10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (3674)

48. mál, sambandslögin

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg get reyndar sagt, að hæstv. forsrh. (J. M.) hafi tekið ómakið að mestu af frsm. í þessu máli, svo það er varla gustuk að yrðast við hv. flm.till. (B. J.) meira, eins illa og hann er kominn með rökfærslur sínar fyrir till. Allshn. getur látið sjer í ljettu rúmi liggja stóryrði hv. þm. (B. J.) í hennar garð, um heimsku, fáfræði og bull, því þau eru fallin á hv. þm. (B. J.) sjálfan, eftir skýrum rökum hæstv. forsrh. (J. M.) í gær, sem sýndu, að ræða hv. flm. (B. J.) er einber lokleysa.

Fyrir nefndina er ekki ástæða til að eltast við öfugmæli og fullyrðingar þessa hv. þm. (B. J.) um hana sjálfa og álit hennar. Hann heggur niður í álitið á við og dreif og reynir að gera úlfalda úr mýflugunni. Hann sagði, að ummæli allshn. stönguðust eins og mannýgir hrútar. Hann sagði, að um utanríkismálin væri ekki um neina íhlutun að ræða frá okkar hálfu, heldur hrein og bein yfirráð. Allshn. hefir hvergi neitað því, að Ísland hefði yfirráð yfir utanríkismálum sínum. En hún segir, að Íslendingar hafi falið Dönum að fara með umboð sitt í þessum málum, samkvæmt 7. gr. sambandslaganna. Og þó að talað sje um íhlutun frá Íslendinga hálfu um meðferð Dana á umboðinu, þá nær engri átt að kalla það öfugmæli. Hitt er víst, að nafnbreytingin ein á ráðherra getur hvorki aukið eða rýrt yfirráð vor yfir þessum málum. Verksvið íslensku stjórnarinnar verður ekkert meira fyrir það, þó að einn ráðherrann sje kallaður utanríkisráðherra. Tal hv. þm. Dala. (B. J.) um það er ekkert nema hjegómatildur og líkist meira skrumauglýsingum og upphrópunum ábyrgðarlausra þjóðmálaskúma heldur en orðum gætinna og reyndra stjórnmálamanna, sem hugsa meira um að vera en sýnast.

Þá kallaði hv. þm. (B. J.) það fjarstæðu og hneykslaðist mikið á því, að nefndin, eins og sjálfsagt er, kallaði það búhnykk fyrir okkur, að Danir og Íslendingar vinni í sameiningu að samningum við erlend ríki.

Jeg vil ekki tefja tíma þingsins með því að fara út í allar meinlokur hv. þm. Dala. (B. J.) um nál. allshn. Hv. þm. B. J.) taldi það nauðsyn fyrir íslensku stjórnina og íslenska hluta dansk-íslensku nefndarinnar, að yfirlýsing fengst um 2. lið till. Þessi yfirlýsing er þegar fengin í nál. allshn., og þar að auki hefir hæstv. forsrh. (J. M.) ekki vefengt, að skoðun íslenska hlutans sje rjett.

Þá mintist hv. þm. Dala. (B. J.) á Knud Berlin. Hann á, samkvæmt ummælum þm., að hafa fengið slík tök á dönsku stjórninni, að hún sje honum sammála um það, að sendiherramir sjeu ekki íslenskir embættismenn.

Þetta fullyrðir hv. þm. Dala. (B. J.). En hvaðan honum kemur slík viska, er mjer næsta óskiljanlegt. Þetta skýtur líka nokkuð skökku við, því að í fyrra vildi danski hluti ráðgjafarnefndarinnar ekki útkljá neitt um þetta, áður en hann vissi nokkuð um álit dönsku stjórnarinnar. Mikil er nú trú þm. Dala. B. J.) á lærdómi og áhrifum Knud Berlins, en sú var tíðin, að hann var ekki mikill spámaður hjá honum, þótt hann sje nú eitt hans stærsta „autoitet“. Jeg vil í þessu sambandi minnast á annað átrúnaðargoð þm. Dala. B. J.), Ragnar Lundborg. Hann hefir látið uppi álit sitt um atriði það, sem getur um í 2. lið till. þm. Dala. (B. J.). En það var þannig, að hv. þm. hefir ekki mikið viljað flíka því. Því hefir þó hingað til verið haldið á lofti, sem þessi stjórnmálamaður hefir sagt um íslensk stjórnmál, og ekki síst af þm. Dala. (B.?.). Nú hefir hann haldið meir á lofti kenningum Knud Berlins. Hann vill nú ná ske kalla Ragnar Lundborg pólitiskan forngrip, sem lifi í endurminningum um liðinn tíma og hafi ekkert vit á nútímastjórnmálum, eins og hann sagði í gær um formann allshn. En þá hefir hann mikið breytt skoðun á honum í seinni tíð.

