27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Flm. (Jakob Möller:

) Jeg ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að þeim hv. þm., sem síðast hafa talað. Undanskil jeg þar þó hv. samnefndarmann minn þann er síðast talaði (Þorst. J.), því þó hjá honum hafi komið fram smáatriði nokkur, sem jeg ekki get fallist á, þá sje jeg þó ekki ástæðu til að svara því sjerstaklega, enda sama fram komið hjá öðrum hv. þm.

Jeg byrja þá á hv. 2. þm. Reykv. (J. B.). Hann gat þess, að hjer lægi ekki fyrir nema önnur hlið málsins.

Þetta er að vísu rjett. En þó hefir það komið fram bæði í framsöguræðu minni og í nál., hverja lausn nefndin hugsar sjer á peningakreppunni. En till. nefndarinnar í þá átt eru ekki enn fram komnar vegna þess, að meira þurfti að flýta þessu frv. Bjargráðatill. nefndarinnar geta hvort sem er ekki komið straks til. framkvæmda, og varla fyr en eftir þinglok, og því ekki svo mjög saknæmt þótt frestist framkoma þeirra um 1 eða 2 daga. Við höfum nú þegar beðið þess í 12 mánuði, að hæstv. stjórn gerði eitthvað til bjargar fjárhag landsins. Og jeg býst við því, að hvað sem annars líður afgreiðslu málsins hjer á þingi, þá muni enn verða sami seinagangurinn hjá stjórninni, er til framkvæmda kæmi, á meðan hún fer með völdin.

Í seðlamálinu er um tvenskonar grundvöll að ræða, og við vildum þá fyrst sjá, hvernig tekið yrði frv. okkar um að skipa þeim málum til bráðabirgða. Og jeg bjóst við því, að deildin gæti tekið afstöðu til þessa frv. með hliðsjón af þeim tillögum til bjargráða, er fram koma í nefndarálitinu.

Hitt er annað mál, hvort hv. þm. geta sætt sig við þær bjargráðatill. er frá nefndinni koma síðar, enda hafa þeir um það óbundnar hendur, hversu sem fer um afstöðu þeirra til þessa frv. En væntanlega verður ekki um það deilt, að seðlaútgáfunni verði að skipa á einn eða annan hátt, að minsta kosti til bráðabirgða.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) taldi það galla á frv., að feld væri niður yfirfærsluskylda Íslandsbanka, og háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) tók þar í sama streng og sagði, að ekki bæri að ljetta kvöðum af bankanum, meðan hann þurfi hjálpar við af ríkinu. En jeg vil segja, að einmitt úr því að ríkið þarf að hjálpa bankanum á þann hátt að útvega honum fje, þá er ástæðulítið að vera að þyngja honum með slíkum kvöðum meðan svo stendur, kvöðum, sem hann alls ekki getur uppfylt og aðeins geta orðið til að vekja ófrið um bankann. Og þar sem við ekki höfum neitt gagn af þessu ákvæði, þá er sjálfsagt að sleppa því. Hitt er annað mál, hvort gefa á bankanum svo að segja alveg lausan tauminn og láta eftir honum alt, sem hann kann að heimta. Jeg vil t. d. alls ekki fyrirfram binda seðlaútgáfurjettinn til 1924. Og það er með öllu ástæðulaust, ef ríkissjóður á að hlaupa undir bagga með bankanum hvort eð er. Annars mun jeg koma betur að þessu atriði í sambandi við ræður hæstv. ráðherra.

Mjer var satt að segja ekki vel ljóst, hvað fyrir hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) vakti í ræðu hans. Hann virtist vera hræddur við alt. En þó fanst mjer það ekki vel í samræmi við þessa hræðslu hans að vilja þá skipa endanlega seðlaútgáfumálunum áður en samið væri við bankana, ekki síst þegar hann jafnframt heldur því fram, að einn mikils megandi maður, útlendur, en nákominn Íslandsbanka, muni hafa tilhneigingu til þess að hremma undir sig of mikil yfirráð yfir peningamálum vorum og skella skolleyrum við kröfum okkar. En ef svo er, finst mjer síst ástæða til þess að gefa þeim góða herra eftir alt, sem hann kann að heimta, einkanlega ef ekkert fæst í aðra hönd.

