07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

46. mál, vörutollur

Jón Sigurðsson:

Eins og tekið hefir verið fram, á jeg, ásamt öðrum þm., brtt. á þskj. 203, og hefir háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) fundið henni ýmislegt til foráttu, einkum flokkuninni. Það má vel vera, að raða hefði mátt eitthvað betur í greinarnar, en alveg kemur það þó í sama stað niður, hvar hver tegund stendur, innan hverrar gr. eða innan hvers flokks, ef menn eru á annað borð sammála um flokkana. En brtt. kom í upphafi fram af því, að okkur flutningsmönnum virtist nefndin hafa í tillögum sínum gætt öllu meira hagsmuna sjávarútvegsmanna en landbúnaðarins, þar sem þeir tína fjölmargt af nauðsynlegum vörum fyrir útgerðina í 2. fl., en nálega ekkert tilheyrandi landbúnaðinum, sleppa t. d. nálega öllum heyvinnuvjelum, kerrum, vögnum, skilvindum og mörgu fleira. Annars greinir menn á um notkun orðanna, sem hjer er um að ræða, og af þessum mismunandi skilningi er skoðanamunurinn að nokkru leyti sprottinn. Jeg veit ekki til þess, að jarðyrkjuverkfæri geti talist önnur en þau, sem notuð eru til þess að brjóta jörðina eða vinna að henni á annan hátt, svo að hún geti gefið uppskeru, en alls ekki þau verkfæri, sem notuð eru til þess að hirða afrakstur jarðanna á eftir, svo sem sláttuvjelar og fleiri heyvinnuvjelar. Annars hefir þetta mál í heild sinni þá þýðingu fyrir búnaðinn, að með því að setja þessi áhöld í skaplegan gjaldaflokk, er ýtt undir þá ráðleitni bænda að vinna sem mest að unt er með vjelum. Það er þessi stefna, að vinna sem mest með vjelum, sem þingið á að styðja, bæði með þessari lagasetningu, sem hjer er um að ræða, og öðrum, því að hún er eitt af undirstöðuatriðum þess, að búnaðurinn komist í gott horf og beri sig vel. Annars þarf jeg ekki að fjölyrða um þetta meira að sinni.