19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (3135)

99. mál, laun embættismanna

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Þetta mál, sem hjer um ræðir, er ekkert stórmál, og þarf jeg því eigi að eyða um það mörgum orðum.

Í lögum nr. 54, 1907, um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands, er tekið fram í 3. gr., að ráðherra skipi skógarverði eftir þörfum.

Skógarverðir þessir hafa verið skipaðir fyrir Vaglaskóg og Hallormsstaðaskóg, og svo sá þriðji fyrir Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslur.

Skógarverðir þessir fengu hver um sig 1000 kr. Í laun, þangað til launalögin 1919 gengu í gildi, en þá fengu 2 hinna fyrnefndu skógarvarða 1200 kr., en sá þriðji, skógarvörðurinn fyrir Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslur, fjell úr, og sat því með sömu laun, 1000 kr., áfram. Auk þess hafa hinir fyrnefndu notið ýmsra hlunninda, sem þessi skógarvörður hefir ekki notið.

Það virðist nú sjálfsagt, að allir skógarverðirnir hafi sömu laun, og því er þetta frv. borið fram til að samræma þetta. Hv. fjvn. hefir nú sett þennan skógarvörð á bekk með hinum, með því að ætla honum viðbótarlaun fyrir árið 1920. Verði frv. þetta samþ., mun jeg koma fram með brtt. við fjáraukalögin, ef þau koma hingað aftur, til þess að samræma þetta fyrir árið 1921.

Ætla jeg svo ekki að fjölyrða meira um frv. þetta, en vonast til, að það nái fram að ganga, þar eð öll sanngirni mælir með, að maður þessi fái sömu laun sem starfsbræður hans, þar sem erindisbrjef þeirra er samskonar og ábyrgð allra jafnrík.

Frv. er svo lítið og auðskilið, að jeg sje eigi ástæðu til, að því verði vísað til nefndar.