02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

27. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Jóhannes Jóhannesson:

Allsherjarnefnd var falið að athuga breytingar á launalögunum. Hún sá brátt, að þær snertu ekki aðalgallann á lögunum, og auk þess ekki að vita, hvar numið yrði staðar, ef farið yrði að breyta launalögunum nú. Fyrir því leyfði nefndin sjer að koma fram með brtt. á þskj. 75. Hún lítur svo á þetta ákvæði um fjölda kennaranna, að það eigi heima í lögum um skólann. Launalögin ákveða ekki fjölda kennara við skólana yfirleitt, heldur að eins fjárhæð launa þeirra. Og í raun og veru er þetta ekki annað en að lögfesta það fyrirkomulag, sem er. Vonar nefndin því, að bæði hæstv. landsstjórn og Alþingi geti fallist á breytingartillöguna.

Úr því að hæstv. dómsmálaráðherra (J. M.) er hjer viðstaddur í deildinni, vil jeg nota tækifærið til að leyfa mjer að minna hann á, að lengur en til sumarsins 1922 má alls ekki dragast að bygt verði skólahús á Eiðum, svo að það verði tilbúið þá um haustið, er skólinn tekur til starfa. Og ef húsið á að vera tilbúið til kenslu haustið 1922, verður hið bráðasta að hefja undirbúninginn, og nú í sumar að viða að efni og gera annað það, er til flýtis má verða verkinu, svo að sjálft húsið megi byrja að reisa svo snemma vorið 1922, sem vinnufært verður, og verkamenn og efni þá að vera til taks. Þetta leyfi jeg mjer að vænta, að hæstv. dómsmálaráðherra (J. M.) hafi bugast, og láti allan nauðsynlegan undirbúning málsins fara fram í tæka tíð.