulega vörutegundir, sem landið ætti að geta veitt sjer að mestu sjálft, ef vel væri á haldið. Slíkar vörur er sjálfsagt að takmarka, þegar að sverfur.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) taldi stjórnina ekki eiga að nota heimildarlögin frá 8. mars, þótt þau hjeldu gildi. Til hvers eru þau þá? Af nauðsyn eru þau sett, og sú nauðsyn er ekki horfin´, þeim þarf að beita, og til þess standa þau.

Jeg hefi áður og í öðru sambandi tekið fram, að framkvæmd þeirra undanfarið hafi mistekist, einkanlega í fjarlægari landshlutum, þar sem í skjóli þeirra og skortsins vegna hefir verið okursala á ýmsum varningstegundum, af því að hámarksverð og alt eftirlit vantaði. Hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) hjelt því að vísu fram, að hömlurnar hefðu sárast bitnað á Reykjavík og nágrenninu, en það er fjarstæða tóm. Erfiðast hefir veitt um leyfi úr fjarlægum hjeruðum, og hörgull á vörunni þar komið henni í afarverð. Jeg hygg t. d., að mulinn melis hafi hvergi verið seldur næstl. sumur á 6,40 kr. kg., nema á Austurlandi, og engu var þar um að kenna nema skorti á eftirliti þess opinbera, sem stjórninni var sjálfrátt að bæta úr með hámarksverði. Sykursalan var í höndum stjórnarinnar og hún gat öllu um hana ráðið. En víti eru til varnaðar, og á þessu skeri þarf eigi að steyta aftur, þótt takmarka þurfi aðflutning.

Jeg verð að víkja nokkrum orðum að hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.), að ummælum hans um nál. og lögin frá 8. mars. Að vísu heyrði jeg ekki glögt til hans, en jeg tel mig þó hafa heyrt rjett, að hann taldi það næga ástæðu til að beita ekki viðskiftahömlunum, að ef þeim væri beitt, þá mundu margir missa atvinnu sína. Hann átti víst við glingursalana og smásala einkum. Jeg verð nú að segja það, að mjer hálfhnykti við að heyra þessa kenningu. Hvílík atvinna er það, sem hann talar hjer um? Prang með óþarfan eða lítt þarfan varning, sem seldur er óhófsverði og keyptur um efni fram af glysgirni og athugaleysi. Jeg verð að efast um siðferðilegan rjett til að stunda slíka atvinnu og held ekki vert að tala mikið um lögheimild fyrir henni. Já, hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) má gjarnan skrifa þessi ummæli mín hjá sjer; jeg stend við þau. Þetta, um löglegu atvinnuna, var að nokkru leyti tekið fram af hv. 2. þm. Ám. (Þorl, G.), og það með rjettu. Það er alkunnugt, að fjöldi hraustra og vinnufærra manna hefir horfið frá heiðarlegum atvinnuháttum og tekið að versla, sumir í heildsölu, sumir í smásölu, og þessir menn eru mörgum sinnum fleiri en viðskiftaþörfin krefur. Þeir eru orðnir þjóðinni að þungri byrði, og ýmsir þeirra rjettnefndar blóðsugur, því að þjóðin verður mergsvikin, af því að mikill hluti starfhæfra manna leggur niður störfin líkamlegu og leitar sjer viðskiftaatvinnu eða lifir af annara sveita.

Jeg geri ekki meira úr atvinnumissi þessara manna en svo, að jeg teldi það mestu „reformation“, ef nokkrir þeirra flosnuðu upp og hyrfu að heiðarlegri atvinnuháttum. Og þótt ekki fengist annað en störf fjósamanna í sveit eða kamarmokara í Reykjavík, þá tel jeg þau miklu sæmri.

Sami háttv. þm. (Ó. P.) hjelt því fram, að framhaldandi viðskiftahömlur mundu valda stórfeldri smyglun, eins og reynst hefði um bannlögin.

Þarna hefir hann nokkuð til síns máls, og vissulega hefir nokkuð að henni kveðið næstl. ár. En í slíkt má ekki horfa, það væri sama og að leggja árar í bát og gefast upp við hálfunna þraut. Með sæmilegu eftirliti á að mega fyrir girða að mestu leyti bannaðan innflutning. Loks lagði hv. þm. (Ó. P.) stjórninni ríkt á hjarta að beita ekki ákvæðum laganna frá 8. mars, þó svo færi, að þau stæðu, en jeg vil þvert á móti brýna fyrir henni að beita þeim alvarlega, og þó með betra eftirliti en næstl. ár.

Að endingu vil jeg benda á þá framkvæmd laganna, sem mjer virðist eðlilegust. En það er að flokka allan innflutning í þrent.

Í 1. flokki ættu að vera allar nauðsynlegustu vörur, svo sem matvara, salt, kol, ljósolía, veiðarfæri o. s. frv. og engar hömlur lagðar á innflutning þeirra.

Í 2. flokki vörur, sem takmarka má, svo sem dúkavara og munaðarvara, og ætti stjórnin að leyfa takmarkaðan, en þó lítinn, innflutning á þeim.

Í 3. flokki óþarfar vörur, svo sem glysvarningur, leikföng og óhófsvara, sem að öllu væri bannað að flytja inn og jafnvel að bjóða til sölu.

Þvílíkar innflutningshömlur, með öruggu eftirliti, eru einhlítasti vegurinn út úr gjaldmiðilsskortinum.

Með þetta fyrir augum og von um framkvæmdir í þessa átt greiði jeg atkvæði með niðurfellingu bráðabirgðalaganna frá 15. apríl. n. k.