02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Jeg ætla ekki að stofna til óþarfra umr., en frá mínu sjónarmiði er frv. enn óaðgengilegra nú en það áður var, þar sem tekjuvonin er nú enn minni en upphaflega.

Þó að meiri hl. fjhn. geri ráð fyrir, að þetta og vínfangaverslunin, ef til hennar kemur, verði rekin saman, þá verða þetta alt að einu 2 stofnanir með tvöföldum starfrækslukostnaði, og honum alltilfinnanlegum.

Álít jeg miklu vænlegra, að tóbakstollurinn væri hækkaður, því að með því væru tekjurnar vissar, og engin áhættan.

En hjer er í raun og veru um tvöfalda áhættu að ræða, bæði þá, sem leiðir af venjulegum viðskiftum, og einnig þá, sem leiðir af eðli og fyrirkomulagi þessarar verslunar. Jeg er heldur ekki í neinum efa um það að nefndin hefir áætlað tekjurnar altof háar, nema verð á tóbaki hækki mikið frá því, sem það mundi vera í frjálsri samkepni. Hitt dugir ekki, að miða verðið við verslunina, eins og hún nú er, því að hún er í raun og veru ekki frjáls.