17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (3752)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Magnús Pjetursson:

Það var sagt af einum hv. þm., og ef til vill fleirum, að það þætti hlýða, að þm. alment gerðu grein fyrir atkv. sínu. Mjer finst jeg þá og skyldur til þess, og þá einkum vegna þess, að afstaða mín var önnur til hæstv. núverandi stjórnar, þegar hún myndaðist, en ýmsra annara þm.

Jeg hafði, ásamt öðrum úr bandalagi því, sem jeg þá var í, lýst yfir hlutleysi mínu til stjórnarinnar á því þingi og lofað að bregða ekki þegar í stað fæti fyrir hana. Beinan stuðning vildi jeg alls ekki veita henni, og þá einkum vegna þess, hvernig hún var mynduð. Hún var mynduð með bræðingi, eða, eins og hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að ný stjórn mundi verða mynduð með því að taka sinn spóninn úr hverjum askinum, og enginn samfeldur meiri hluti stóð að baki henni. Samt sem áður vonaði jeg, að þessari stjórn tækist nú, með öruggri og ákveðinni stefnufestu og einbeittum framkvæmdum, að skapa sjer samfeldan meiri hluta og vinna sjer traust vor hlutleysingjanna, með því að bera fram stórmál og fylgja þeim fast fram.

En svo óheppilega hefir viljað til, — jeg segi óheppilega, af því að mjer hefði af beint persónulegum ástæðum ekki verið kærara að fylgja annari stjórn en þessari, — að með ýmsum framkvæmdum, svo sem viðhaldi viðskiftahamlanna úr hófi fram og skammsýni í að afla landinu gjaldeyrisláns, hafði stjórnin látið vonir mínar verða að engu alt fram að þingbyrjun.

Jeg var þó enn að vona, að hæstv. stjórn tækist, þegar á þing kæmi, að greiða úr því flokksleysismoldviðri og vandræðum, sem nú ríkir á þingi og gerir íslensku þjóðinni ómetanlegt tjón á ýmsan hátt. Jeg hafði vonast eftir því, að stjórnin tæki þegar í þingbyrjun svo ákveðnar stefnur í fyrirliggjandi málum, að skapast gætu þá þegar hreinar línur og hreinir flokkar til stuðnings og andstöðu stjórninni. Og mjer er kunnugt um það, að sumir af bestu stuðningsmönnum stjórnarinnar höfðu vonast eftir og treyst því, að þessi stjórn myndi telja það eitt sitt hlutverk, og ekki það sísta, að skapa hreinar línur með ákveðnum stefnum í innanlandsmálum. Þeir vonuðust eftir því, að stjórnin bæri fram sín áhugamál og ljeti framgang þeirra ráða um setu sína eða fráför, ljeti skríða til skarar. En enn sem komið er hefir þetta ekki getað orðið. Enn sem komið er hefir engin önnur ákveðin stefna komið fram hjá hæstv. stjórn en sú ein, að sitja. Hefði þó verið hæstv. stjórn innan handar að gera eitthvað af þeim málum, sem fyrir þinginu eru, að stefnumálum, og segja af eða á, hvort hún vildi hafa þau fram eða fara frá að öðrum kosti. Og tækifærin hafa verið lögð upp í hendurnar á henni. Við umræður um eitt mál (frv. um einkasölu á tóbaki) var gerð fyrirspurn til stjórnarinnar um þetta, en henni var ekki svarað. Og í umr. þeim, sem urðu í strandvarnamálinu hjer í deildinni, var stjórnin spurð um framtíðarfyrirætlanir sínar í málinu, þar komu eigi heldur nein skýr svör. Þau voru svo loðin, að framsögumaður sagði, að stjórnin gæfi sjer sjálf vantraustsyfirlýsingu með þeim.

Af þessu öllu er einsætt, að stjórnin hefir brotið af sjer það hlutleysi, sem jeg hjet henni í fyrra til bráðabirgða. Jeg get ekki fylgt þessari stjórn, nje neinni annari, sem ekki styðst við ákveðinn meiri hluta og hefir enga stefnu aðra en þá, að sitja.

Jeg hefi samt engan þátt átt í því, að þessi till. er komin fram. Ef jeg hefði nokkru mátt þar um ráða, þá hefði jeg a. m. k. ekki viljað láta hana koma svo fljótt. Síðar hefði getað átt sjer stað, að þingið væri betur undirbúið, og síður hætta á, að líkt tækist til og í fyrra, því að enn er ekki loku skotið fyrir, að flokkar geti fest um stefnur á þessu þingi.

Jeg vildi mega athuga nokkur atriði í ræðum sumra þeirra þm., sem talað hafa, áður en jeg sný mjer að dagskrártillögum þeim, sem fram eru komnar og liggja hjer fyrir.

Það er þá fyrst hæstv. forsrh. (J. M.). Hann sagði, að vantraustsyfirlýsingin hefði tafið þingið nærfelt í mánuð. Þessu verð jeg að mótmæla. Jeg vinn nú í einni stærstu nefnd þingsins, og þar hafa verið haldnir fundir tvær stundir á hverjum degi og engar tafir orðið. Tafirnar eru engar, nema þá þessa daga, sem umr. um málið stendur yfir, enda hafði jeg ekki heyrt þetta fyr en af munni hæstv. forsrh. (J. M.). Og jeg mótmæli því í nafni þessarar nefndar, til þess að menn skuli ekki ætla, að hún hafi vanrækt starf sitt.

