18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg er að mestu leyti samþykkur nefndinni og meðferð hennar á þessu máli, og get fallist á þær breytingar, er hún gerði.

Hvað því viðvíkur, að örðugt muni að fullnægja ákvæðum þess, svo sem rannsókn á lýsi og síldarmjöli, þá vil jeg geta þess, að það er ógnar auðveld efnarannsókn á þessum vörum.

Um lifrina kannast jeg við, að það mundi tæplega svara kostnaði að gera þá efnarannsókn á henni, sem að gagni kæmi fyrir kaupanda. Jeg legg þessvegna aðaláhersluna á niðurlagsorð liðsins, að lifrin sje ekki svikin með vatni. Hún er nefnilega einmitt á þann hátt mest svikin.