23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (3581)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Pjetur Ottesen:

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.), sem er annar meðflutningsmaður minn að till. á þskj. 53, tók það fram í ræðu sinni, hvað fyrir okkur flm. hefði vakað, sem sje það, að starf nefndarinnar væri svo umsvifamikið og viðfangsefnið það alvörumál, að ekki mætti saman við það blanda störfum eins og þeim, sem gert er ráð fyrir í till. á þskj. 51. Sú till. hljóðar um viðskiftamál (viðskiftahömlur og verslunarrekstur fyrir reikning ríkisins), en okkar till. fer fram á „að rannsaka orsakir til fjárkreppu bankanna“. Sjá því allir, að till. þessar eru næsta ólíkar og viðfangsefnið hvort út af fyrir sig svo umfangsmikið og vandasamt, að þær verða tæplega sameinaðar, eins og brtt. á þskj. 54 fer þó fram á.

Þess vegna þótti mjer kenna nokkurrar mótsagnar hjá hv. 1. þm. Árn. (E. E.). Mjer virtust orð hans falla eitthvað á þá leið, að honum lægi í ljettu rúmi, hvor till. næði fram að ganga, sú, er við flytjum saman, eða brtt. á þskj. 54. Sú till. er þó nokkuð á annan veg, eins og jeg hefi þegar drepið á, þar sem hún nær líka til verslunarmálanna. Þess vegna verðum við, jeg og hv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.), mótfallnir því að bræða saman till. á þskj. 51 og 53.

Hæstv. fjrh. (M. G.) taldi tormerki á því, að lausanefndir þessar fengju tíma til að starfa, vegna fastanefnda þingsins, og að hæpið myndi líka vera, að húsrúmið leyfði það.

Jeg get nú ekki annað sagt en að mig furðar á að heyra slíkum ástæðum sem þessum kastað fram hjer í deildinni. Það er þó öllum kunnugt, að það hefir einmitt tíðkast hjer á þingi áður að kjósa 2–3 lausanefndir, þegar svo stóð á, að brýn nauðsyn þótti kalla, og hefir það aldrei komið í bága við störf fastanefndanna. Nú hafa þó bæst við tveir menn hjer í deildinni, svo ekki ættu starfskraftamir að vera minni. Og um húsnæðið er það að segja, að þó að lausanefndir hafi á sumarþingum stundum haft til afnota eina eða tvær af stofum háskólans, þá hefir Hlaðbúð nú verið tekin til afnota fyrir fjárveitinganefnd, og rýmkast svo mikið við það, að skorti á húsnæði er alls ekki til að dreifa. Það er því gersamlega haldlaus ástæða gegn þessum nefndaskipunum. Þess vegna get jeg á engan hátt sjeð, að störf lausanefndanna þurfi nokkum hlut að rekast á föstu nefndirnar.

Banka- og viðskiftamálin eru höfuðmál þessa þings; þau grípa svo inn í líf þjóðarinnar og framtíð, en hvort á sinn hátt. Þess vegna má ekki blanda þeim saman; það verður að greina þar á milli og kosta, svo sem kostur er, kapps um að greiða fram úr því öngþveiti, sem þau eru komin í.

Jafnframt því sem það er að sjálfsögðu hlutverk peningamálanefndar að benda á leiðir til þess að greiða fram úr og ráða bót á því peningamálaöngþveiti, sem við erum í, þá er það engu síður hlutverk þessarar nefndar að rannsaka og upplýsa ýmislegt í rekstri bankanna, og þá einkum Íslandsbanka, sem orðið hefir fyrir hörðum dómum, sjer í lagi nú á síðustu tímum.

Sumir líta meira að segja svo á, að hin taumlausa seðlaútgáfa bankans, og hvað fje hans hefir verið bundið mikið á hendur einstakra manna, eigi ekki óverulegastan þátt í því, hversu komið er. Þetta þarf að upplýsa, enda nauðsynlegt að rannsaka það í sambandi við till. um ráðstöfun á seðlafyrirkomulaginu. Jeg vænti, að engum dyljist, að þetta er ærið verkefni einni nefnd. Það er þetta, sem fyrir okkur vakir, sem flytjum till. á þskj. 53. Þess vegna mun jeg greiða atkv. með till. á þskj. 51, af því að þá geri jeg ráð fyrir, að okkar till. nái fram að ganga. Leiðir því af sjálfu sjer, að jeg hlýt að greiða atkv. á móti brtt. á þskj. 54.