15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (1189)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg læt mjer nægja að mestu að vísa til þess, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls. Jeg vil leyfa mjer að taka fram, að síðastliðið ár var lagt úr ríkissjóði til kennara við fastaskóla í kaupstöðum 223000 kr., til kennara við fasta skóla í kauptúnum 231000 kr. og til farkennara 49300 kr. — Jeg var spurður um, hverjar þessar upphæðir væru við síðustu umr., en hafði þær þá ekki á takteinum, og nefni jeg þær því nú.

Jeg fæ nú ekki betur sjeð en að fyrir hv. þm. Dala. (B. J.) vaki algerð breyting á fræðslukerfinu, en mjer sýnist, að fljótfærnislegt sje að breyta svo lítt íhugað um fræðslukerfi, og þessi breyting er jeg viss um, að mundi draga úr menningu hinnar íslensku þjóðar. Menn eru að vitna til ágætrar heimafræðslu áður, en það eru eingöngu hillingar, sem skáldhneigðir menn sjá fortíðina í. Það er víst, að það er betur sjeð fyrir fræðslunni nú en áður var. Hitt er annað mál, að vel má vera, að einstakir skólar sjeu ekki svo góðir sem skyldi, en þá er að bæta þá.

Það ætti öllum að vera vitanlegt, bæði að ótal heimili eru því ekki vaxin að sjá fyrir menningu barnanna, og þau heimili, sem ráða yfir svo mikilli þekkingu, að þau sjeu fær um að fræða börnin, hafa svo litlum vinnukrafti á að skipa, að þau hafa ekki tíma til að annast heimilisfræðsluna.

Brtt. hv. fjvn. á þskj. 97 sýnir það best, að alt er enn í lausu lofti hjá þessari hv. nefnd. Sumstaðar á að vera skólaskylda og sumstaðar ekki o. s. frv. Brtt. á þskj. 88, frá hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), haggar aftur á móti ekki við fræðslukerfinu, heldur snýst eingöngu um það fjárhagslega, og heyrir það atriði aðallega undir hæstv. fjrh. En það eitt er auðsætt, að yrði þessi brtt. samþykt, þá mundi hún þó spilla alþýðufræðslunni, því að bestu kenslukraftarnir mundu falla frá, ef launin væru of lítil. — Eigi að breyta þessu 15 ára gamla kerfi, þá á ekki að gera það snögglega, heldur vísa málinu til stjórnarinnar, svo að það fái rækilegan undirbúning, en sá hringlandaháttur má aldrei verða, að verið sje að breyta fræðslukerfinu á hverju þingi. Það er þjóðinni stórhættulegt.