12.03.1921
Efri deild: 21. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (3318)

156. mál, erfingjarenta

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg er ekki alls kostar ánægður með frv. það, sem hjer liggur fyrir, og þó enn síður með brtt. hv. landbúnaðarnefndar. Um þetta er fyrst að segja af minni hálfu, að jeg hefi litla trú á því, að fólk verði fest í vistum með fremur smávægilegum verðlaunafyrirheitum. Til þess álít jeg þann straum, sem fellur í gagnstæðu áttina, alt of sterkan. Þó ætla jeg ekkert að snúast á móti frv. af þessari ástæðu, því það, sem hjer á að leggja í sölurnar af ríkisins hálfu, er ekki mikið. Aðalgallann á frumvarpinu tel jeg þann, að jafnframt því að verðlauna vinnumensku, stefnir það að því að verðlauna, að seint sje gifst, eigi fyr en hjónaefnin eru 25 ára — eða 28 ára eftir till. nefndarinnar. — En jeg álít miklu nær sanni að skattleggja einlífi en verðlauna, að minsta kosti eftir 25 ára aldur og jafnvel fyr. Jeg verð því að vera eindreginn á móti brtt. nefndarinnar fyrst og fremst. Jeg mun vera því samþykkur að vísa frv. til 3. umr. í því trausti, að því verði breytt til bóta, þó mjer sýnist reyndar skaðlaust, að það fjelli.