03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

47. mál, tollalög

Einar Þorgilsson:

Það hefir ávalt verið, og mun ávalt verða, vandasamt verk að gera út um skattamál þjóðarinnar. Fyrst er það, að brýn þörf er á að afla ríkissjóði tekna, til þess að standast útgjöld sín, en jafnframt er vandi að ráða fram úr því, hvernig á að afla teknanna.

Jeg álít rjett að ganga þá braut að reyna að koma á beinum sköttum sem mest. Þeir yrðu vissulega sanngjarnastir, því að þá gyldi sá, er ætti, frekar en með lausum sköttum.

Hæstv. stjórn berst heldur í þá átt, og er sú viðleitni hennar alveg samkvæm minni skoðun. En jeg álít, að ekki sje hægt að halla sjer meira á þá hlið heldur en hæstv. stjórn hefir gert, því að ekki verður hægt að hugsa sjer að fella algerlega í burtu óbeina skatta, eins og sakir standa nú.

En hæstv. stjórn hefir líka tekið tillit til óbeinu skattanna. En mjer finst hún hafa jafnvel tekið of grunt í árinni, að afla ríkinu tekna með þeim hætti, þar eð útgjöld ríkisins eru að svo miklum mun hærri en áætlaðar tekjur samkv. fjárlagafrv., en beinu skattarnir þar ákveðnir feikna háir, og sumir tekjustofnarnir mjög fallvaltir.

Að vísu álít jeg, og ýmsir aðrir, að það sje varhugavert að tolla nauðsynjar. En ástandið er þannig, að ekki virðist vera mögulegt að komast hjá því, að svo komnu máli. Það verður því, að líkindum, að halda uppteknum hætti, meðan útgjöld ríkissjóðs eru svo mikil sem þau eru nú.

Hjer kemur til álita, hvort vara sje nauðsynleg eða ekki. Þeir háttv. þm., sem komið hafa með brtt. við frv. hæstv. stjórnar, halda því fram, að kaffi sje nauðsynlegt. Það mætti kannske segja það, vegna þess, hve almenn notkun þess er orðin. En heldur verð jeg þó að telja það til nautnavöru. Mjer er því ekki eins sárt um það, þó að kaffi verði harðara úti en ýmsar nauðsynlegri vörutegundir.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.), sem á brtt. á þskj. 82. sagði, að læknar álitu kaffi nauðsynlega og holla vöru. Jeg get ekki verið honum sammála um það. Þeir læknar, sem jeg hefi talað við, segja hið gagnstæða. Ekki man jeg heldur til þess, að læknir hafi spurt sjúkling sinn um það, hvort hann drykki kaffi, í þeim tilgangi að ráða honum til að drekka það sjer til heilsubótar. Nei, læknirinn gerir það í því skyni að ráða sjúklingnum til að hætta því, í flestum sjúkdómstilfellum.

Af persónulegri reynslu get jeg sagt, að jeg drekk ekki kaffi, vegna þess, að jeg álít það fremur spillandi en bætandi heilsufar mitt, og svo get jeg hugsað að sje um fleiri. Háttv. flutningsmenn brtt. segja, að kaffi sje nauðsyn vegna þess að ekki sje hægt að finna neitt, sem geti komið í staðinn fyrir það sem drykkur. Jeg get sagt þeim, að jeg drekk vatn, og sakna alls ekki kaffis. Vísindin viðurkenna, að í kaffinu sjálfu sjeu engin næringarefni, en vatnið, og önnur efni, sem blandað er saman við kaffið, svo sem mjólk og sykur, gera það nærandi. Jeg verð því að halda fast við mína skoðun, að kaffi geti ekki talist með nauðsynlegustu vörum.

Á það hefir verið bent, að áætlaðar tekjur ríkissjóðs næmu ekki til að vega á móti útgjöldunum, þegar þau eru áætluð eins og nú er gert. En af háttv. brtt.mönnum hefir ekki verið bent á, að finnanlegur sje annar tekjuliður jafnrjettmætur kaffitolli, ef hann er numinn úr gildi eða lækkaður að miklum mun. Jeg sje þess vegna enga ástæðu til annars en að greiða atkvæði með þessari hækkun tollsins, sem frv. fer fram á, meðan ekki er hent á aðra heppilegri leið.

Þá hafa háttv. brtt.-menn talið þessa hækkun tilfinnanlega einstaklingunum. Það skal jeg viðurkenna. Öll útgjöld eru fátæklingum tilfinnanleg. En með tilliti til almennrar brúkunar kaffis, en ekki ofnautnar þess. verður tollhækkunin ekki svo mjög tilfinnanleg. Ef tekið er sem dæmi meðalheimili, 8–10 manna, þá ætti 1 kg. af kaffi og 1/2 kg. af kaffibæti að nægja. Það, sem er fram yfir þetta, er umfram meðallag. Tollurinn verður því ekki yfir 20 kr. á ári á hvert heimili, eða 2–3 kr. á mann. Þessi tollhækkun getur því ekki talist afartilfinnanleg, þegar litið er á það, að alment hafa menn fleiri peninga handa á milli nú en þegar tollurinn var í fyrstu lagður á, og brúka peninga sína á ýmsum sviðum óvarlegar. Jeg tel því, að ríkissjóð muni meira um hækkunina en hvern einstakling.

Það hefir verið reynt að benda á ágæti kaffis, með því að bera það saman við te. Þessar vörutegundir eru jafngamlar hjer á landi, en þó er kaffið miklu útbreiddara, og á þetta að sýna yfirburði þess. En þessi útbreiðsla mun stafa af því, að kaffið er áhrifameiri drykkur en te, og er því hressingarmeira til nautnar, og útbreiðsla þess er, að því leyti, lík og útbreiðsla tóbaks t. d., að þess er neytt meira í nautnaskyni heldur en til meltingarbóta eða næringar. Kaffi er drukkið mjög í óhófi, bæði á heimilum víða hvar, en sjerstaklega í samkvæmum og kaffihúsum. Jeg sje ekki ástæðu til að hlífa þannig lagaðri vörutegund, og ef hár tollur gæti komið því til leiðar, að minna væri neytt af kaffi, þá tel jeg það vel farið. Ríkissjóður mundi að vísu ekki fá eins miklar tekjur, en þjóðin í heild sinni sparaði sjer þá óþörf útgjöld, og væri þess færari til þess að greiða gjöld til ríkissjóðs á annan hátt.

Jeg hefi nú gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og tollanna í heild sinni. Jeg vildi gjarnan finna leið til þess að losa landið við alla óbeina skatta, en jeg sje ekki, að það sje mögulegt í svip, eða í náinni framtíð. Fasteignaskattur tekjuskattur og innflutningsgjöld verða vart eins há og áætlað hefir verið, og má því ekki skerða tekjustofna ríkisins, ekki afnema einn tekjulið, án þess að benda á annan eins góðan í hans stað.

Jeg ætla ekki að tala meira að sinni. Jeg býð við, að til þess verði tækifæri síðar, og mun jeg þá, ef til vill leggja eitthvað meira til málanna en jeg nú hefi gert.