19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (3814)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Forseti (B. Sv.):

Hjer liggur aðeins til umr. bókun fundargerðar, og annað ekki. það er föst þingvenja að skoða bókunina samþykta án atkvgr., ef enginn segir til, að hann hafi við bókunina að athuga, þegar frá er skýrt í upphafi næsta fundar, að hún hafi legið frammi, með þeim formála, sem jeg hefi áður greint. En úr því þessir fimm þingherrar, sem gert hafa athugasemdina, kannast við, að þeir sjeu ekki að vefengja að bókað sje rjett það sem gerðist, þá þykir mjer skörin færast upp í bekkinn, þegar þeir ætla með þessari athugasemd sinni að ónýta úrskurð forseta um afdrif dagskrárinnar, er þeir höfðu ekkert við að athuga á meðan málið var á dagskrá.