10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (3056)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Björn Hallsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara og vildi með nokkrum orðum skýra frá því, hvers vegna jeg gerði svo. Það var ekki vegna þess, að jeg væri alveg og með öllu ósammála meðnefndarmönnum mínum, því að þá hefði jeg skrifað sjerstakt nál. Jeg var sammála þeim um það, að sjálfsagt væri að leggja útsvar á mikil jarðarafnot utan hrepps til heyskapar, sem svo er seldur, án þess að hreppurinn hafi hans not. En það þykir mjer ósanngjarnt, að lagt sje á, þótt fátæklingar í kaupstöðum þurfi að fá fáeinna hesta slægju leigða til afnota, til þess að fá mjólk handa börnum. Mjer þætti líka ósanngjarnt, ef jeg lánaði nágranna mínum utan hrepps smáengjablett, af því að hann gæti ekki fengið hann í sínum eigin hreppi, vegna grasbrests þar, að þá sje hægt að leggja útsvar á hann í mínum hrepp. Það þykir mjer ranglæti. Þessi maður verður þó að borga mjer fyrir engjalánið, og fæ jeg því tekjurnar. Að vísu segir nefndin í nál., að opin leið sje til þess að kæra, ef of hátt er lagt á, en jeg er á sama máli og hv. 2. þm. Skagf. (J. S.) um það, að margir hika við að kæra vegna fárra króna. Það kostar oft talsverða fyrirhöfn. Flestum mun kunnugt um það, að hreppsnefndir eru mjög tregar til að breyta útsvörum, nema augljós ástæða sje til, og sýslunefndir eru enn tregari til að breyta úrskurðum hreppsnefnda. Þær vilja ekki innleiða útsvarskærur á sig meira en nauðsynlegt er. Vita líka, sem rjett er, að hreppsnefndir eru kunnugri ástæðum aðilja en þær. Þess vegna finst mjer ósanngjarnt að leggja á þau heyskaparafnot, sem frv. þetta ætlast til að sjeu undanþegin útsvari. En jeg er sammála nefndinni um það, að útsvari þurfi að ná af þeim utanhreppsmönnum, sem leigja heilar eða hálfar jarðir og flytja heyið og selja í burtu. Með því tapast auðvitað gjaldþol af þeirri framleiðslu, sem mætti hafa á jörðinni. Þannig mun það til, að menn í Reykjavík leigi heilar jarðir í sveitunum í kring og „spekúleri“ með heyið. Hlutaðeigandi hreppur þarf auðvitað að ná útsvari af þeim mönnum.

Það kom til orða í nefndinni að reyna að fara einhverja miðlunarleið, en hún fanst engin, svo að tiltækileg þætti. Það var t. d. talað um binda slægjuafnot við ákveðna hestatölu, en auðvitað er ávalt hægt að fara í kringum slíkt, og því þótti það ekki tiltækilegt.

Jeg hefi því sem stendur tilhneigingu til að hallast heldur að frv., og mun að minsta kosti greiða atkv. með því til 3. umr. og sjá svo, hvort jeg get ekki komið með brtt. til miðlunar og samkomulags.