27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

21. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Það er mikið og merkilegt mál, sem hæstv. stjórn hefir lagt fyrir þingið, þar sem er frv. til laga um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna.

Eins og kunnugt er, er mikill munur á afstöðu foreldra til skilgetinna og óskilgetinna barna að núgildandi lögum. Hagur skilgetins barns fer eftir hagforeldranna. Þau eru bæði jafnt skyld að sjá fyrir barninu, meðan það er í æsku, og framfæra það til 16 ára aldurs. Og jafnvel eftir það helst framfærsluskyldan, ef foreldrar eru aflögufærir. Jafnframt framfærsluskyldunni hvílir og á þeim sú skylda að ala börnin upp í nýta borgara. Eins hafa börnin skyldur gagnvart foreldrum sínum, og ber að ala önn fyrir þeim, ef þau geta. Foreldrar erfa börn sín, og börnin erfa foreldrana, jafnt bæði foreldranna. Þá ráði og foreldrarnir fyrir börnunum til 16 ára aldurs, og ráða jafnt bæði foreldrin.

Óskilgetið barn hefir sömu afstöðu til móður sinnar og skilgetið væri, og eins móðirin til barnsins. En um föðurinn er alt öðru máli að gegna. Á honum hvílir ekki önnur skylda en sú, að gefa með barninu til 16 ára aldurs, að sínum hluta, þá upphæð, sem ætla má, að nægi til þess að veita barninu það, sem kallað er „forsvaranlegt uppeldi“. Eftir 16 ára aldur barnsins hefir faðirinn engar skyldur gagnvart barninu, og getur það því farið á sveitina síðar, þótt faðirinn sje ríkur. Hinsvegar hefir barnið ekki heldur skyldur gagnvart föðurnum. Það erfir hann ekki, og hann ekki það, nema hann hafi þinglýst barninu.

Það er því mikill rjettarlegur munur á skilgetnu og óskilgetnu barni, en þó er kjaramunurinn enn meiri. Því að skilgetin börn alast upp á heimili foreldranna, og fer vel um þau, en óskilgetið barn fylgir móður sinni, og hagur þess fer eftir hag hennar. Og hagur móðurinnar er oft þröngur. Það er mikill hnekkir fyrir konu að eiga barn í lausaleik. Hún er látin gefa með barninu að sínum hluta, verður óvinnufær um tíma, og fær engar bætur fyrir það. Fyrst eftir fæðingu barnsins er hægt að skylda föðurinn til að greiða sinn hluta af meðlaginu. Auk þess þarf hún stundum að standa í málastappi, til þess að feðra barnið, og meðlagið greiðist oft seint, og gengur illa að ná því. Og þótt nokkuð hafi verið gert á seinni árum, til þess að hjálpa barnsmæðrum, til þess að fá meðlögin greidd, þá vill það ennþá oft verða misbrestasamt. Af þessu er auðsjeð, hver munur er á kjörum barnanna. Óskilgetnu börnunum líður ver. Það sjest, meðal annars, á því, að miklu hærri hundraðshluti þeirra deyr á unga aldri heldur en hjónabandsbarna, og erlendar hagfræðiskýrslur sýna líka, að tiltölulega fleiri þeirra lenda í glæpamannatölu.

Menn hafa lengi fundið, að nauðsynlegt væri að bæta hag óskilgetinna barna. Á Alþingi 1917 bar þáverandi 2. þm. Árn. Einar Arnórsson, prófessor, fram þingsályktunartillögu um að skora á stjórnina að athuga málið, og leggja síðan fyrir Alþingi. Stjórnin varð við þessu, sneri sjer til lagadeildar Háskólans, og síðan samdi Lárus H. Bjarnason, þáverandi prófessor, þetta frv., sem hjer liggur fyrir sem næst óbreytt. Var það fyrst lagt fyrir Alþingi 1919, síðan 1920 og loks nú, og hefir það komist þetta lengst, að komast úr nefnd í þessari háttv. deild.

Höfundur frv. hefir vandað vel til þess, og haft sjer til hliðsjónar nýustu lög nágrannaþjóðanna, dönsk lög frá 27. maí 1908, norsk lög frá 10. apríl 1915 og sænsk lög frá 13. júní 1917.

Aðaláherslan er í þessu frv. lögð á að bæta aðstöðu móðurinnar, og þó einkum barnsins. Annars er ógerningur að gera óskilgetin börn jöfn skilgetnum að öllu leyti, þegar af þeirri ástæðu, að hjónabandsbörn alast upp með báðum foreldrum sínum, en óskilgetin venjulega aðeins með öðru foreldranna. Báðir foreldrarnir geta því ekki haft jafnan rjett yfirbarninu, og þá verður rjettur móðurinnar, af eðlilegum ástæðum, að ganga fyrir rjetti föðursins. En af því leiðir, að ekki er hægt að leggja sömu skyldur á herðar föður óskilgetins barns, gagnvart því, og móðurinnar.

Þá eru ákvæði um hjálp til handa móðurinni til að feðra barnið og fá styrk frá föður þess, meðan hún er ófær til vinnu vegna barnsfæðingarinnar.

Þarf jeg svo ekki að fara frekar út í einstakar greinar frv. Þeim, sem vilja leita sjer frekari fræðslu um málið, vil jeg leyfa mjer að vísa til aths. við frv., sem prentaðar eru í Alþt. 1919. — Get jeg svo látið mjer nægja að vísa til nál. viðvíkjandi brtt. nefndarinnar, og sje ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um málið.