06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

6. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg gleymdi að svara háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), um húsnæðið, enda álít jeg það ekki eins mikið aðalatriði og hann. Það hafa ekki verið gerðar ráðstafanir til þess að útvega húsnæðið; það er ekki vani að smíða negluna á undan bátnum, en jeg tel vafalaust, að ekki muni standa á því, ef til framkvæmda kemur.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak, M.) talaði áðan eins og hann væri fylgjandi innflutningshöftum, og á jeg ekki sök á því. Það er útúrsnúningur hjá sama hv. þm. (Jak. M.), að jeg hafi verið að óvirða háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), og nenni jeg ekki að elta ólar við þess konar röksemdaleiðslu. Háttv. þm. (Jak. M.) verður að fyrirgefa mjer það, þó að jeg geti ekki eytt tíma mínum til þess að svara öllu því, sem frá honum kemur, enda hefi jeg grun um það, að háttv. þm. (Jak. M.) sje eins kunnugt um það eins og mjer og öðrum, að það er ekki alt eins merkilegt eins og það er mikið fyrirferðar.

Jeg verð að viðurkenna, að jeg var hissa á háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) og þeim framförum, sem hann hefir tekið. Við 2. umr. óð hann hjer elginn og talaði um einokun, selshausa og annað þess konar, en mi er að eins orðinn eftir hrollur í háttv. þm. (M. J.). Hann gat þess til, að stjórnin mundi hækka verð á tóbaki upp úr öllu valdi, og er ósköp vandalítið að búa til getsakir, en það er ekki á valdi háttv. þm. (M. J.) að rökstyðja það fremur en annað. Stjórnin á ekki að hirða ágóðann sjálf, og hún fer varla að brjóta lög af ágirnd fyrir hönd ríkissjóðs. Eins er það misskilningur að tala um gjaldeyrisskort í þessu sambandi. Það þarf að greiða fyrir tóbakið, hvort sem landið verslar með það eða einstakir menn, svo það kemur að því leyti í sama stað niður.