Viðvíkjandi ræðum hæstv. ráðherra, þá skal jeg taka það fram, að þegar jeg hóf máls hjer í hv. deild í gær, þá ætlaðist jeg alls ekki til, að hjer yrðu í sambandi við þetta mál harðar deilur um afskifti eða öllu heldur afskiftaleysi núverandi stjórnar af fjárkreppunni. Enda stilti jeg þá orðum mínum mjög í hóf í garð stjórnarinnar. Hæstv. atvrh. (P. J.) virðist og hafa skilið þetta, því hann svaraði mjög hógvært og stillilega.

Alt öðru máli var að gegna um hæstv. fjrh. (M. G.), og má hann því sjálfum sjer um kenna, ef orð mín hrjóta nú nokkuð á annan veg en í gær.

Við ræðu hæstv. atvrh. (P. J.) hefi jeg ekki margt að athuga. Hann gerði grein fyrir seðlaútgáfusamningum stjórnarinnar við bankana báða. Og hefir hann þar vafalaust skýrt rjett frá. — Þar á meðal gat hann þess, að nokkur ágreiningur hefði verið milli bankanna um fyrirkomulagið og að komið hefði fram krafa frá Landsbankanum um að hann fengi útgáfurjett á hinum svo nefndu toppseðlum. Er mjer ekki grunlaust um, að ýms annar ágreiningur hafi komið fram í þeim samningaumleitunum. En það er eftirtektarvert, hvernig hæstv. stjórn hefir farið að því að sneiða hjá þessum ágreiningsatriðum í frv., sem hún lagði fyrir þingið.

Í fyrstu gr. frv. er nokkurn veginn skýrt ákvæði um útgáfu toppseðlanna og virðist Íslandsbanki tvímælalaust eiga að fara með hana samkvæmt þeirri grein, en svo er önnur grein sett þar á eftir, sem ekkert erindi virðist eiga í frv. annað en að gera þetta óljóst, og segir þar, að stjórnarráðið skeri úr, ef bankana greini á. Sú grein hefir og valdið því, að bankastjóri Íslandsbanka ljet þess getið, að hann vissi ekki glögt, hve útgáfurjetturinn væri rifur samkv. frv., og eins og jeg vjek að í framsöguræðu minni, þá er mjer ekki grunlaust um, að stjórnin hafi beinlínis viljað, að þetta væri á huldu. Hæstv. ráðherra (P. J.) sagði það og vera tilganginn með frv., eða hann kvaðst skilja það svo, að Landsbankinn fengi toppseðlaútgáfuna. En þá er mjer líka óhætt að fullyrða, að Íslandsbanki telur frv. algerlega óaðgengilegt. Á hinn bóginn var því lýst yfir við nefndina, að Íslandsbanki ætti að hafa toppseðlaútgáfuna á .hendi.

