16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (3731)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Gunnar Sigurðsson:

Tímar þeir, er nú standa yfir, eru alvörutímar. Svo má segja, að öll þjóðin standi á öndinni og bíði þess, hvernig þinginu takist að greiða eitthvað úr þeim vandræðum, sem yfir standa og fram undan eru. Ástandið er svo ískyggilegt, að vart munu menn fá sjer gert í hugarlund, hverjar ógnir bíða, ef alt er látið fljóta sofandi að feigðarósi.

Meðal annara þjóða erum við taldir gjaldþrota, og skuldir vorar erlendis fáum við eigi greitt, enda þótt við hefðum fullar hendur fjár innlends. Bankarnir ómegnugir þess að yfirfæra og engin líkindi önnur en bráðlega verði að okkur gengið. Og innanlands eru öll viðskifti að stöðvast sökum peningaleysis og ótta við ástandið.

Þó er eitt enn ótalið, og það ægilegasta. Aðalgrein framleiðslunnar er stöðvuð. Togararnir liggja bundnir landfestum. í þessu sambandi má minna á það, að fjöldi framtakssamra atorkumanna hefir tapað stórfje á síðastliðnu og yfirstandandi ári. Má vel vera, að sjálfskaparvíti sjeu að nokkru, hafi farið óvarkárlega að, en aðalástæðan þó sú, að ófyrirsjáanlegar markaðsbreytingar hafa orðið. Þarf eigi annað því til sönnunar en minna á síldarsöluna í fyrra. Síldin fram eftir veiðitímanum í 80–90 aura kg., en óseljanleg orðin í lok tímans. En það verður að gæta þess, að menn þeir, sem nú hafa beðið mest tjón, eru dugnaðarmennirnir. Mennirnir, sem riðu á vaðið og báru uppi atvinnuvegina. Mennirnir, sem trúðu á framtíð lands og þjóðar.

Eitthvað verður að gera til þess að forða því, að alt fari í strand. En hvað? Mundi það verða til þess að forða okkur frá strandi, að láta togarana, þessi einu framleiðslutæki vor, sem sniðin eru eftir kröfum tímanna, liggja áfram tjóðraða við hafnarbakkann, en taka upp gömlu fleyturnar? Slíkt getur ekki komið til mála. Það væri algert rothögg. Ef slík ráðsmenska yrði ofan á, væri ekki annað vænna en reyna að komast af landi burt á skipunum, sem annars lægju hjer aðgerðalaus. Nei, við verðum að fleyta okkur yfir þessa erfiðu tíma. Við verðum að reyna að halda framleiðslunni uppi eftir mætti. Það er aðalatriðið. Sumir svara ef til vill, að framleiðslan borgi sig ekki. Það getur að vísu verið svo í bili, að hún borgi sig ekki fyrir framleiðendur, en henni verður að halda uppi vegna þjóðarheildarinnar. Og það er áreiðanlegt, að verst borgar sig að leggja árar í bát. Það er engin stórhætta að lána til framleiðslunnar. Einstakir menn og fjelög hafa grætt stórfje fyrir og á ófriðartímunum, og þó þeir verði ef til vill kann ske fyrir áföllum nú um stund, þá munu þeir þó yfir höfuð flestir ná sjer aftur, ef þeir aðeins fá rekstrarfje til að halda öllu í horfinu meðan verst árar, að minsta kosti allir, sem duglegir eru. En hættan er sú, að framleiðslan stöðvist. Af því mundi leiða heildarhrun og alt leggjast í kalda kol. Því verður þing og stjórn að varna. Annars er óhætt að loka rólegir augunum. Allir, sem líta skynsamlega á ástandið, hljóta að sjá, að það verður ekki hjá því komist að taka lán erlendis til þess að halda öllu uppi, og því hefði átt að vera búið að fyrir löngu. Og jeg er viss um, að ef við hefðum haft áræðna og röggsama fjármálastjórn, þá hefði mátt fleyta okkur fram hjá mörgum þeim skerjum, sem við höfum lent á. Við stöndum mun betur að vígi en margar aðrar þjóðir, vegna þess, að við framleiðum vörur, sem allir þurfa nauðsynlega, við framleiðum matvörur, en ekki iðnaðarvörur, og ætti það að auka lánstraust vort erlendis.

Jeg og aðrir, sem hafa trú á framtíð þessa lands, berum engan kvíðboga fyrir því, að hægt verði að fá lán. Jeg er ekki hræddur um það, að ekki verði hægt að gera erlendum fjármálamönnum það skiljanlegt, að óhætt sje að lána landi, sem á einhverja bestu fiskibanka heimsins.

