09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1106)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm meiri hl. (Jakob Möller):

Hv. deild verður að fyrirgefa, þótt jeg kunni að viðhafa miður þingleg orð. Jeg verð sem sje að leyfa mjer að kalla það helbera heimsku hjá þeim hv. þm. (Þorl. G.), sem var að setjast, er hann segir, að andstaða mín og annara hv. þdm. gegn þessu frv. sje eingöngu sprottin af mótþróa gegn allri sparnaðarviðleitni annara hv. þm. Hv. þm. (Þorl. G.) getur athugað nöfn þeirra, sem atkv. greiddu gegn frv. við 2. umr., og uggir mig, að meðal þeirra muni hann finna þó nokkra, sem hann treystir sjer ekki til að brigsla um bruðl á landsfje. Um mig getur hann sagt það sem hann vill.

Hann (Þorl. G.) kvað mig ekki styðjast við neina reynslu í áætlunum mínum. Jeg tók það fram, að margt af því, sem jeg taldi fram, hefði jeg frá skrifstofu þingsins, og helst er þó að leita til þeirra, sem að þessu hafa unnið ár eftir ár.

Bæði honum og mjer er kunnugt um, að meiri afsláttur er fáanlegur á prentuninni en þessi 10%, sem hann nefndi, og eins hitt, að allur afsláttur á prentuninni er því skilyrði bundinn, að ræðuparturinn verði prentaður. Það er því bein blekkingartilraun, er hann lætur sem ekki komi til greina nema 10% afsláttur af 33 þús. Annars fór hann að eins út í eitt atriði í áætlun minni. Það var um afritin. Jeg áætlaði, að þau mundu kosta 3 þús. kr., en hann 4–5 þús. kr. Ekki græðir hann á þeim samanburði.

Um einokunartillögu hans þarf jeg ekki að fjölyrða. Allir sjá, hve heppilegt það væri að gefa einstakling einokun á slíkri bók, sem hið opinbera mundi vitanlega þurfa að kaupa mikið af. Það væri laglegur spámaður!