19.04.1922
Efri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Um þetta mál stóð dálítill gnýr hjer í deildinni við 1. umr., en nú vona jeg, að til þess þurfi ekki að koma, því nú er þannig tilstilt, að jeg vænti þess, að frv. geti orðið að lögum með almennu samþykki.

Um þetta er það að segja, að þar sem áður var farið fram á það, að tollurinn væri 1 kr. af hverri síldartunnu, þá er nú ætlast til, að hann verði kr. 1.50. Jafnframt hefir sú breyting orðið á, að nú er lagt til, að tvær síðari málsgreinar 2. gr. laganna frá 1921 falli burt, og fellur þá niður rjettur íslenskra ríkisborgara til þess að fá tollinn endurgreiddan, þótt síldin hafi selst undir kostnaðarverði. Jeg álít rjett og sanngjarnt, að þetta hefði fengið að standa, jafnvel þótt tollurinn hefði verið 1 kr., og miða jeg það við útflutningsgjald alment, því samt sem áður hefði síldin borið hæsta útflutningsgjald. Þetta er mín skoðun.

Aftur á móti fer nefndin fram á það, að undanþágurjetturinn sje feldur niður og tollurinn sje ekki 1 króna heldur 1,50 kr.

Um þessa undanþágu, eða rjettinn til hennar, má annars margt segja, og reyndar fátt gott. Það er þá fyrst, að slík undanþága er í fullu ósamræmi við fiskiveiðalöggjöfina, eins og hún verður nú frá þinginu, því samkvæmt henni geta ekki aðrir en íslenskir ríkisborgarar saltað í landhelgi, en ekki er að tala um útlenda menn í þessu sambandi.

Auk þessa er mjög hvumleitt að láta ákvæðið standa. Er það fyrst og fremst hvumleitt fyrir ríkissjóð, því með þessu móti er gjald þetta að öllu leyti óákveðið, en það hefir hingað til þótt kostur, að skattar væru ákveðnir, því þarfir ríkisins verða að miðast við ákveðna skatta. Ennfremur er það mjög hvumleitt fyrir útgerðarmenn að þurfa að sætta sig við þetta. Er það hart að vera sjer þess fullviss, að maður eigi fullan rjett til eftirgjafarinnar, en verða þó að eiga hana rentulaust hjá ríkissjóði og eiga undir högg að sækja að fá hana. Auk þessa er það, eins og bent er á í nefndarálitinu, að þó að tveir menn selji sama verði síld sína, þá getur vel verið, að annar hafi hag af sölunni, en hinn óhag. Annar hefir t. d. fengið betri innkaup en hinn, eða veitt meira en hinn. Annar hefir ef til vill orðið fyrir óhöppum, svo sem skemdum á veiðarfærum, en ekki hinn. Alt þetta getur valdið því, að þó að tveir menn selji sama verði, þá getur annar samt tapað, en hinn grætt.

Hvernig sem litið er á ákvæði þessi, þá er augljóst, að heppilegt er að losna við þau, enda hefir nefndin einhuga lagt það til, að tvær síðari málsgr. 2. greinar í lögum nr. 60, 1921, yrðu feldar burtu. Er litið misjafnt á það, hvað hár tollurinn ætti að vera, en það leiðir af sjálfu sjer, að úr því að þessi fríðindi voru áður veitt, þá ber að lækka síldartollinn verulega.

Um önnur atriði í till. svo sem hvað snertir fóðurmjöl og fóðurkökur og áburðarefni, þá er þess að geta, að nefndin hefir lækkað toll á fóðurmjöli og fóðurkökum um einn þriðja, en á áburðarefni um helming. Getur slíkt auðvitað verið álitamál, en þó skal jeg geta þess í þessu sambandi, að síðastliðið ár voru verksmiðjurnar á Siglufirði eigi starfræktar, og er þetta því tæpast þýðingarmikið í bráð. En þó er vonandi, að þær sjái sjer fært að taka til starfa bráðlega aftur, vegna ívilnunar þessarar, því síldarmjöl er ágætur fóðurbætir og hefir komið landbúnaðinum að mjög miklu gagni. Annars finn jeg eigi ástæðu til þess að deila um þessi mál hjer, en vona, að allir geti fallist á till., fallist á þessar ívilnanir, sem áreiðanlega eru þær allra minstu, sem hægt er að gera kröfu til. Því hefir verið dróttað að mjer, að jeg mundi flytja þetta mál fyrir Norðmenn, eða þá af einhverri annari hvöt en þeirri, að gera það, sem jeg tel rjett og sanngjarnt.

Jeg ætla ekki að svara þessu öðru en því, að slíkur hugsunarháttur bendir til þess eins, að hugsunarháttur sumra þingmanna sje ekki sem sæmilegastur. En játa skal jeg því, að mjer ber engin sjerstök skylda til þess að annast hag Siglfirðinga eða Eyjafjarðarhjeraðsins, og hefði því heldur kosið, að mál þetta hefði verið flutt af þingmönnum þess hjeraðs. En þeir hafa ekki komið sjer fyrir með það, eða lagst það undir höfuð, en á þessu máli hefir það þó sannast að þessu sinni, að „þó að þessir þegðu, þá mundu steinarnir tala“.