15.03.1921
Efri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í C-deild Alþingistíðinda. (3330)

156. mál, erfingjarenta

Björn Kristjánsson:

Jeg er sammála hv. andmælanda frv. (H. St.) í því, að æskilegast hefði verið, að þessi styrkur hefði getað náð til allra hjúa, og jeg skal fallast á mál hans í því efni, að það sjeu mörg af bestu hjúunum, sem aldrei giftast. En þar sem upphæðin er svo lítil, sem tök eru á að veita til þessa, þá hlýtur styrkveitingin að verða þessum takmörkum bundin. Ef þessi takmörkun væri ekki sett, og svo mörg hjú gætu komið til greina, þá hlytu vonbrigðin að verða þeim mun meiri, er aðeins örfá gætu fengið styrkinn. Með þessu móti ber þó dálítið á honum, þar sem hann kemur til greina. Hitt er auðvitað vonandi, að landssjóði vaxi svo fiskur um hrygg, að það megi með tímanum færa hjer út kvíarnar, en þá verður vitaskuld að fara fram gagngerðbreyting á lögum þessum. — Jeg hygg, að þetta megi teljast góð byrjun, og ef sú verður raunin á, að þetta komi að tilætluðum notum, þá er þingi og stjórn í lófa lagið að víkka sviðið seinna meir. Það kann að vera, eins og hv. 1. landsk. þm. (S. F.) tók fram við 2. umr., að fult eins heppilegt hefði verið að láta færri njóta styrksins árlega, en hafa upphæðina þeim mun hærri, en nú hefir verið valin þessi leið, og ætla jeg því, að rjettast sje að reyna nú, hversu hún dugir. Vona jeg því, að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir.