04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

39. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Mig langar til að spyrja hæstv. forseta, hvort engir aðrir hafi kvatt sjer hljóðs, t. d. hinn minni hl. maðurinn (E. E.), sem lofað var ræðu frá, svo jeg geti slegið báðar flugurnar í sama högginu. (Forseti: Það hafa engir kvatt sjer hljóðs). Jeg verð þá að láta mjer nægja þessa einu flugu til að vega að. (M. K.: Eru flugur hjer í deildinni?). Það veit jeg ekki, en hitt veit jeg, að hjer er verið að reyna að koma ljótri flugu í munn þm., þar sem er dagskrá háttv. minni hl. Og jeg vil heldur ekki neita því, að einhver flugufótur sje fyrir málstað háttv. minni hl., en það skal nú prófað.

Háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) hefir búið sig betur undir framsögu sína en jeg, því að jeg hafði ekki neina skrifaða ræðu með mjer.

Hann ljet undrun sína í ljós yfir því, að meiri hl. skyldi ekki hafa fallist á að fresta málinu, og mjer skildist á honum, að hvað sem á milli bæri, ættum við að fallast á að fresta því. Það má altaf segja, að mál sje ekki nógu undirbúið, en sú leið er ekki heppileg til framkvæmda, því þegar til lengdar lætur, mundi alt lenda í undirbúningi og engu lokið.

Við sjáum ekki ástæðu til annars en leggja til, að þessu máli verði lokið nú, og okkur finst sönnunarskyldan hvíla á þeim, sem vilja fresta málinu.

Hann færði rök að því, að þetta væri stórmál. Öll skólamálin eru yfirleitt stórmál. Og þessu máli hefir verið sýndur sá sómi, sem stórmálum á að sýna. Fyrst og fremst er því með þál. vísað til stjórnarinnar til undirbúnings og íhugunar. En þar sem hún ekki treystir sjer til að vinna að því sem skyldi, skipar hún sjerstaka menn til að verða ráðunauta sína um þetta mál. Þessi nefnd hefir nú starfað og látið fara fram rannsókn og síðan gefið ítarlegt álit. Auk þess hefir málið verið nauðrætt á fundum og ákaft deilt um það í blöðunum, og það einmitt þá hliðina, sem hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) vill að komi skýrt fram, og svo loks umr. hjer, eftir meðferð þingnefndar. Þessi undirbúningur finst mjer vera nægilegur til að sæma stórmáli, enda er þetta mál ekki svo stórt, að þingið geti ekki tekið ákvörðun um það þess vegna.

Annars rakst það á hjá háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.), er hann sagði, að lög um þetta efni væru aldrei nema rammi eða umgerð utan um skólann sjálfan. Það er undarlegt, ef sú rammasmið er svo vandasöm, að frestast þurfi árum saman. Sök sjer, ef um sjálft listaverkið hefði verið að ræða, listaverkið, sem í rammanum á að vera. Það er engin ástæða til að fresta því, og verður því að álykta, að það sje einungis af þráa að vilja ekki afgreiða það á þessu þingi. Þetta mál hefir fengið slíkan undirbúning og er þess eðlis, að jeg er hræddur um, að lítið muni græðast á því að leita umsagnar þjóðarinnar.

Um það, hve bær þjóðin sje að dæma um slíkt mál sem þetta, þá má náttúrlega svara því á báða vegu. Því neitar enginn, að nauðsyn sje, að þjóðin sje ánægð með þennan skóla og standi bak við hann með velvilja og áhuga. En hitt er jafnvíst, að það verða ávalt fáeinir menn, sem verða að ráða þessu máli til lykta. Þeir verða að framkvæma undirbúninginn og leggja sinn málstað fram og verja hann, og þjóðarinnar hlutverk takmarkast eðlilega við það, að velja milli málstaða. Þjóðarumsögn er jafnan tvíeggjað sverð, þegar svo stendur á. Það skiftir henni í flokka og vekur hjá þeim partinum, sem ekki fær sitt mál fram, óánægju, sem annars mundi ekki brydda á. Jeg skal heldur ekki neita því, að til sjeu þeir menn, sem gætu sagt álit sitt á þessu máli, ef þeir hefðu tækifæri og tíma til að rannsaka það, en sjeu ekki búnir að því enn þá, en hve lengi á að bíða eftir því? Hygg jeg, að lengi mætti segja, að einhver væri eftir.

Hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) sagði, að mjög tíðar breytingar í skólamálum væru ekki hollar, og ef þessum breytingum væri komið á, þá mundu þær má ske reynast óhollar, svo að fljótt þyrfti að skifta um aftur. En jeg vil segja, að betri er holl breyting en óholt framhald, er búa þyrfti við um óratíma. En svo býst jeg við því, án þess jeg hafi heyrt það, að minni hl. mundi vilja líka fara fram á ýmiskonar breytingar, jafnvel þó þær yrðu ekki í þessa átt, sem hjer hefir verið stungið upp á, og hver er þá munurinn í þessu efni? — Jú, hann er sá, að þeir vilja sennilega breyta enn lengra í þá áttina, sem hjer er óreynd, fara enn lengra eftir þeirri braut, sem nú hefir reynst svo, ja, jeg vil segja hæpin, en við viljum aftur á móti fara nær því, sem hjer er þaulprófað, sníða af því agnúana, sem á voru, en halda annars því, sem fylgt hefir þjóð vorri um langan aldur.

Háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) beitti mörgum vopnum í málsvörn sinni. Og meðal annars tók hann þann kost, sem skáldið segir að oft sje tekinn í röksemdaþroti, að „lesa upp nafnspjöld frægra manna“. Hann las upp ummæli próf. Ágústs Bjarnasonar, sem vitanlega er mótfallinn þessu fyrirkomulagi, því að eftir hans tillögum ættu að vera 2 lærðir skólar, annar á Akureyri, en hinn í Reykjavík, og annar yrði þá náttúrufræðisdeild, en hinn málfræðisdeild. En þetta er fjarstæða; það eina, sem gæti rjettlætt þetta, er að þjóðin væri skift að gáfnafari eftir landsfjórðungum. Annars væri þetta ekki til annars en gera öllum landshlutum erfiðleika.

Þá er vitnað í það, að 3 kennarar mentaskólans sjeu mótfallnir því fyrirkomulagi, sem stungið er upp á í nál., en þá mætti draga upp nafnspjöld á móti og segja: Stjórnin og meiri hluti kennaranna er með nefndarmönnunum.

Háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) las upp kafla eftir Jóhannes Sigfússon kennara, þar sem hann talar um, að hann telji óheppilegt að gera skólann að tilraunastöð. En með þessum breytingum, sem farið er fram á, er alls ekki hægt að skoða hann sem tilraunastöð En maður gæti sagt, ef gera ætti mentaskólann að 4 ára „Gymnasium“, að þá kæmi eitthvað nýtt, sem mætti nefna tilraunastöð. En hins vegar gæti það ekki talist það, þó skólanum yrði breytt allnærri því horfi, sem áður var. Þá las hann upp kafla úr álitsskjali Þorl. H. Bjarnasonar, um að heimsstyrjöldin hafi hnekt vexti og viðgangi skólans. En jeg veit ekki, hvernig heimsstyrjöldin getur haft nokkur áhrif í þessu efni; þótt hún hafi miklu umrótað hjer hjá okkur, þá má þó ekki kenna henni það, sem hún á enga sök á.

Háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) talaði um skoðun hinna yngri manna á þessu efni og kvað þá alla andvíga þessari breytingu, sem hjer er farið fram á. Jeg veit ekki, hvernig hv. þm. fer að vita svo vel um þetta, því að mjer er ekki annað kunnugt en að þar sjeu, eins og annarsstaðar, skoðanir talsvert klofnar í þessu máli. Fyrst eftir að breytingin var gerð, sú, sem nú á að vera orðin svo hugþekk öllum, var mjer kunnugt um, að hún var mjög litin hornauga af hinum yngri mentamönnum. Hún þótti eitthvað „simpil“. En nú hafa menn þá, eftir þessu, sætt sig við og sannfærst um ágæti þess, sem þeir áður fældust, og ef svo er, skyldi þá ekki vera mögulegt að spá eitthvað svipuðu um mótspyrnuna nú gegn þessari breytingu?

Háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) sagði, að jeg vildi ekki fresta málinu af því, að jeg væri hræddur um, að okkar málstaður mundi tapa við það, og við vildum þess vegna knýja málið í gegn nú á þessu þingi. En ef jeg hjeldi það, þá mundi jeg ekki halda fram breytingum í þessa átt. — Ef jeg væri sannfærður um, að eftir eitt ár mundi meiri hl. verða á móti þessu, þá áliti jeg sjálfsagt að fresta því. Það er vist enginn svo einfaldur, að hann leggi fús og viljugur út í það, sem hann veit að hann muni á næsta ári fá það fyrir að standa skömminni íklæddur. En jeg er ekki hræddur um það. Það er nú eins og ávalt, að andstaðan blossar mest upp fyrst í stað. Svo dregur heldur úr, og orustuvíman rennur af. En þá koma hinir fram, sem sjá það heilbrigða í málstaðnum, og verja hann, og reynist þá oft minni veigur í öllum þeim firna mótbárum, sem fyrst komu fram. Fyrir mjer má því málið bíða, því að jeg veit, að breytingunni eykst fylgi þangað til, nema ef hreppapólitík á að ráða þessu skólamáli til lykta. En jeg sje bara enga ástæðu til þess að skjóta málinu fram af sjer snú.