Hæstv. atvrh. (P. J.) gaf í skyn, að nefndin hefði sagt meira en rjett var um, hvað stjórnin hefði sagt um, að frv. hennar leysti úr fjárkreppunni. En stjórnin sagði beinlínis, að ef frv. stjórnarinnar yrði samþ., þá væri gert ráð fyrir því, að það eitt mundi nægja til þess að greiða úr fjárkreppunni. Jeg skal ekki fullyrða, að hæstv. stjórn hafi sagt þessi orð hjer í þingsalnum, en hafi þau ekki þar fallið, þá hefir hún sagt þau á nefndarfundi, og það oftar en einu sinni, enda veit jeg, að þau eru bókuð í fundabók nefndarinnar. En þessi og slík ummæli stjórnarinnar voru beint í því skyni gerð að svæfa nefndina og fá hana til að fallast á stjórnarfrv. Og jeg vil ganga svo langt að fullyrða það, að stjórnin hafi beinlínis reynt að halda þýðingarmiklum skjölum fyrir nefndinni, til þess að koma í veg fyrir, að hún fengi rjettan skilning á málinu, og hefir það orðið til þess að tefja nefndarstörfin að miklum mun. Stjórnin hefir skjöl í höndum, sem jeg fullyrði að sýni það óvefengjanlega, að Íslandsbanki geti ekki komist af án hjálpar ríkisins, og þá um leið að seðlaskipunin hefir enga þýðingu í því efni.

Nefndin hafði ástæðu til þess að ætla, að stjórninni hefðu borist einhver skrif eða skilríki frá Danmörku, þess efnis, að Íslandsbanki mundi lítils lánstrausts mega vænta þar, og í útlöndum yfirleitt, á eigin spýtur, hvernig svo sem úr seðlamálinu yrði greitt. Nefndin gerði tvívegis tilraunir til að fá að sjá þessi skjöl. Í fyrra skiftið var því algerlega neitað, að stjórninni hefðu borist slík skjöl. í síðara skiftið var það einmitt mjer falið að grenslast eftir því hjá stjórninni, hvort hún hefði fengið nokkur skrifleg gögn máli þessu viðvíkjandi frá sendiherranum í Kaupmannahöfn eða öðrum. Jeg spurði fyrst hæstv. fjrh. (M. G.) um þetta, og kvaðst hann ekki vita til þess. Jeg spurði þá hæstv. forsrh. (J. M.) um það sama, en hann kvaðst þá ekki muna það, en lofaði að gæta að því og láta þá nefndina vita, ef svo væri. — Jú, honum tókst þá að grafa upp þessi skjöl, og jeg get fullvissað hv. deild um það, að það er alveg óhugsandi, að hæstv. ráðherrann hafi ekki „munað eftir“ efni þeirra.

Jeg skal geta þess, að það var ekki ætlun mín að blanda þessu hjer inn í umr., en stjórnin hefir sjálf gefið tilefni til þess. Hins vegar geta menn af þessu ráðið, hve erfiða aðstöðu nefndin átti.

Þá er það alrangt hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að nefndin hafi látið nokkurt orð falla í þá átt, að hún hefði frá upphafi talið stj.frv. algerlega óaðgengilegt. Það vakti einmitt fyrst fyrir nefndinni að byggja á stj.frv., eða á líkum grundvelli. En síðar bárust nefndinni sem sagt þær upplýsingar, að hún var til neydd að hverfa frá því, og að öðru leyti reyndist undirbúningur málsins frá stjórnarinnar hálfu í öllum atriðum svo nauðaljelegur, og yfirleitt svo lítið á því að byggja, sem hún upplýsti um samningana við bankana, að nefndin sá ekki fært að byggja að neinu leyti á þeim grundvelli.

Ágreiningurinn er nú um það, hvort eigi að framlengja seðlaútgáfurjettinn um 1 ár eða til 1924. Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að þetta væri smávægilegt formsatriði. (P. J.: Það hefi jeg ekki sagt). Jeg hefi þó skrifað það niður hjá mjer. (Gunn. S.: Jeg líka). (P. J.: Ef jeg hefi sagt það, þá hefi jeg ekki sagt það í þessu sambandi). Úr því hæstv. atvrh. (P. J.) gengur frá þessum orðum, þá er ekki meira um það að segja. En þetta er þó það atriði, sem skilur. Og að minsta kosti var það ekki smávægilegt, sem á eftir fór í ræðu hans. Hann hjelt því fram, að þetta væri nauðsynleg ráðstöfun vegna lánstrausts bankans. En þó viðurkennir hann, að þetta bjargi ekki. Og ef bankinn þarf aðstoðar ríkissjóðs eftir sem áður, hvaða lánstraust er það þá, sem þessi skipun seðlaútgáfunnar á að hjálpa upp á. Það hlýtur þá að vera lánstraust ríkissjóðsins. En ríkissjóðurinn eða ríkisstjórnin hefir seðlaútgáfuna algerlega í hendi sjer að öðru leyti en því, sem hún þegar er í höndum Íslandsbanka, og ætti því frekari skipun hennar í sambandi við bankann að vera óþörf til að treysta lánstraust ríkissjóðs.