En annars er það sannast sagt um þann vitra og lærða herra, Knud Berlin, að landar hans taka nú orðið lítið mark á skrifum hans um Íslandsmál. Hann er búinn að skrifa yfir sig, og þeir eru hættir að hlusta á hann. Danastjórn mun óhikað fara allra sinna ferða fyrir honum. En annars hygg jeg, að svo geti líka farið fyrir þm. Dala. (B. J.) sem K. B., að landar hans hætti að taka hann alvarlega, fyrir hinar sífeldu ýfingar hans og stælugirni, fullveldisskraf og fullveldishroka. Jeg skal ekki segja, hvort þetta verður seint eða snemma á æfi hans, en fyr eða síðar rekur að því.

Hv. þm. (B. J.) talaði um það, að meðan við hefðum ekki sendiherra, jeg held helst í öllum ríkjum veraldarinnár, þá vissi heimurinn ekki um fullveldi Íslands. Ef við þyrftum að auglýsa fullveldi vort með sendiherrum í öllum löndum, þá myndum við skara fram úr öðrum ríkjum að sendiherrafjölmenni, eins og við værum auðugir og hefðum miljónir milli handanna. Jeg efast nú ekki um, að hv. þm. Dala. (B. J.) muni álíta, að okkur skorti síst fje til þessa. Það er altaf viðkvæðið hjá honum, að þetta margborgi sig. Allar sendiherrasveitir, hvert ráðunautsstarf, margborgar sig, og því betur, því meir sem til þeirra er kostað. Þótt oss skorti fje til að launa þessum sendiherrum, þá er ekkert annað en taka lán, 5, 10, 15 miljónir á ári. Hvað gerir það? Sendiherrarnir auglýsa fullveldið úti um heim allan! Sumum mönnum kynni nú samt að virðast, að slíkar fjárreiður væru ekki vel fallnar til þess að auka fjárhagslegt sjálfstæði ríkisins. En þessa menn álítur þm. Dala. (B. J.) gamaldags, og ekkert tillit takandi til þess, þó að ríkið sigli sig um koll með þessu sendiherratildri meðal annars. Það eru smámunir í augum hans. En ef þessi leið væri farin, þá gæti farið svo, að við þyrftum að biðja Knud Berlin að útvega okkur nokkurra miljóna lán í Danmörku. Við borguðum svo aftur þegar við værum orðnir auðugir og víðfrægir af þessum sendiherrum. þá er gott að hafa þm. Dala. (B. J.) til að fara fyrstur bónarveg að Knud Berlin.

Annars verð jeg að segja það, að mjer virðist afstaða þm. Dala. (B. J.) til tillögunnar orðin næsta undarleg, og mun jeg síðar víkja að því. Í ræðu sinni í gær sagði hann, að ágreiningurinn um 2. lið till. ætti að geta varnað því, að við flytum sofandi að feigðarósi o. s. frv. Þetta kann nú að vera, að við sjeum sofandi, en það stafar þá af því, að það er ekki farin að sýna sig nein hætta á ferðum, ekkert bendir til þess, að Danir ætli að ganga á gerða samninga. En þm. Dala. (B. J.) vill gera mikið veður úr ágreiningnum, meira í orði, minna á borði. Það má helst ráða af orðum hans, að hann vilji, að deilunni verði aldrei ráðið til lykta. Hann vill, að íslenski hluti nefndarinnar þrátti við danska hluta nefndarinnar, íslenska stjórnin þrátti við dönsku stjórnina, og íslenska þjóðin þrátti við dönsku þjóðina. En það er ekki nærri því komandi, að hann vilji láta ráða deilunni til lykta með gerðardómi. Bara halda áfram og ganga fram hjá ráði því, sem gert er ráð fyrir í 17. gr. sambandslaganna. Þetta minnir á karlinn, sem misti konuna sína, en þeim hafði komið mjög illa saman. Þegar menn sáu hann gráta á eftir, var hann spurður, hví hann grjeti. Það er nú svona, sagði karlinn, jeg er búinn að missa nöldrið mitt. Það er eins og sumir menn geti ekki lifað án þess að eiga í deilum. Nú, þegar sjálfstæðisdeilunni við Dani er lokið, þá á að fara að vekja upp nýja deilu á öðrum grundvelli. Þessir menn halda, að föðurlandsást og ættjarðarumhyggja sje í því einu fólgin að eiga í erjum við sambandsþjóðina. Við höfum enn þá mikið saman við Dani að sælda, þrátt fyrir sambandslögin, og þeir hafa ekkert tilefni gefið til ófriðar. Það dugir ekki að stökkva upp á nef sjer án þess að reyna að jafna alt með sjer á friðsamlegan hátt, eins og siður er allra greindra manna og gætinna.

