21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2719)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. minni hl. (Sigurður Stefánsson):

Jeg þykist ekki þurfa nú að tala langt mál, því öll þau rök, sem jeg færði fyrir máli þessu, er frv. þetta kom fyrir hv. deild, standa óhögguð, þrátt fyrir ræðu hv. frsm. meiri hl. (P. O.).

Mjer skildist, að aðalástæðan hjá hv. frsm. meiri hl. (P. O.) fyrir því að leyfa ekki þessa skiftingu, væri sú, að starf prestanna hefði minkað, þar sem ljett hefði verið af þeim barnafræðslunni. þetta hlýtur að vera einhver misskilningur, því mjer er ekki kunnugt um, að starf presta í fræðslumálum sje minna en það hefir áður verið, eða eins og hann vildi halda fram, orðið eingöngu eftirlit. Prestar verða eftir sem áður að undirbúa börn til fermingar. Þó að kristindómsfræðslan sje í barnaskólunum, er prestinum gert að skyldu að hafa sömu afskifti af fermingarundirbúningi barna og áður. Ekki aðeins eftirlitsskylduna um það, að börnin læri eitthvað, heldur sjálfa fræðsluna að meira eða minna leyti. Enda er mjer kunnugt um það, að minsta kosti hvað alla eldri presta snertir, að þeir hafa í engu breytt hátterni sínu; þeir spyrja börn eftir sem áður og á sama hátt, og þeir eyða í það engu minni tíma en áður, og stundum jafnvel meiri tíma, því eftir að kristindómsfræðslan fluttist frá heimilunum og í skólana, hefir hún ekki farið batnandi. Að minsta kosti er mjer kunnugt um það, og það er reynsla mín, að barnaskólabörn, þau, sem jeg þekki, eru að jafnaði ver undirbúin í kristnum fræðum heldur en hin. Þó er þetta misjafnt, og í sumum skólum er kristindómsfræðslan sæmileg. Þessi aðalröksemdafærsla um minni starfsemi prestanna hlýtur því að vega ekki mikið í þessu máli.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. (P. O.) í þessu sambandi um það, að nú væri gefið svo mikið út af tímaritum og fræðibókum, sem komið gætu í staðinn fyrir fræðslu prestanna. það er nú svo, að margt er prentað nú á dögum, en eigi það að koma að nokkru gagni, þá verður að fást trygging fyrir því, að þær hinar sömu fræðibækur sjeu lesnar. En svo er þess líka gætandi, að í sumum þessum tímaritum birtist eitt og annað, sem jeg mundi eindregið ráða mínum fermingarbörnum frá að lesa. (P. O.: Er það nýja guðfræðin?).

Þá vildi hv. frsm. meiri hl. (P. O.) gera lítið úr fólksfjölda þessa prestakalls. Jeg er nú ekki í neinum vafa um það, eins og jeg hefi áður tekið fram, að í engu prestakalli, utan Reykjavíkur, hefir fólkstalan vaxið jafnhröðum fetum eins og hjer. Hólssókn ein er með allra fjölmennustu prestaköllum á landinu. Að vísu get jeg fallist á það, að fólksfjöldinn einn sje ekki nægileg ástæða fyrir þessari skiftingu. En hjer er á fleira að líta. Staðhættirnir, með vaxandi fólksfjölda, gera þetta prestakall eitt af þeim allra erfiðustu á öllu landinu og prestinum litt mögulegt að gera skyldu sína. Hann getur blátt áfram ekki þjónað því eins og hann vildi og ætlast er til. Því verður ekki neitað með rökum, að hjer er um annexíu að ræða, sem svo erfitt á að ná í alla prestsþjónustu, að slíks munu fá dæmi hjer á landi, sem betur fer.

Háttv. frsm. meiri hl. (P. O.) vitnaði í orð kunnugs manns, og þykir mjer þá hart, að jeg, sem ætti þó líka að vera kunnugur þarna, og hv. meðflm. minn (J. A. J.), sem fæddur er þarna vestra, að við skulum vera vændir þess að segja vísvitandi rangt frá máli þessu. Og því undarlegra finst mjer þetta, þar sem fyrverandi sóknarprestur þeirra Ísfirðinga, hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), hefir staðfest þessa lýsingu okkar og ekki hv. 2. þm. Reykv. (J. R.), sem borinn er og barnfæddur þar vestra, vefengt hana.

Þá var það ferðakostnaður prestsins, sem háttv. frsm. meiri hl. (P. O.) efaði að væri rjettur. Þó rengdi hann ekki, að í einstaka tilfellum gæti talan verið rjett, en í öðrum gæti presturinn verið hepnari. Hvaða trygging er nú fyrir þessu? Enginn prestur getur reitt sig á þetta. Og það hefði sá „kunnugi“ átt að fræða hann um, að síðan verslununum fjölgaði í Bolungarvík eru miklu sjaldgæfari ferðir þar á milli.