Jeg gæti trúað því, að hæstv. stjórn hafi ekki athugað, að kringumstæður eru nú mjög breyttar frá því er hún samdi frv. Hún er nokkrum mánuðum á eftir tímanum og byggir á því ástandi, sem var fyrir 6 mánuðum síðan, þegar hæstv. fjrh. (M. G.) var erlendis. En nú liggur þetta alt öðruvísi fyrir, og verður því ekki um það talað á sama grundvelli.

Jeg skora nú á hæstv. stjórn að leiða rök að því, að bankanum sje þetta endanlega skipulag seðlaútgáfunnar nauðsynlegt, þar sem hún þó hefir viðurkent, að bankinn komist ekki af án hjálpar ríkissjóðs hvort sem er.

Hæstv. fjrh. (M.G.) sagði, að að afsaka sig væri sama og ásaka sig. Jeg mintist þá fyrstu fjármálaræðu hæstv. ráðherra (M. G.) hjer í þinginu, því sú ræða verður harðasta ásökunin í garð ráðherrans, eftir kenningu hans sjálfs. Það er annars spaugilegt að heyra hann segja, að jeg sje nú kominn að sömu niðurstöðu og hann hafi verið kominn að í þingbyrjun. Því sannleikurinn er sá, að hann er nú að færast eitthvað í áttina til þess, sem jeg var kominn fyrir 8 mánuðum síðan, að eina ráðið til að leysa fjárkreppuna væri að taka lán. Jeg man ekki betur en hann hafi leitað með logandi ljósi í öllum lánaflokkum, sem hann gat hugsað sjer, en þóttist hvergi geta fundið hæfilegan flokk fyrir ríkissjóð að taka lán. Hann talaði um eyðslulán og „spekúlations“-lán, en hvorugt fanst honum sæma ríkissjóði. Og um viðskiftalán sagði hann, að ekki gæti komið til mála, að ríkið tæki slík lán til að lána svo aftur „Pjetri og Páli“ til að „braska“ með peningana. Það væri þá bankanna hlutverk að gera það, ef þess þyrfti. En nú er peningamálanefndin öll, allir flm. frv., sem fram er komið í Ed., og sennilega öll hæstv. stjórn og alt Alþingi komið að þeirri niðurstöðu, að það verði að taka gjaldeyrislán. Nú getur hæstv. fjrh. (M. G.) rifjað upp fyrir sjer, hvað við, hann og jeg, hvor um sig sögðum um slíkar lántökur í þingbyrjun, hvað hann sagði þá um „lánspostulana“ og svo að lokum sannfært sig um það, hvor okkar það er, sem nú fyrst er farinn að sjá sannleikann í málinu.

Að öðru leyti er litlu að svara hæstv. fjrh. (M. G.). Ræða hans var mest útúrsnúningar og hártoganir og tilraunir til að villa mönnum sýn. T. d. get jeg nefnt það, þegar hann þóttist vera að sanna, að stjórnin hefði ekki getað felt úr gildi lög nr. 16, 1920, sem í 2. gr. sinni leggja yfirfærslukvöð á Íslandsbanka fyrir Landsbankann, en það væri af því, að þetta sama ákvæði væri í lögum áður. Þetta er bókstaflega ósatt, því ákvæðið er, eins og það er í þessum lögum, ekki til í neinum öðrum lögum, og ef það væri í raun og veru svo, að þetta ákvæði hafi staðið Ísl.banka svo mjög fyrir þrifum, eins og látið var, þá var það bein og sjálfsögð skylda stjórnarinnar að fella það úr gildi milli þinga á sína ábyrgð.

