07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

46. mál, vörutollur

Ólafur Proppé:

Herra forseti! Jeg skal reyna að vera fáorður, en langar þó til með nokkrum orðum að lýsa afstöðu minni til þessa frv.

Eins og sjá má af nál. og brtt. á þskj. 203. hefir frv. tekið talsverðum breytingum, frá því að það kom frá hæstv. stjórn, og finst mjer, að fæstar þeirra miði til nokkurra bóta, nema síður sje. Jeg er sammála hæstv. fjrh. (M. G.) um það, að breytingar þessar rýri tekjur ríkissjóðs, en muni ekki að sama skapi fyrir einstaklingana, þó að úr sje dregið. Þetta eru smámunir fyrir hvern einstakan, en safnast þegar saman kemur.

Jeg vildi benda háttv. fjhn. á það, samræmis vegna, að undir staflið 1. ætti hún að bæta við fleiri sýrum, t. d. til smjörlíkis- og ostagerðar, því að sjálfsagt er að greiða vörutoll af þeim vörum sem öðrum.

Jeg fyrir mitt leyti get vel felt mig við vörutollshækkun nefndarinnar á póstbögglum; sje ekkert á móti því, að hann hækki úr 3 kr. upp í 10 kr., úr því að bækur, blöð og tímarit eru undanskilin. Það var alkunnugt fyrir stríðið að fara þessa leið — að nota póstböggla — til þess að flytja inn í landið mestu firn af alls konar óþarfa vörum, sem hver einstaklingur gat pantað eftir vöruskrá erlendra skrumara. Og þó að slíkur innflutningur takmarkaðist að miklum mun á meðan á ófriðnum stóð, hefir hann þegar byrjað aftur, og ekki í neitt smáum stíl. Hefi jeg nú fyrir satt, að með síðustu ferð Gullfoss hafi slíkir bögglar skift hundruðum, sem þannig komu í póstinum, og þótt þetta sjeu að mestu leyti fánýtar vörur, sem fáfróður almenningur glæpist á, þá er þó hjer um tugi þúsunda að ræða, sem sólundað hefir verið út úr landinu. Ef þetta póstbögglagjald yrði sett svo hátt, gæti jeg trúað, að talsvert myndi draga úr þessum innflutningi, því að sjálfsagt þætti mörgum nóg að greiða 10 kr. fyrir böggul, sem hefði ekki einu sinni svo mikið verðmæti inni að halda.

Hvað snertir brtt. á þskj. 203, þá get jeg ekki felt mig við hana, og greiði því atkvæði á móti henni, enda þó að jeg geti viðurkent, að flest af upptalningu þeirri, sem þar er nefnd, heyri til framleiðslunni, og sje jeg ekki ástæðu til að kippa því út úr öðru samhengi. Einstakir menn vinna sáralítið við þetta, en ríkissjóður tapar talsverðu þegar alt kemur saman.

Út af því, sem deilt hefir verið um vírinn, skal jeg geta þess, að á ensku er skipavír nefndur: Wirerope-steel or iron, sljettur girðingavír: fencing-wire og gaddavír barbed-wire.