Fyrir 20 árum var það altítt, að Bolvíkingar komu inn á Ísafjörð á hverjum laugardegi í verslunarerindum, og þá var hægt fyrir prestinn, fyrir litla eða enga borgun, að komast út eftir. Þetta var nú líka á þeim tímum, sem alt var ódýrara; þó gat það kostað talsvert, ef presturinn þurfti að kaupa bát með sig aðra leiðina, því heim þurfti hann að komast.

Þar sem háttv. frsm. (P. O. hefir viðurkent rjett skýrt frá kostnaðinum, hygg jeg, að þessar undantekningar hans vegi ekki mikið. Nú hafa tímarnir breyst og mennirnir með, alt er orðið dýrara en áður, enda er nú svo komið, að prestsþjónusta þessarar sóknar er svo dýr, að hún er prestinum ofvaxin, og þá ekki siður fyrir söfnuðinn. Það er mikil upphæð fyrir fátækan mann, sem þarf að sækja prest, að borga fyrir það 40–120 krónur, og það er líka mikið fyrir ungan og efnalítinn prest að leggja slíkt fram til að rækja embættisskyldu sína. Jeg skýt því til háttv. deildarmanna, hvort þeir þekki aðra annexíu, þar sem staðhættir geri svo erfitt fyrir um alla prestsþjónustu?

Við höfum aldrei haldið því fram, að þessi leið sje löng, hvort sem heldur er farið landleiðina eða sjóveg. En við höfum haldið því fram, og það er þungamiðja okkar máls, að hún sje erfið, og fyrir því höfum við fært þau rök, sem enn standa óhrakin. Þessi leið er oft ófær með öllu; það getur skift mörgum dögum, að komast megi landleiðina, og vikum saman ekki gefið á sjó. Þess eru dæmi, að presturinn hefir oft tepst dögum saman í Bolungarvík, og stundum jafnvel í hálfan mánuð hefir hann orðið að bíða byrjar. Það er langur tími þeim, sem veit, að nóg störf bíða heima fyrir. Hvernig getur háttv. frsm. meiri hl. (P. O.) haldið, að slíkt komi fyrir annarsstaðar?

Þá vildi háttv. frsm. meiri hl. (P. O.) efast um það, að við reiknuðum árslaun prestsins rjett, og bætti við þau dýrtíðaruppbótinni. Okkur þótti rjett að ganga út frá því, sem er; dýrtíðaruppbótin fer að öllum líkindum minkandi með hverju árinu, þangað til hún hverfur með öllu, og verður þá að ganga út frá þeim launum, sem prestinum ber samkvæmt lögum.

Það er í alla staði rjett, að þjóðin á heimting á því, að allir embættismenn landsins ræki sem best skyldur þær, sem þeir eiga af höndum að inna, og prestarnir eru þar ekki fremur undanþegnir en aðrir að helga starfinu krafta sína. En það verður þá að vera krafa til þjóðarinnar, að hún geri sitt til þess, að embættismenn hennar geti rækt skyldu sína, þjóðin verður að búa svo í haginn fyrir embættismennina, að þeir geti helgað alla krafta sína starfi því, sem þeir eru til kvaddir.

En um þennan prest er það að segja, að honum er gert það í alla staði ómögulegt að uppfylla skyldur sínar. Og þetta finnur enginn betur en sjálfur hann. Hann finnur, að hann getur ekki gegnt embætti sínu, ekki þjónað söfnuði sínum, eins og hann vildi, og veit sig því neyddan til að sækja burtu við fyrsta tækifæri, nái skifting þessi ekki fram að ganga.

Mjer dettur ekki í hug að fara í hart út af þessu, en jeg treysti svo sanngirni háttv. deildarmanna, að þeir sjái nauðsyn þessa máls, þegar þeir hafa athugað betur ástæðurnar. Fólksfjölgunin er ekki aðeins bundin við Hólssókn, heldur ber líka að líta á þann fjölda lausamanna, 2–300 manns, sem á vertíðinni streymir til Bolungarvíkur. Þetta eykur prestsþjónustuna til muna, t. d. þegar menn drukna o. fl. o. fl. Þetta er líka ein af ástæðunum. En þó þessu sje slept, er sóknin samt með heimilisföstum mönnum eitt fjölmennasta prestakall á landinu eftir skiftinguna, ef það verður sjálfstætt prestakall.

Jeg orðlengi svo ekki frekar um þetta. Málið græðir ekki á löngum umræðum, enda ber jeg það traust til háttv. deildarmanna, að ræða háttv. frsm. meiri hl. (P. O.) hafi ekki mörgum snúið frá rjettu máli.