Hæstv. fjrh. (M. G.) segir, að jeg hafi skýrt rangt frá um átta manna frv. í Ed., að því er snerti hlutfjáraukann. Hann segir, að það skilyrði sje sett í 10. gr. frv., að það haldi ekki gildi sínu nema bankinn geri þessar ráðstafanir. Jeg er þakklátur hæstv. fjrh. (M. G.) fyrir að hafa mint mig á þessa gr. frv. Hún er sem sje, að mjer skilst, gersamlega þýðingarlaus í þessu tilliti og ekkert annað en átakanlega klaufaleg blekkingartilraun, í því skyni gerð að fleka hv. þm. til að greiða frv. atkv.

Greinin hljóðar svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi, en falla úr gildi 30. sept. 1921, nema því aðeins, að hluthafafundir Íslandsbanka verði þá búnir að gera þær ráðstafanir, sem lög þessi áskilja.“

Við skulum nú athuga þýðingu þessa fyrir frv. í 3. gr. er Íslandsbanka gert að skyldu að selja ríkissjóði af gullforða sínum. Dettur nokkrum í hug, að hann geti það fyrir 30. sept. 1921? Það kemur auðvitað ekki til mála, vegna þess að gullforðinn fer ekki að losna að neinu leyti, samkv. frv. sjálfu, fyr en á árinu 1925.

Í 2. gr. er, að bankinn eigi á tímabilinu frá 1. janúar 1925 til enda leyfistímans, 1933, að hafa dregið inn alla seðla sína. Ekki verður hann búinn að framkvæma það fyrir 30. sept. 1921!!

5. gr. er svo orðuð: „Íslandsbanki skal auka hlutafje sitt um alt að 100% á þann hátt, að ríkissjóður leggur hlutafjáraukann fram þegar er hann sjer sjer fært.“ Með öðrum orðum: Kröfunni er fullnægt, hvað lítið sem hlutafjeð er aukið. Það þarf ekki að vera svo mikið, að ríkissjóður fái nokkur umráð. Svo er þetta ekkert „absolut“ skilyrði. Alt vald er lagt á herðar stjórnarinnar. Ef hún vill ekki leggja þessa kvöð á bankann, þá verður það ekki gert. Og ef svo færi, þá verður bankinn ekki fyrir neinni sök.

Og jeg vil segja, að fyrir mitt leyti treysti jeg ekki hæstv. núverandi stjórn til að þvinga bankann til þessa, allra síst ef „mikli maðurinn“, sem hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) var að tala um, vildi ekki svo vera láta.

Ef meiningin væri sú að binda seðlaútgáfuna „absolut“ skilyrði um hlutafjárauka, þá lægi auðvitað beinast við að gera það með því að orða 1. gr. þannig: „Íslandsbanki fer með seðlaútgáfu í ríkinu, ef samningar takast um hlutafjárkaup þau, sem ræðir um í 5. gr.“ o. s. frv., eða eitthvað á þá leið. En þetta er ekki gert. í stað þess er 10. gr. hnýtt aftan við frv. til þess að veiða veikar sálir. Stjórnin ætlar að smeygja sjer undan hlutafjáraukningunni með þessu loðna ákvæði. Það kemur líka vel heim við það svar, sem mjer er sagt, að einn ráðherranna hafi gefið við þeirri spurningu, hvort ekki væri rjett að reyna að ná yfirráðum í Íslandsbanka með því að auka hlutafje hans. „Það væri sama og að ætla sjer að leggja veg yfir Vatnajökul,“ sagði hæstv. ráðherrann.