07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

46. mál, vörutollur

Jón Sigurðsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að taka aftur til máls, en háttv. þm. Ak. (M. K.) knúði mig til þess. Bæði hann og háttv. frsm. (J. A. J.) hafa tekið mjer óstint upp, að jeg sagði að okkur flm. hefði þótt nefndin hafa sjávarútveginn fullmikið í huga, en jeg meinti ekki, að hún hefði gert það vísvitandi. En þegar um þessi mál fjalla eingöngu menn, sem kunnir eru öðrum atvinnuvegi landsins, þá er ekki nema eðlilegt, að þeir hafi þann atvinnuveginn fremur í huga, og skjótist yfir ýmislegt hinum tilheyrandi.

Annars finst mjer að þessir háttv. þm. sjeu nokkuð hörundssárir út af upptalningu okkar og niðurröðun; en hví lagfæra þeir þá ekki orðaval sinna eigin upptalninga í nál.? Mjer finst hálfundarlegt að sjá hjá þeim „húsapappa“ á milli „járnbrautarteina“ og „akkera“; mjer skilst, að „húsapappi“ sje þarna ekki á rjettum stað, og svona mætti fleira telja.

Þess vegna verð jeg að líta svo á, að þessar aðfinslur nefndarinnar hljóti að vera af einhverjum öðrum toga spunnar en vandlætingu yfir orðavalinu, því aðallega hefir þessi litla og meinlausa brtt. okkar verið nídd fyrir upptalninguna, og því bætt við, að alt þetta mætti taka upp með almennari orðum. Jú, mikið rjett, en þá er horfið frá stefnu frv., að telja sem allra flest með sjernöfnum. En annars finst mjer, að hjer sje verið að deila um keisarans skegg.

Og úr því jeg er staðinn upp, vil jeg benda á það, að undir þetta geta ekki heyrt kerrur og vagnar. Það eru flutningatæki, en ekki sjerstaklega landbúnaðartæki. Þá virðist það óþarfi að segja, að við höfum eingöngu verið að tína til þau áhöld, er heyrðu landbúnaðinum til, því að sumt er þó í okkar upptalningu, sem eingöngu er notað við sjávarútveginn. (Magnús Kristjánsson: Hvernig er með þessa vatnshrúta?). Það er það, sem á dönsku er kallað „Vædder“, og er eins konar dæla.