22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki að þessu sinni tefja tímann með langri ræðu. Jeg þarf alls engu að svara háttv. frsm. (M. J.), en aðeins að gera dálitla athugasemd við fullyrðingar hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hann brá mjer um það, að hafa farið með rangar tölur, en lýsti þó jafnframt yfir því, að hann byggist við, að þeim yrði betur trúað en skýrslum þeim um fiskútflutninginn, sem standa í greinargerð frv. og sem hann telur rjettar. Mjer þótti vænt um þessa spá hans og hygg, að hún rætist. Jeg hefi tekið tölurnar úr þeim opinberu hagskýrslum, og því verður erfitt að hnekkja þeim, en tölurnar í greinargerðinni eru ágiskaðar og sumar villandi og rangar, en lúta að því að gera sem ægilegast fjártjónið af því að neita kjörum Spánverja. Hitt veit jeg vel, sem hann sagði, að nokkuð af fiskinum hjeðan fer fyrst til annara landa og svo til Spánar. Segir sig sjálft, að tollauki á þeim fiski kemur eigi til greina, nema óbeint. En um þann fisk er það einnig að segja, að hann hefir á árabilinu, sem jeg nefndi, eigi verið meiri en svo, að ekki nær þeim innflutningi til Spánar, sem greinargerðin getur, þótt þessu væri við bætt.

Jeg vildi aðeins gefa þessa yfirlýsingu, af því að háttv. þm. sagði, að jeg hefði farið með rangar tölur, en um gullgengi pesetanna þýðir eigi að skrafa. Það breytist eins og veður í lofti.