29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (3351)

85. mál, eftirlit með skipum og bátum

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Svo sem kunnugt er, þá gera lög nr. 29, 22. okt. 1912, ráð fyrir því, að gefin verði út tilskipun um nánara fyrirkomulag á öryggisráðstöfunum og eftirliti með skipum og bátum.

Fyrir alllöngu síðan skipaði stjórnin nefnd til þess að undirbúa það mál. Var vel vandað til manna í nefndinni, þar sem í henni voru sjerfræðingar í flestum nauðsynlegustu greinum, sem að þessu lúta. En samt sem áður hefir orðið langur dráttur á árangri af þessari nefndarskipun, og er mjer ekki kunnugt, hverjar ástæður til þess liggja. En jeg hygg þó, að drátturinn stafi af því, að nefndin lítur svo á, að þetta eftirlit með skipum og bátum geti ekki komið að fullu gagni, nema stofnað verði sjerstakt embætti með skrifstofu og starfsmanni, sem ætti að heita skipskoðunarstjóri. Nefndin mun og halda allfast við þessa skoðun, eins og sjest af því, að hún hefir lagt fyrir stjórnina frv. um stofnun þessa embættis. Stjórnin mun nú ekki hafa fallist á þetta frv., eða stefnu nefndarinnar um nýja embættisstofnun, heldur ætlast til, að eftirlitinu yrði hagað líkt og áður, og að það væri í höndum lögreglustjóra.

Samskonar ágreiningur kom og upp, er lögin og skrásetning skipa lágu fyrir á þinginu 1919. Þá átti einnig að stofna sjerstakt embætti. Það, sem nefndin nú fer fram á, er hið sama og þá, en það vildi þingið ekki fallast á.

Nú hefir nefndin ekki viljað við svo búið una, heldur snúið sjer til sjávarútvegsnefndar og beðið hana að bera fram frv. Sjávarútvegsnefnd sá sjer ekki fært að verða við þeirri ósk. Hún áleit málið ekki nægilega undirbúið og vildi, að stjórnin ljeti áður uppi ákveðna skoðun á því, hvort hún teldi þörf á að stofná þetta nýja embætti.

Málið liggur enn þá hjá nefndinni, sem skipuð var af stjórninni fyrir löngu síðan. En það er afaróheppilegt, eins og allir geta sjeð, því að þetta mál er þannig vaxið, að það á ekki og má ekki dragast úr hömlu. Það væri því æskilegt, að stjórnin skoraði á nefndina að ljúka málinu, því að þá fyrst geta tryggingarráðstafanirnar komist í framkvæmd. Þessi reipdráttur milli stjórnarinnar annars vegar og nefndarinnar hins vegar má ómögulega verða til þess að hamla því, að tilskipunin samkv. lögum nr. 29 komi út og verði að notum, því það er aðalatriðið.

Jeg hefi þá skýrt frá því, hvernig málið horfir við. það mun nú vera mikið satt í því, sem tekið er fram í nefndarálitinu, að eftirlitið geti ekki orðið svo gott sem æskilegt er í höndum lögreglustjóra. En ef að því ráði yrði horfið að stofna nýtt embætti, þá vildi jeg benda á það, að mörg önnur skyld störf gætu lagst undir þá skrifstofu, t. d. eftirlit með skrásetning skipa, samning skipaskrár, enn fremur skipamælingar, hleðslumörk skipa o. fl. Mjer er og nær að halda, að það væri ekki fráleitt, að yfirumsjón samábyrgðarinnar gæti fallið undir þessa skrifstofu, þótt ekki sje um það að ræða í bili, þar sem sá starfi er nú ekki laus.

Jeg bendi á þetta hjer vegna þess, að ef nefndin ekki fellur frá þeirri skoðun sinni að stofna nýtt embætti, og stjórnin fellst á það, þá væri ekki úr vegi fyrir stjórnina, um leið og málið er undirbúið, að athuga, hvort ekki mætti sameina öll þessi störf undir eina skrifstofu og ef til vill fleiri. Þá ætti aukakostnaður við þetta embætti ekki að þurfa að verða mikill.