26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Svo óheppilega vill til, að á ferðinni eru samhliða í háðum deildum mikilsvarðandi mál, sem bæði snerta fjármálaráðherra (M. G.). Auðvitað er ómögulegt fyrir hann að vera í báðum deildum, og óhjákvæmilegt er, að hann sje í Nd. En svo vel vill til, að mjer er óhætt að fullyrða, að hann er yfirleitt ánægður með brtt. nefndarinnar og hefir lítið við þær að athuga. En komi eitthvað fram í umræðunum, sem hann þarf að taka afstöðu til, þá er hægt að ná til hans.

Um þær till., sem snerta minn verkahring sjerstaklega, hefi jeg ekki mikið að segja. Þó vil jeg minnast á einstöku þeirra. Jeg felst fyllilega á brtt. 5c., að rjett sje að orða liðinn eins og þar er gert. „Kostnaður við starf mentamálanefndar 10000 kr.‘‘, því að þóknun til nefndarmanna nemur ekki 10 þús. kr. Svo var samið við þá þegar í upphafi, að þeir tækju minni borgun en vanalegt hefir verið í slíkum nefndum. og gengu þeir fúslega að því. Ef jeg man rjett, þá eru það rúmlega 2/3, hlutar þessarar upphæðar, sem gengur til þóknunar. hitt er í ýmiskonar aukakostnað. prentun o. s. frv.

Þá er 5. brtt. d., launabætur til Sigurbjörns Gíslasonar og Guðmundar Kristjánssonar kennara við vjelstjóraskólann, fyrir árið 1920. Málaleitun þessara manna kom í fyrra til fjárveitinganefndar neðri deildar. Eins og menn muna, var þinginu slitið skyndilega í fyrra. Sökum þess, að þingið stóð svo stutt, sparaðist mikið fje. Stjórnin þóttist því geta tekið mikið tillit til fjárveitingatillagna fjárveitinganefndanna, og það því fremur, sem fjárhagsbeiðnir hennar voru mjög sanngjarnar. Þó treystist stjórnin ekki til að fara eftir tillögu fjvn. Nd., um að bæta við laun þessara manna. Þó það hefði í sjálfu sjer verið sanngjarnt, borið saman við aðra kennara. En út af þessari till. fjvn. bjuggust kennararnir við að fá slíka uppbót, sem þeir fara nú fram á. Þeir bjuggust við að fá sömu laun og kennarar við Kennaraskólann. Háttv. frsm. (S. H. K.) sagði, að þessir menn hefðu vitað, að hverju þeir gengu. Það er nú svona eftir því hvernig það er tekið. Sigurbjörn Gíslason byrjaði að kenna við þennan skóla sem tímakennari, og hafði þá mjög lág laun. En svo komu launalögin og bötnuðu þá kjör hans dálítið. Sem sagt, stjórnin hefir engin afskifti haft af þessu máli, en jeg vildi aðeins skýra frá því, hvernig málið stæði af sjer. Hinsvegar verður að viðurkenna, að tillögur háttv. nefndar eru í samræmi við launakjör þau, sem stjórnin hefir hugsað sjer. Við kennarar við vjelstjóraskólann hefðu: hún hefir hugsað sjer, að byrjunarlaun þeirra væru hæfileg 2400 kr.

Þá er stafliður e. Háttv. frsm. (S. H. K.) sagði, að sanngjarnt væri, að Hafnarfjarðarkaupstaður legði fram eitthvert fje til Flensborgarskólans. Eins og menn vita, hefir hjer á þingi altaf verið dálítil tregða á að leggja þeim skólum fje, sem stofnaðir hafa verið af einstökum mönnum. Un Flensborgarskólann, sem stofnaður var af einstökum manni en ekki landinu sjálfu, hafa líka orðið deilur hjer á þingi. Einkanlega var þetta þó svo fyrrum. En smátt og smátt hefir farið svo, að þessi skóli er nú farinn að lifa á opinberu fje. Og það hefir ekki verið gert að skilyrði hingað til, að fje væri lagt til þessa skóla af sýslu- eða bæjarfjelagi. Virðist ástæðulaust að byrja á því nú, þar sem öll skólamál þessa lands er nú verið að athuga. og þá sjerstaklega gagnfræðaskóla. Virðist rjett að geyma að taka afstöðu til þess, hvort rjett sje að láta kaupstaðina, sem skólarnir standa í, greiði eitthvað af kostnaði þeirra, þangað til þingið ákveður, hvernig fara skuli með skólamálin í framtíðinni. Háttv. frsm. (S. H. K.) sagði, að Hafnfirðingar notuðu Flensborgarskólann sem unglingaskóla handa börnum sínum. Þetta mun vera rjett. En sama mun mega segja um gagnfræðaskólann á Akureyri. Yfirleitt má segja, að þessir skólar sjeu að flestu leyti mjög líkir, og fræðsla sú, sem þeir veita ungum mönnum. svipuð, og báðir sóttir úr öðrum hlutum landsins. Jeg vil beina því til nefndarinnar, hvort hún sjái sjer ekki fært að sleppa þessari kröfu til Hafnarfjarðarkaupstaðar að þessu sinni.

Nefndin vill fella niður styrkinn til blindu stúlkunnar, sökum þess, að af umsókninni er ekki hægt að sjá, til hvaða stúlku styrkurinn eigi að renna. Jeg skoða það svo, að stjórninni sje heimilt að veita styrkinn. þegar fullnægjandi upplýsingar eru fengnar.

Frsm. (S. H. K.) skýrði rjettilega frá, hvernig á því stæði, að styrkurinn til listamanna væri aðeins 15 þús. kr. þetta ár. Kom það af því, að viðkomandi nefnd, er hún skifti styrknum fyrra árið, fór fram á að fá 5000 kr. meira það ár en til var ætlast, sökum þess, að margir af þeim, sem þessa styrks njóta, vildu einmitt það ár fara til Rómaborgar. Háttv. frsm. (S. II. K.) skýrði rjett frá því, að úthlutunarnefndin gat þess jafnframt, að úr því að hún fengi þessar 5000 kr. nú, væri ekki hægt að byggja á því, að hún fengi nema 15 þús. kr. næsta ár, en ljet þess um leið getið, annaðhvort munnlega eða í brjefi, að styrkurinn til listamannanna væri svo lágur, með tilliti til dýrtíðarinnar, að hún mundi fara fram á það við næsta Alþingi að hækka hann. Þess vegna er ekki neitt um þetta að segja frá nefndarinnar hendi.

Jeg er sammála háttv. frsm. (S. H. K.) um það, að veiting listamannastyrksins á annaðhvort að vera hjá sjerstakri úthlutunarnefnd eða hjá þinginu, en ekki hjá báðum. En þeirri reglu hefir aldrei verið fylgt. Þingið hefir altaf veitt, fyrir utan aðalstyrkinn, sjerstaka styrki til einstakra manna.

Jeg heyrði ekki vel, hvað frsm. fjvn. (S. H. K.) sagði um Ásmund Sveinsson, sem nefndin ætlar þó að veita nokkurn styrk. (S. H. K.: Það er námsstyrkur). Það er sama hvort það er námsstyrkur eða ekki, því að partur af listamannastyrknum og skáldastyrknum er ætlaður til námsstyrks. Annars er nefndin víða ósammála sjálfri sjer. Hún hefir veitt nokkra fjárhæð til skifta meðal stúdenta við erlenda háskóla, en einstaka stúdentum er veitt tvöfalt og jafnvel margfalt á við suma aðra. Er víða hægt að benda á það. Þótt full ástæða sje til þess að taka margt af þessu til greina, þá þykir mjer þó mjög leitt, ef nefndin sjer sjer ekki fært að veita styrk til eins af listamönnunum, og það er Kjarval. Sumum finst raunar lítið til hans koma, en öðrum finst hann ágætt listamannsefni. Það eitt er víst, að jeg lít svo á, að ef ástæða er til að veita nokkrum styrk, þá er það til hans. Hann lifir í mestu fátækt. Hann er að vísu nokkuð einrænn, og getur þess vegna ekki selt málverk sín, og er það mjög leitt. Jeg skal ekki lasta nefndina fyrir það, þótt hún vilji spara það, sem ekki er bráðnauðsynlegt að veita fje til, en hvað sem öðru líður, þá mæli jeg fastlega með þessari styrkveitingu, og tel Kjarval hennar vel maklegan.

Jeg álít, að nefndin hefði ekki átt að neita um styrk til útgáfu lögfræðilegs tímarits. Íslendingum hefir ætíð þótt yndi að fást við alt lögfræðilegt, og jeg tel rjett að uppörfa þetta dálítið og halda út tímariti. Það eru margir lögfræðingar hjer, sem mundu rita í það, án þess að taka ritlaun, og mundi þetta því ekki verða mjög dýrt rit, en gæti orðið því að liði, þótt ekki sje hærri upphæð en hjer er farið fram á.

Auðvitað gætu fleiri tímarit komið á eftir. t. d. læknarit, en það mundi verða mikill munur á útbreiðslu þeirra. Þetta er í sjálfu sjer ekki stórt atriði, og jeg legg ekki eins mikla áherslu á það eins og hitt atriðið á undan.

Þá vil jeg minnast á 11. brtt. Það lá hjá fjárveitinganefndinni skýrsla um, að von sje á mönnum hingað, til þess að leggja „Terazzo“ í hús Eimskipafjelags Íslands og, ef til vill fleiri hús hjer í bænum. En svo stendur á, að leggja á gólf í aðalstofu í húsi Einars Jónssonar. Nú er verið að vinna að því að setja upp líkneskin í húsið, og þarf því brátt að leggja gólf; en það er álit húsgerðarmannsins, að það sje best úr því efni, betra en úr timbri. Mjer finst því sjálfsagt að nota hjer tækifærið. Það er þó augljóst, að gólf verður að koma, ekki er hægt að ganga á hrufóttu sementsgólfi, og þar að auki er það álit húsameistarans sjálfs, að þetta sje best. Sömuleiðis þarf að byggja nýjan stiga í Safnhúsið. Stiginn er þar bæði skörðóttur og ósljettur og slitinn mjög, og einkum og sjer í lagi er þess þörf nú, þar sem von er á mörgum gestum í sumar. Það er áreiðanlegt, að gólfið í húsi Einars Jónssonar yrði lagt úr þessu efni, hvort sem heimild fengist eða ekki, en hitt er óvíst, um byggingu stigans. Annars leggur stjórnin enga sjerstaka áherslu á þetta, en jeg vil aðeins geta þess, að tækifærið er sjerstaklega hentugt nú.