Hæstv. atvrh. (P. J.) talaði af hógværð og kurteisi, eins og hans var von og vísa, og ætla jeg ekki að fara út í þau mál, sem hann ræddi um. En eitt atriði í ræðu hans vil jeg minnast á. Hann lýsti yfir því, að hann væri fús að rýma sætið, ef þingið óskaði og færari maður fengist til, sem hefði fylgi meiri hluta þings, og var það honum líkt. En í sambandi við þetta duttu mjer í hug Gróusögur, sem gengið hafa um það, að hann ætti að verða fórnarlamb til að friðþægja fyrir syndir stjórnarinnar, og við það ætti svo að sitja. Þetta þætti mjer illa farið. Jeg átel engan ráðherranna einn fremur öðrum, heldur stjórnina alla sem heild.

Hann talaði enn fremur um, að óreiða mundi verða og tíð stjórnarskifti, nema hugsunarháttur þm. breyttist. Þetta er satt að vísu, og þetta verður þar til flokkar myndast um mál og stefnur. En að því á einmitt stjórnin að vinna. En í þess stað reynir hún að halda uppi sömu ringulreiðinni og verið hefir nú upp á síðkastið.

Þá talaði hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) um það, að vantraustsyfirlýsingin spilti fyrir samúð og samvinnu meðal þingmanna. Jeg hefi nú aldrei orðið var við, að menn gætu ekki unnið saman, þótt sumir væru með stjórninni, en aðrir á móti. Og síst ætti það að spilla samúð og samvinnu, þótt eitthvað hreinsaðist til og skýrðist afstaða manna. En hitt spillir, þá er menn verða varir við, að aðrir gjóta hornaugum og sitja á svikráðum við stjórnina og hver við annan.

Jeg skal svo ekki tefja tímann lengur, heldur snúa mjer að dagskrártill. þeim, sem fram eru komnar. Af einni þeirra, traustsyfirlýsingunni, sem hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) bar fram, hafa þegar orðið hin mestu vandræði. Hún hefir verið talin óþingleg, og hefir verið stungið upp á ýmsum ráðum til þess að firra deildina hneisu af þessu. Jeg verð nú að segja það, að aldrei mundi jeg bera fram till., sem jeg væri sjálfur á móti, og get jeg því ekki talið aðferð hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) rjefta. En jeg vil leyfa mjer að benda á eitt ráð. Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) tekur sína till. aftur, og jafnskjótt tekur einhver stuðningsmaður hæstv. stjórnar till. upp, t. d. sessunautur hans og vinur, hv. þm. Ak. (M. K.). Þetta er algengt, að till. er tekin aftur og annar tekur hana upp, og þetta er líka fullkomlega þinglegt, og þá er tillagan borin fram af rjettum aðilja.

Jeg gat þess, að mjer hefði þótt vantrauststill. koma of fljótt fram. Jeg átti von á dagskrá, einmitt í þá átt, sem og nú er fram komin, frá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hana fjekk jeg að sjá, og virtist mjer hún, fljótt á litið, aðgengileg. En nú, er jeg hefi athugað hana betur, og einkum eftir að hafa heyrt hann tala fyrir henni, virðist mjer í henni felast grímuklætt traust til hæstv. stjórnar. Fyrir því get jeg ekki samþykt hana eins og hún er. Nú hafði jeg hugsað mjer að koma fram með algerlega hlutlausa dagskrá, en þar sem í raun og veru lítið skilur mig frá dagskrá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), þá vil jeg leyfa mjer að bera fram brtt. við hana, sem gerir hana hlutlausa. Brtt. er sú, að orðin „afstaða til núverandi stjórnar og“ falli niður. Þá felur hún aðeins í sjer það, að skoðanir þm. um stefnur og mál eigi að ráða stjórnarskipun, ef til kemur, en getur ekkert um afstöðu til núverandi stjórnar, enda get jeg ekki gengið inn á það, að afstaða til hennar sje háð málum þeim, sem fyrir þinginu liggja, hjeðan af. Hún hefir svo margt af sjer brotið, að ekki væri þess vegna eftir neinu að bíða. Og þá hljóðar dagskráin svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingdeildin álítur, að samtök um skipun nýrrar stjórnar, ef til stjórnarskifta kæmi, hljóti að ákvarðast af skoðunum þingmanna á ýmsum þeim stórmálum, er stjórnin hefir lagt fyrir þetta þing. En með því að flestöll þessi mál eru enn til meðferðar í nefndum, og þingdeildarmönnum því ekki gefist kostur á að ræða þau til neinnar hlítar eða taka afstöðu til þeirra, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ef þessi brtt. mín verður samþykt, mun jeg greiða atkv. með dagskránni. En verði brtt. feld, mun jeg greiða atkvæði með till. hv. þm. Dala. (B. J.).