24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Magnús Kristjánsson:

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) gaf í skyn, að fjhn. hefði snúist í þessu máli frá síðasta þingi. Því verð jeg að mótmæla. Nefndinni var vel ljóst, hve óheppileg þessi ákvæði voru, en hún fjekk ekki rönd við reist, því að það var vitanlegt, að málinu var trygt svo mikið fylgi, að það mundi ná fram að ganga. Mjer getur nægt að benda til þingtíðindanna frá síðasta þingi; ef þessi hv. þm. les þau, þá getur hann fljótt gengið úr skugga um, að jeg hefi ekki snúist í þessu máli. Þessi hv. þm. heldur því fram, að ákvæðið í núgildandi lögum um endurgreiðslu nokkurs hluta tollsins, þegar síldin selst undir kostnaðarverði, sje hið mesta ólán, en jeg fullyrði, að það hafi verið eina úrræðið til þess að bæta úr því óbærilega ástandi, sem leitt hefði af því, ef ekkert slíkt ákvæði hefði verið til í lögunum. Jeg get ekki ímyndað mjer, að þessi þm. vilji ganga svo langt, að hann vísvitandi stuðli að því, að jafnósanngjarn og óbærilegur skattur haldist áfram. Jeg hefi sýnt fram á, að þessi tollur gæti numið um 30% af verði vörunnar, og sjá þá allir, hvaða vit er í slíku.

Þá var þessi sami háttv. þm. að reikna út, hve miklu ríkissjóðurinn tapaði, ef þetta frv. yrði samþ. En um slíka hluti getur hvorki hann nje jeg sagt með nokkurri vissu. Ef tollurinn yrði þessu lægri nú, þá mætti búast við, að framleiðslan muni verða þeim mun meiri í framtíðinni, og gæti þá farið svo, að ríkissjóður græddi á því.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Jeg stóð aðeins upp til að mótmæla því, að fjhn. hafi snúist síðan á síðasta þingi. Svo gat jeg ekki komist hjá því að lýsa yfir því, að eins og á stóð á síðasta þingi, var breyting nefndarinnar óhjákvæmileg. Ef hún hefði ekki komið fram, þá hefði meiri hluti nefndarinnar ekki getað fylgt stjórninni að málum.