10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg get ekki látið hjá líða að segja nokkur orð, þó að mjer þyki umræður þessar orðnar fulllangar.

Jeg álít, að háttv. flm. (J. S.) hafi í raun og veru mikið til síns máls. En jeg verð að taka undir mótmæli háttv. frsm. (P. O.) gegn einu ákvæði frv. Jeg get ekki betur sjeð en ef frv. verður samþ. óbreytt, þá sje stór hætta á, að hreppar nálægt kaupstöðum og kauptúnum leggist í eyði. Háttv. flm. (J. S.) ber fyrir sig, að það megi leggja á útsvarsskylda hreppsmenn, sem leigja út slægjurnar.

Jeg mótmæli því, að það sje mögulegt, því að venjulega eru slægjurnar leigðar svo lágt, að það svarar nálægt því, sem afnotarjetturinn gefur af sjer.

Jeg veit, að áður var talsvert oft, bæði í minni sveit og víðar, þar sem jeg þekki til, leigðar út slægjur, bæði innan- og utansveitarmönnum, en nú er alveg hætt að leigja innansveitarmönnum vegna þess, að Reykvíkingar og ýmsir aðrir kaupstaðarbúar bjóða miklu hærra í afnotin. En þá er ófært að leggja ekki á þessa menn útsvör. Nú er svo komið, að 8–10 jarðir eru lagstar í eyði í þeirri sveit, sem jeg er í. En hvar á þá að fá það fje, sem bændur á þessum jörðum hafa greitt í sveitarsjóð? Jeg nefni þetta aðeins sem glögt dæmi upp á afleiðingar frv.

Jeg ætla ekki að lengja meira umr. en vil taka það fram, að ef gengið er inn á þessa braut, þá má ganga að því vísu, að hreppar nálægt Reykjavík og öðrum fjölmennum kaupstöðum og kauptúnum muni leggjast í eyði.