Mjer heyrðist háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) vera að tala um, að þó að skólinn yrði gerður óskiftur lærður skóli, mundi svo sem ekkert þurfa að breyta kenslunni í þeim þrem neðstu bekkjum skólans, sem nú eru gagnfræðaskóli, og hann mun hafa þetta eftir einum kennaranum). Jeg þekki nú auðvitað ekki mikið til kenslunnar í þessum bekkjum, en það veit jeg og sje í hendi mjer, að sje þetta satt, þá er það aumi gagnfræðaskólinn, sem við búum nú við, og ekki von, að margir noti hann „sem slíkan“. Eða þá, ef hann er nú góður sem gagnfræðaskóli, þá verður það auma undirstaðan undir vísindanám, sem lögð verður í 3 neðstu bekkjunum. Auðvitað hjálpar gagnfræðamentun til fyrir þann, sem áfram vill halda, en hann á þó að byrja á upphafinu og leggja grundvöllinn fastan. Hann hefir með gagnfræðamentuninni viðað að efni, og getur því verið fljótari að byggja, en grundvöllinn á að leggja rjettan. Annars virðast mjer ekki nein rök fylgja þessari staðhæfingu, að engu þurfi að breyta í 3 neðstu bekkjunum, og þarf því ekki að ræða það frekar.

Þá sagði hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.), að þeim hefði farið fjölgandi einmitt nú allra síðustu árin, sem hefðu hætt að gagnfræðaprófi loknu, og vildi telja það sönnun þess, að menn væru nú að læra að nota gagnfræðadeildina sem gagnfræðaskóla, og ráðunautar stjórnarinnar hefðu því gert rangt, er þeir tóku ekki allra síðustu ár með í reikning sinn. Já, hjer sjest nú, hve alt er notað og grunt á málið litið. Áður var á það minst, að stríðið hefði tálmað því, að gott lag kæmist á skólann, sem vitaskuld var því óviðkomandi. — En hjer hefði verið nær að minnast á afleiðingar stríðsins. Því að hjer koma þær skýrt fram. Þetta, hve miklu fleiri hafa nú hætt að þrem árum loknum, er auðvitað bein afleiðing þess, að dýrtíðin hefir verið að þrengja fastar og fastar að, og námsfólk er hætt að standast hana og verður að hætta, en kemur ekkert hinu málinu við.

Háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) talaði um, að ekki væri hægt að hlaða veggi á húsi, ef undirstöðuna vantaði. Jeg skal ekki rengja það. En hv. þm. (Þorst. J.) vildi heimfæra þetta upp á það, að byrjað væri frá blautu barnsbeini á því að undirbúa börnin undir þann lærdóm, sem þau síðar ættu að nema. Þetta veit hv. þm. (Þorst. J.) að er ekki rjett. Lestur, skrift og önnur barnaskólakensla getur ekki talist lær dómur, heldur aðeins undirstaða, sem öllum er nauðsynleg. Lærdómurinn byrjar fyrst, þegar barnaskólunum sleppir. Þegar barn byrjar að læra að stafa, er ekki farið að hugsa um það, hvort það eigi að ganga lærða veginn eða ekki. En þegar menn eru komnir á þann aldur, að þeir geti farið að ganga í skóla, aðra en barnaskóla, munu flestir nokkuð í því ráðnir. Og svo hefir það reynst hjer í Reykjavík, að þeir, sem hafa gengið í mentaskólann, hafa fæstir hætt við gagnfræðapróf. Og þegar svo er, þegar skólinn er af flestum notaður sem sjálfstæður heildarskóli, á hann líka að vera það í raun og veru. Þeir, sem ætla alla leið í gegnum lærða skólann, þurfa aðra undirbúningsmentun en þeir, sem ganga aðeins í alþýðuskóla. Þeir, sem t. d. ætla að læra mál til þess eins að skilja þau, hafa ekki ráð á að læra mikið í málfræði og þesskonar, sem er þeim nauðsynleg, sem læra vilja mál vísindalega. Þessir menn eiga því enga samleið.

