03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

47. mál, tollalög

Hákon Kristófersson:

Eins og hv. frsm. (J. A. J.) tók fram, gat jeg ekki orðið samnefndarmönnum mínum með öllu samferða um þetta mál. Og eins og samnefndarmaður minn rjettilega tók fram, þá var ósamkomulagið bundið við 8. lið frv., liðinn um hækkun tolls á óbrendu kaffi og kaffibæti. Jeg lít svo á, að þessi tollhækkun hafi í för með sjer allmikinn útgjaldaauka hjá fátækari hluta þjóðarinnar, og er í því alveg sammála hv. þm. Borgf. (P. O.).

Hv. frsm. (J. A. J.) sagði, að nefndin hefði litið svo á, að varla væri hægt að leggja mikinn toll á nauðsynjavörur. Jeg er þar alveg á sama máli, og álít, að tollaálögur ættu að koma sem mest niður á óþarfavarningi, en jeg tel efamál, hvort hægt er að telja kaffi óþarfavarning, þegar tillit er tekið til þess, hve mikið er notað af því, sjerstaklega við sjávarsíðuna. Það er því með tilliti til þess, að jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, þar sem 8. liður 1. gr. einmitt fer fram á hækkun tolls á þeirri vörutegund. Viðvíkjandi þeim ummælum hv. frsm. (J. A. J.), að vjer gætum þá drukkið meira te í stað kaffi, þá vil jeg benda á það, að slíkt mundi ekki afla ríkissjóði tekna, því að því minna, sem drukkið er af kaffi, því minni verður tollurinn. Þessi ályktun hv. frsm.(J. A. J.) er því einskisvirði, nema svo sje tilætlast, að þessi mikla tollhækkun eigi að verða til þess, að minna verði flutt inn af kaffi. Ef sú væri meiningin, þá sjá allir, að tollhækkunin yrði ríkissjóði ef til vill til skaða, en ekki til að auka tekjur hans, eins og jeg tel, að stjórnin hafi þó gengið út frá.

Hv. frsm. (J. A. J.) reyndi að leiða rök að máli sínu, með því að sýna, hve lítil álagningin yrði á hvern kaffibolla að meðaltali. Jeg hefi að vísu enga húsmóðurreynslu í þessu efni, en svo mikið þori jeg þó að fullyrða, að þessi útreikningur nær engri átt. Jeg fæ ekki skilið, að hægt sje að telja því líkt sull kaffi, eins og ef 150 bollar eiga að fást úr 1 pundi af kaffi og 1/2 pundi af exportkaffi. Það mætti áreiðanlega færa þetta niður um helming, og mundu þó fáir telja gott. Þetta getur því ekki rjettlætt það, að tollurinn sje hækkaður úr 30 aurum upp í 60 aura pr kíló. Annars er það auðvitað rjett hjá hv. frsm. (J. A. J.), að ríkissjóður fengi hjer tekjur, og vil jeg síst mæla á móti því, en það verður að athuga, að tekjuaukinn sje rjettilega fenginn. Og því er hitt, sem jeg hefi áður bent á, að ekki sje hægt að telja tollhækkuninni það til gildis, að sú sje meiningin, að minna verði flutt inn.

Hv. frsm. (J. A. J.) benti enn fremur á, að ef þessi tollhækkun næði ekki fram að ganga, þá yrði að finna eitthvað annað, sem aflaði landssjóði sama tekjuauka og kaffitollurinn. Þetta er auðvitað rjett, en mætti þá ekki eins benda á það, að spara hefði mátt miklu meira á ýmsum útgjaldaliðum síðustu árin, og að spara má meira eftirleiðis. En satt að segja hefir hvorki hv. Alþingi nje hæstv. stjórn gætt nauðsynlegs hófs, hvað útgjöldin snertir; því er nú komið að því, að bæta verður sköttum á þá gjaldstofna, sem þegar eru tollaðir svo mikið, að vart sýnist við bætandi.

Hv. frsm. (J. A. J.) gat þess, að varhugavert væri, vegna ríkissjóðs, að setja sig á móti þessu frv. Þetta er satt, en þess verður hjer að gæta, að sá tollur, sem er á þessari vörutegund, sem hjer ræðir um, er einhver allra hæsti tollurinn eins og er.

Jeg sagði hv. samnefndarmönnum mínum, að fyrirvari minn fælist í því, að jeg mundi, ef mögulegt væri, aðhyllast þær brtt. er fram kynnu að koma við þennan lið frv. Nú eru fram komnar 2 brtt. Önnur er á þskj. 82, frá þm. Borgf. (P. O.), og fer fram á það, að í stað 60 aura tolls, eins og frv. fer fram á, komi 30 aurar. Hin er á þskj. 85, frá hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), og fer fram á það, að tölul. 8., 9. og 10. verði alveg feldir burt. Mjer þykir þessir hv. þm. báðir fara of langt. Jeg vildi færa tollinn upp í 45 aura, og hefði kunnað betur við, að þessir hv. þm. hefðu farið eitthvað áleiðis til samkomulags. Háttv. þm. Borgf. (P. O.) hygst munu koma fram með till. til að bæta upp hallann við niðurfærsluna síðar. Og jeg ber hið fylsta traust til hans í því efni.

Jeg er því í vanda staddur, þar sem jeg hafði búist við, að brtt. mundu reyna að miðla málum. Þetta er nú alt orðið á annan veg. Jeg get ekki fylgt þeim hv. þm., er komið hafa fram með þessar brtt., þar sem jeg vil ekki standa algerlega á móti stjórninni í því að auka tekjur landsins, þótt það komi niður á þeim tekjustofni, sem síst skyldi. En að fara eins langt og frv. gerir ráð fyrir, tel jeg mjer ekki fært.

Vinur minn, hv. þm. Borgf. (P. O.) spyr, hversvegna jeg hafi ekki komið fram með tillögu sjálfur. Til þess er því að svara, að jeg bjóst við miðlunartillögu frá honum; hann hafði einmitt sagt mjer frá því, að á því væri von. Þekki hann að því, að vera sæmdarmann, og því ekki annar líklegri til að leggja það til mála, er betur má fara, en hann.

Annars mun jeg sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á málið; get að eins tekið það fram nú, að jeg vil styðja að allri þeirri tekjuaukning, er byggist á sanngjörnum grundvelli.