Það er rangt hjá þm. Dala. (B. J.), að Danir viti ekki um vilja þings og þjóðar í máli þessu, nema þingið samþykki þessa þál. hans. Þess þurfum við ekki, þótt við að hinu leytinu könnumst við, að skilningur íslensku nefndarmannanna á þessu atriði sje rjettur, að því er snertir þennan lið.

Þá kem jeg að því, sem mjer þótti undarlegast af öllu undarlegu í ræðu þm. (B. J.). Hann sagði sem sje, að ef til vill væri það best, að þál. væri feld. Þetta er ekki í sem bestu samræmi við það, sem hann hafði áður sagt, að íslensku nefndarmönnunum væri það ómetanlegur stuðningur og góður bakhjari að hafa skýran vilja þingsins að baki sjer, er þeir kæmu á fund með dönsku nefndarmönnunum. Því undarlegri er nú sú niðurstaða að óska, að till. sje feld. Þetta sýnir, hversu mikið er að marka vaðal þm. (B. J.) og lýsir ekki miklum áhuga á málefnum þeim, sem hann berst fyrir og flytur. Nú hefi hefi jeg engan stuðning til þess frá allsherjarnefnd að fella till.; henni er ekki mikið í mun, að hún sje feld; hún vill aðeins afgreiða hana á þinglegan hátt, vísa því til stjórnarinnar að jafna ágreininginn á friðsamlegan hátt og hefja ekki deilur og illindi að óþörfu. En annað mál er það, hvað hún kann að gera fyrir þm. Dala. (B. J.), er hann tekur fyrst 3 liði aftan af henni og óskar svo helst, að hinir sjeu feldir. En auðvitað, ef hv. deild vill heldur samþykkja þál. en dagskrána, þá hefir allsherjarnefnd ekkert út á það að setja. Það er síður en svo, að hún vilji draga úr stjórninni að vaka yfir rjetti Íslands, að ekki sje gengið á hann af hinum aðiljanum, en hún heldur því fram, að dagskráin sje eini þinglegi vegurinn til að afgreiða málið.

Jeg get ekki stilt mig um, áður en jeg sest niður, að minnast með nokkrum orðum á brtt. þm. Dala. (B. J.), þar sem hann leggur til, að 3 síðustu liðir till. skuli feldir niður. Eitt af mörgu einkennilegu við þessa brtt. er það, að henni fylgir greinargerð. Slíkt hefi jeg aldrei sjeð hjer á þingi fyr, að greinargerð fylgi brtt. Að vísu er greinargerð þessi fremur líkræða yfir 3 síðustu liðum till. en greinargerð í venjulegum skilningi. Hún kemur sama og ekkert við tillöguna, en er öllu heldur lýsing á allsherjarnefnd. Allshn. kippir sjer nú ekki upp við það, þótt þm. Dala. (B. J.) lýsi henni með mikilli andagift og kalli hana eina af skepnum jarðar. Hann segir meðal annars, að öllum skepnum jarðarinnar sjeu veitt einhver vopn til að vega með og verjast. Hitt er vitað mál, að þessum gæðum er misskift, og sú skepna, sem í þingmáli er nefnd þm. Dala., hefir orðið ærið afskift í þeirri úthlutun, ef ráða má af sókn og vörn hennar í þessu máli, þegar hún hefir legið vikum saman á þessum eggjum sínum og þrjú af þeim eru orðin fúl í fullveldishreiðrinu. Notar nú skepna þessi þau einu vopn, sem hún hefir, munn sinn og matarlyst, og jetur þessi lífsafkvæmi sín. Að lokinni máltíð kemur svo þessi sama skepna fram fyrir deildina og mælist til þess, að hún kasti út þessum þremur, sem eftir eru. En flestir munu nú vænta þess, að hv. deild segi nú við hana hið sama, sem Skarphjeðinn sagði forðum við þorkel hák, að nær væri henni að stanga fúleggin úr tönnum sjer en að vera að japla frammi fyrir deildinni á öllum þessum hjegóma.

Jeg skal að endingu geta þess, að mjer er öldungis sama hvað þessi þingskepna vestan úr Dölum segir frekar um þetta mál. Jeg ætla mjer ekki að eiga frekari orðastað við hana að sinni.