Þá hjelt hv. þm. (Þorst. J.), að hægt væri að gera gagnfræðaskólann á Akureyri svo úr garði, að þeir, sem þaðan kæmu, gætu gengið inn í 4. bekk lærða skólans. Þetta getur ekki orðið almenn regla. Þeir einir, sem færastir eru, ættu að geta gengið upp í 4. bekk, og þó eftir einhvern aukaundirbúning. Þetta fyrirkomulag yrði ekki til þess að útiloka námsmennina, því að hjer er bent á leið fyrir þá færustu til að fara kostnaðarlítið skóla úr skóla. Þessi breyting er til þess gerð, að lærðu mennirnir okkar verði úrvalið úr þjóðinni, en nú er þessi vegur nokkuð breiður og greiðfær.

Það er misskilningur, að í þessu liggi nokkur „antisocialistisk“ tilhneiging, eins og haldið hefir verið fram. Það er ekki verið að hlaða undir sjerstaka menn á kostnað hinna, eða verið að gera mentunina að sjereign nokkurra manna, heldur er hjer aðeins um skynsamleg vinnuvísindi og hyggilega verkaskiftingu að ræða. Mentun er ekki eingöngu falin í lærdómi. Menn geta öðlast hana í alþýðuskólum og öðrum skólum, en þó aðallega af sjálfum sjer. En þeir, sem eiga að verða vísindamenn, þurfa sjerstakan undirbúning, hjá því verður ekki komist, en er þó ekki þar með sagt, að hann sje neitt göfugri eða betri en sá, sem aðrir fá. Það er ekki verið að reyna að koma upp mentamannaaðli, heldur er þetta tilraun til þess að bæta undirbúning embættis- og vísindamannaefna vorra, svo þeir geti orðið færari um starf sitt, alveg á sama hátt og handverksmenn, kaupmenn, sjómenn og hverjir sem eru, verða að fá undirbúning við sitt hæfi. Það verður að tryggja það, að þeir geti fengið svo fullkominn undirbúning, að þeir heykist ekki við háskólanámið. Mentaskólinn verður því að vera svo þungur, að í gegnum hann komist ekki nema sæmilega duglegir og gáfaðir menn, og hann verður að hafa veitt þeim andlegan þroska og næga undirbúningsmentun undir háskólanám.

Hjer er því ekki verið að útiloka aðra en skussana, og dæmisaga hv. þm. um Ásu, Signýju og Helgu var því óheppilega valin. Það styður minn málstað. Það er einmitt Helga, sem ber sigur úr býtum, en hún er líka best gefin frá upphafi, og hana viljum við krækja í.

Þá taldi hv. þm. (Þorst. J.), að margir væru ekki búnir að ráða við sig um gagnfræðapróf, hvort þeir hjeldu áfram eða ekki. Þetta held jeg að sje ekki rjett. Þegar menn fara í mentaskólann, hafa þeir flestir ákveðið að reyna að ganga hann á enda, og svo hefir reynslan orðið. Það hefir oft verið meiri vafi meðal stúdenta um, hvaða námsgrein þeir ættu að velja, þegar þeir koma á háskólann, heldur en hjá gagnfræðingum, hvort þeir ættu að halda áfram eða ekki. Og af þessari ástæðu er það, að jeg hefi oft verið hræddur við skiftinguna í stærðfræðis- og málfræðisdeild. Mönnum er eðlilega illa við að binda sig svo snemma. En þeir eru flestir ákveðnir í því að ganga lærðu brautina, úr því að þeir hafa lagt út á hana á annað borð. Sú ákvörðun er oft tekin á unga aldri, og var það alsiða hjer áður, að þegar börn gengu til prestsins og einhver þótti skara þar fram úr, reyndi prestur að stilla svo til, að viðkomandi barn væri sett til menta. Margir af okkar mætustu mönnum eiga þetta upphaf skólagöngu sinnar. En þetta hefir því miður breyst. Nú er gangurinn greiðfær úr efsta bekk barnaskólans yfir í mentaskólann, og er þetta óspart notað af Reykvíkingum, sem von er til. Börnin fljóta inn um þennan breiða ós og berast síðan upp eftir fyrirhafnarlítið, því að nú eru fáir fossar, sem þarf að stikla, eða straumar að standa á móti. Það fer því fjarri lagi, að þessi breyting sje til óhagræðis fyrir sveitirnar. Hún setur þær hærra, miðað við Reykjavík, en áður var. Þá er það einnig misskilningur, að þetta sje til óhagræðis fyrir Norður- og Austurland. Þeir geta eins sent börn sín til Reykjavíkur eins og til Akureyrar. Það er sagt, að dýrara sje að lifa hjer. Jeg á bágt með að trúa því. Öll erlend vara ætti þó að vera ódýrari hjer. Það, sem gerir muninn, er aðallega heimavistin á Akureyri. En ef heimavistir kæmust á hjer, væri þessi munur úr sögunni. En um þetta er ekki hægt að segja nákvæmlega fyr en það er rannsakað.

