23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vil þá byrja á því, fyrir nefndarinnar hönd, að þakka háttv. þm. fyrir alt það þakklæti. sem yfir hana hefir dunið. Jeg vænti þess eftir þessum undirtektum að dæma, að tillögur fjárveitinganefndar eigi ekki erfitt uppdráttar.

Jeg gleymdi áðan að lýsa afstöðu nefndarinnar til brtt. þeirra frá einstökum þingmönnum, sem fram hafa komið við þennan kafla fjárlaganna. Skal jeg því gera það nú. Er þá fyrst að minnast á VII. brtt. á þskj. 131. um styrk til Sambands norðlenskra kvenna. Um þessa brtt. hafa nefndarmenn allir óbundnar hendur með atkvæði sín. En jeg fyrir mitt leyti get tekið það fram að jeg er þessari brtt. fylgjandi.

Viðvíkjandi VIII. brtt. á þskj. 131, frá þm. Mýra. (P.Þ.), um styrk til bóndans í Grísatungu. vil jeg geta þess, að þar um átti jeg að skila frá nefndinni, að hún væri mótfallin tillögunni.

Um IX. brtt. á þskj. 131. frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.), hafa nefndarmenn allir óbundin atkvæði.

Þá hefir nefndin orðið mótfallin brtt. háttv. 4. þm. Reykv. (M.J.), um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni til Ólafs J. Hvanndals. Aftur á móti er nefndin meðmælt því að veita manni þessum alllangan greiðslufrest á borgun höfuðstóls og vaxta, ef það mætti koma manninum að gagni og væri gott ef háttv. 4. þm. Reykv. vildi athuga það til 3. umræðu.

Þá er XI. brtt. á þskj. 131. Þar vill nefndin ekki ganga eins langt eins og flm. fer fram á, og vonar því að háttv. flutningsmaður taki tillöguna aftur nú, og flytji næst í öðru formi.

Jeg sakna mjög, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) er ekki hjer inni nú. Hann sótti mjög að Goethe gamla í kvöld, svo jeg held, að honum mætti fara að líða illa í gröf sinni. Háttv. þm. hefir eflaust hugsað sem svo, „að nú skyldi Gutti setja ofan“.

Jeg samhryggist þingmanninum yfir því, að tillaga hans skyldi fá svona vondar undirtektir hjer í þessari háttv. deild, því að slíkt er allslæmt fyrir annan eins höfðingja eins og háttv. þm. er. En annars hygg jeg, að þessi háttv. þm. verði fyrir fleiri vonbrigðum áður en hann fer af þessu þingi, því að þeim sparnaðarframkvæmdum, sem hann fylgir, getur enginn annar en hann verið þektur fyrir að fylgja. Því að allir sparnaðarmenn verða að minsta kosti að hafa þekkingu á þeim sparnaðartillögum, sem þeir bera fram og jafnframt verða þær að vera blandaðar sem minstum illvilja.