Hvað landbúnaðinn snertir, má benda á það, að einhvers virði hlýtur það land að vera, þar sem, eins og svo mörg dæmi eru til, að bændur á smábýlum hafa fleytt fram jafnvel 10–20 barna hópi á sárlitlu búi. Og landið er enn að mestu ónumið. En það verður numið, og við eigum að gera það sjálfir með fjárstyrk annara þjóða.

Þá má minna á fossaaflið sem eitt af verðmætum þessa lands, sem að tiltölu við fólksfjölda mun vera langstærst í heimi.

Af því, sem fram hefir verið tekið, er það bersýnilegt, að landið verður að taka lán, og það svo ríflegt, að það komi að liði. Jeg er ekki með þessu að mæla með neinu óþarfaláni. Jeg veit vel, að þörf er á að fara varlega. En það verður að taka ástandið eins og það er, — það er frelsun frá þjóðargjaldþroti.

Jeg er sammála hv. þm. Dala. (B. J.) um lánleysi stjórnarinnar í tvöfaldri merkingu. Jeg gæti ef til vill fyrirgefið henni, þó að henni hefði missýnst í sumar, ef hún viðurkendi það nú.

Það hefði vel mátt taka dollaralán í sambandi við Dani í sumar er leið, er þeir tóku gjaldeyrislán. En þegar hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) siglir til þess að kippa fjárhagnum í lag, er það fyrsta verk hans að lýsa yfir því, að við þurfum ekki á láni að halda.

Jeg vil minnast á örfá atriði í ræðu hæstv. fjármálaráðherra (M.G.) í byrjun þessa þings. Hann skifti þá lántökum í flokka. Hann fordæmdi mikið lán til eyðslu. Þetta er hreinasta fjarstæða. Jeg vil benda á, að það getur oft verið þarfasta lán, sem hægt er að taka. Setjum svo, að það væri yfirvofandi hungur í landinu. Þyrfti þá ekki að taka lán til eyðslu? (Fjrh. M. G.: Er hungur hjer núna?). Nei, en jeg býst við, að ef hæstv. fjrh. (M. G.) sæi hungur fyrir dyrum nú, þá myndi hann ekki víla fyrir sjer að taka lán til eyðslu, ef hann gæti fengið það.

Þá vill hæstv. fjrh. (M. G.) hræða menn með því að tala um spekúlationslán. Engum kemur til hugar að láta ríkið fara að „spekúlera“ í lántökum, en hitt er fjarstæða, að halda því fram, að verra sje að taka þarft lán, þótt fyrirsjáanlegt sje, að græðast muni á gengismismun. En það er sannanlegt hve nær sem er, að með þeim lánskjörum, sem Danir sættu, mætti græða stórfje á gengismismuninum.

Jeg vil annars beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh. (M. G.), hvernig hann ætlar að fá þennan 25 miljóna „yfirbalance“, sem hann talaði um í sumar. Mjer er það óskiljanlegt.

Jeg vil í þessu sambandi minna á það, sem tekið var fram hjer á dögunum og reyndar oftar, að hæstv. fjrh. (M. G.) má ekki gera sig sekan í þeim misskilda sparnaði að spara eyrinn en fleygja krónunni, eins og kom t. d. fram í strandvarnarmálinu, sem var nýlega hjer til umræðu í deildinni. Jafnvel hv. þm. Borgf. (P. O.), sem þykir með mestu sparnaðarmönnum þingsins, sjer þann misskilning mætavel.

Ýmsir hv. þm. hafa haldið því fram, að ekki væri hægt að greiða atkv. um vantraustsyfirlýsingu enn, vegna þess, að frv. hæstv. stjórnar sjeu ekki enn komin til atkvæða og úrslita. Jeg sje enga ástæðu til að bíða þess, að hún jeti þau ofan í sig. Því stefna stjórnarinnar er kunn fyrir löngu, sú, að hafa enga skoðun aðra en þá, er verður ofan á. Hæstv. stjórn er vön að sigla beggja byr og blekkja til allra hliða. Hún er stefnulaus og heldur ekki fast við neitt. Jeg get nefnt það dæmi, þegar stjórnin ákvað að skamta hveiti. Bakararnir hættu þá að baka, stjórnin gaf strax eftir og þeir fengu hveiti eftir vild. Nú verður enginn var við neina skömtun, en lögin standa.

Jeg vil nú ekki tefja lengur umræðurnar. Jeg hefi reynt að vera hlífinn við hæstv. stjórn og tekið aðeins fram aðalgallana. En hvernig sem atkvgr. fer um vantraustið, þá veit jeg, að hæstv. fjármálastjórn verður í minni hluta, þótt hún greiði sjálf atkv. með sjer.