20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1093)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Magnús Jónsson:

Jeg skal nú ekki tefja tímann lengi. Í greinargerð þessa frv. er sagt, að það sje borið fram vegna hinnar yfirstandandi fjárkreppu, og því finst mjer, að umr. fari nokkuð fyrir ofan garð og neðan. Jeg mundi vera með þessu, ef jeg áliti, að um nokkuð verulegan sparnað væri að ræða, en á því tel jeg mikla tvísýnu. Það eru tvö atriði í þessu máli, sem ekki hefir verið minst á. Í greinargerðinni er miðað við þingið í fyrra, sem er eitt hið lengsta þing, sem háð hefir verið, svo við það er alls ekki miðandi, því að ekki geta flytjendurnir ætlað á þann hátt að losna við kostnaðinn frá í fyrra. Hv. samþm. minn, 1. þm. Reykv. (Jak. M.), mintist á þetta. En auk þess hefi jeg heyrt, að komast mætti að betri kjörum með prentunina en í fyrra, svo kostnaðurinn ætti að geta minkað að mun af þeim ástæðum.

Þá kemur hitt atriðið. Jeg veit ekki betur en allir sjeu sammála um, að prenta eigi skjalapartinn eftir sem áður. En það er áreiðanlegt, ef hætt verður að prenta ræðupartinn, en skjalaparturinn einn prentaður, þá hlýtur hann að verða mun lengri en hann mundi annars verða, og prentun hans því dýrari. Og auk þess má búast við, að prentun yrði dýrari á hverja örk, þegar ræðupartinum væri kipt burtu. Þegar menn hyggja að þessu, þá sjest fljótt, að þó nokkuð molast úr þessum sparnaði og hann verður ekki eins mikill og virðast mætti í fljótu bragði. Sem sagt, jeg gæti verið með till. þessari, ef jeg áliti, að um nokkurn verulegan sparnað væri að ræða, en hjer hygg jeg, að því sje ekki til að dreifa.