02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3563)

60. mál, viðskiptamálanefnd

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Aðeins örfá orð, út af orðum, sem fjellu í ræðu hv. 2. landsk. þm. (S. E.), og reyndar einnig hjá öðrum.

Það virtist koma fram sú skoðun, að stjórnin eigi að hafa vit fyrir bankastjórunum. En jeg held, að þar sje til helst til mikils ætlast af stjórninni. Jeg skil eigi, hvernig hægt er að ætlast til, að stjórnin hafi betra vit á bankamálum en bankastjórarnir. Slíkt þekkist ekki í neinu landi. Það þykir sjálfsagt, að stjórnir hafi fremur bankastjórnir aðalbankanna sjer til leiðbeiningar í þeim fjármálum. þetta vildi jeg taka fram, til þess að vísa á bug þessari kenningu. Það má ekki miða við það ástand, sem nú er komið í ljós, gerðir stjórnarinnar á undanförnum tímum, því að kalla má, að hver einasta vika hafi flutt eitthvað nýtt og áður jafnvel óvænt, nýjar kringumstæður. Það má því ekki ætlast til þess, að menn hafi sjeð það í haust, sem nú sjest að heppilegast hefði verið að gera.

Jeg get ekki annað sjeð en að þessar umr. sjeu á eftir tímanum, því þessi peningamál heyra undir bankanefndina. Nema svo sje, að öll þessi mál heyri undir einu og sömu nefndina, eins og nokkrir hafa haldið fram.