06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

21. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Jón Þorláksson:

Kvenfjelag hjer í bænum, sem lætur sjer mjög ant um þetta mál, hefir beðið mig að hreyfa því hjer, hvort ekki væri fært að taka inn í frv. ákvæði um það að skylda barnsmæður til þess að feðra börn sín.

Jeg hefi ekki borið fram brtt. í þessa átt, en vildi leyfa mjer að spyrja stjórnina og háttv. nefnd, hvort þetta ákvæði hafi ekki komið til íhugunar, og hvort ekki væri hægt að taka það inn í frv.

Mjer er sagt, að talsvert mikil brögð sjeu, því miður, að því upp á síðkastið, að mæður feðri ekki börn sín. Þetta verður óþægilegt fyrir börnin, er þau komast til vits og ára, og hvaða afleiðing það getur haft fyrir sifjalöggjöf þjóðarinnar, að hjer alist upp fjöldi barna, sem enginn veit ætterni á, ætti löggjafarvaldinu að vera ljóst.