Hv. þm. (Þorst. J.) hjelt því fram, að þetta yrði til þess að fækka nemendum við Akureyrarskóla, en fjölga þeim hjer. Á Akureyri fækkar að vísu um marga þá, sem ætla að ganga lærða veginn, en ef menn halda, að hjer fjölgi, viðurkenna þeir, að hjer stundi enginn aðeins gagnfræðanám, því ef svo væri, þá ættu þeir að hverfa úr skólanum við breytinguna. Gægist ekki það sanna hjer óvart upp úr moldviðrinu, sem þyrlað er upp utan um þetta mál? En jeg held, að hjer muni samt fækka, þó að þessu sje ekki til að dreifa. Inngangan í skólann verður ekki eins auðveld, og skólinn skilur frekar sauðina frá höfrunum. Hingað til hafa þeir fengið að fljóta með.

Þá er sú mótbára, að þetta yrði kostnaðarsamt. Jeg held, að það verði hverfandi. Þetta mundi að vísu verða þess valdandi, að setja yrði á stofn gagnfræðaskóla hjer eða auka skólann í Hafnarfirði, en þessi kostnaður hlýtur að koma hvort sem er, því undarlegt má heita, að Reykjavík eða Suðurland skuli ekki eiga verulegan alþýðuskóla.

Að endingu get jeg tekið hátíðlega undir þau fögru orð, sem háttv. þm. (Þorst. J.) viðhafði um móðurmál vort, og eins get jeg tekið undir þá ósk, að menn læri að skrifa íslensku, en ekki latínu í þess stað. íslenskunni verður ekki um of lof sungið, og er sjálfsagt, að hún hafi heiðurssess í öllum skólum vorum. Það hefir engum dottið í hug að offra henni á altari annara námsgreina og í stjórnarfrv. eru henni ætlaðir eins margir tímar og nokkurri fræðigrein annari. En það er svo, að enginn er spámaður í sínu föðurlandi, og það er hætt við, að íslenskan sje ekki heppileg til þess að vera aðalþrautaefni nemenda. Þeir þykjast þar altaf nokkuð færir; vona að minsta kosti, að þeir geti bjargað sjer, og þess vegna er hún ekki heppileg sem aðalviðfangsefni til þess að þroska nemendur. Um latínuna er öðru máli að gegna. Hún er mönnum ókunn með öllu, erfið og strembin. Menn standa í fyrstu ráðalausir yfir þessum flóknu, samanbörðu setningum, sem virðast tyrfnar og torfærar fyrst, en liggja svo dásamlega beint við, þegar þær eru skildar. Latínan er þess vegna námsgrein, sem hægt er að nota til þess að reyna á þolrif nemendanna; hún er hreinsunareldurinn, sem skilur að það, sem aðskilja á. — Aðaltilgangur hennar er ekki að opna latneskar bókmentir fyrir mönnum, því að þær eru nú til í ágætisþýðingum, og grískan væri betur valin í þessu augnamiði það á heldur ekki að fara að stofna latinuskóla. Það er mikill munur á þessu fyrirkomulagi og gömlu latínuskólunum. Þar var kend latína, aftur latína og enn latína. í skólunum var alt talað og skrifað á latínu. Ef farið væri fram á slíkt, hefðu menn ástæðu til að hampa því, að verið væri að vekja upp gamlan draug, en því er ekki til að dreifa. Latínan á aðeins að vera þroskameðal, og hún verður ekki mikið kend. Ef latína og íslenska væru hlutfallslega jafnt kendar, þyrftu 3 latínutímar að koma á móti hverjum íslenskutíma. Menn kunna ekkert í latínu, er byrjað er að kenna hana í skólanum, en svo mikið í íslensku, að þetta er minsti munur, sem á þeim er hægt að gera.

Það hafa komið fram óskir inn að fresta þessu máli, en jeg sje ekki til hvers. Málið hefir fengið ágætan undirbúning og er þaulhugsað. Jeg sje ekkert unnið við frestun; jeg held, að ekkert eða fátt nýtt eigi eftir að koma hjer fram, og jeg hefi áður sýnt fram á, að þetta mál þarf ekki að bíða eftir því, að mentamálin verði tekin fyrir í heild.