21.04.1922
Efri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt. En jeg vildi aðeins verja mig fyrir þeirri ásökun, að jeg hafi verið með brígsl til háttv. þm. Eyf. Menn munu eflaust kannast við, hvað jeg sagði og hvað hann muni eiga við. Hafi hjer verið um ámæli að ræða, þá áttu þau við alla 3 þingmenn Eyjafjarðarhjeraðsins, og eins og kunnugt er, er einmitt einn þeirra mestu ráðandi í sjávarútvegsnefnd Nd. Annars skal á það bent að orðin „þó þessir þegðu, þá mundu steinarnir tala“ voru ekki töluð í ámælisskyni af höfundi þeirra. En annars verð jeg að segja það, að þegar um það ræðir að fá breytingu á ósanngjörnum lögum, þá er vant að vita, hvernig það gengur fyr en það er reynt, eins og nú hefir sýnt sig um hv. þm. Þakkirnar hjá þeim eða 2. þm. Eyfirðinga til mín fyrir að taka að mjer málstað kjósenda hans, eru þær helstar, að jeg geri það til þess að „slá mjer upp“ á því. Á þessu þakklæti býst jeg við, að hann „slái sjer lítið upp“ hjá þeim kjósendum sínum, sem fást við þennan útveg. Hvað viðvíkur því, að það, sem jeg sagði um togarana í Reykjavík, hafi eigi verið nein skýring á málinu, þá skal jeg geta þess, að jeg skil eigi, við hvað háttvirtur þm. átti með því. Jeg hjelt, að ekki stæði alveg á sama um, hvernig færi fyrir togaraútgerðinni, af því að ríkissjóðinn munar þó dálítið um tekjurnar af henni. Jeg hjelt, að það væri heldur til skýringar að benda á, að þetta gæti orðið þessari útgerð til hagsbóta, og tel það ekki mína sök, þó einhver þingmanna vilji ekki skilja þetta.