11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (1391)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg býst ekki við, að frv. þetta fái betri viðtökur en aðrar till., sem fara í sparnaðaráttina. Hjer er að vísu ekki um mikinn sparnað að ræða, en þó nokkurn.

Jeg hefi litlu við greinargerðina að bæta, en skal þó fara nokkrum orðum um þetta efni.

Það hefir verið tekið fram, að skuldir ríkissjóðs næmu um 15 milj. kr.; á síðasta ári hafa þær aukist mikið. Á árunum 1918–’19 námu afborganir ekki fullri hálfri miljón, en nú eru þær liðug ein miljón og tvö hundruð þúsund. Skuldir og afborganir nema nú á annað hundrað króna á hvert nef á landinu, og eru það ekki glæsilegar horfur. Alstaðar hefir kveðið við sama tón, á þingmálafundum og annarsstaðar, að það yrði að spara og reyna að koma fjárhagnum á rjettara kjöl en verið hefir.

Líti maður á fjárlögin, dylst ekki, að það eru miklar líkur til, en gjöldin verði meiri en áætlað er, en að varla má búast við meiri tekjum. Er áætlunin þó gerð með mestu nákvæmni.

Það hefir reynst einkenni á okkur eftir að við urðum fullvalda ríki, að skuldirnar hafa farið sívaxandi og fjárhagnum óðum hnignað. Það má raunar ekki kenna þinginu eingöngu um þetta, og ekki er heldur hægt að kenna fullveldinu það, þótt það eitt hafi kostað okkur yfir 200 þús. kr. Það eru að miklu leyti óviðráðanlegar orsakir, sem því hafa valdið. Fullveldið var okkur metnaðarmál, en þótt við sjeum eitt af minstu kotríkjum veraldarinnar, er ábyrgð okkar engu minni fyrir það, því reglan er sú, að því minna sem ríkið er að fólksfjölda og efnum, þeim mun meiri vandi er að stjórna fjárhag þess og vernda fjárhagslegt sjálfstæði þess.

Og án efnalegs sjálfstæðis gef jeg ekki eyri fyrir fullveldi. Það verður þá eigi annað en „hljómandi málmur og hvellandi bjalla.“ — Við erum og verðum garmar, sjeum við ekki efnalega sjálfstæðir. Og hafi fjárveitingavaldið það ekki í huga, fljótum við sofandi að feigðarósi og druknum í dauðahafi skuldanna.

Spurningin er nú, hvar eigi að taka fje; en ef við höldum áfram á þeirri braut, sem gengið hefir verið inn á, kemur sú tíð, að ekki verður hægt að svara öðru en að fjárhirslan sje tóm að öðru en skuldum, og ekkert sje hægt að leggja af mörkum til nauðsynlegustu fyrirtækja, því það virðist ógerningur að fara í vasa þjóðarinnar eftir meiri tekjum. Að minsta kosti er sú aðferð ærið harðneskjuleg, eins og hagur almennings nú er orðinn. En aðrar leiðir eru okkur ekki færar, því um aðrar tekjur er ekki að ræða en skatta og tolla, sem teknir eru beint og óbeint úr vasa almennings.

Sumir halda fram, að ekki þurfi annað en að taka lán, með því megi bjarga öllu við. Þessir menn hafa fengið sjálfstæðisglýju í augun og geta ekki sjeð, að einhvern tíma kemur að skuldadögunum. Og hvar erum við þá staddir? Skuldabyrðin, sem við nú eigum við að búa, stafar að miklu leyti af ráðsmensku þingsins á síðustu árum. Hæstv. forsrh. (S. E.) nefndi skuldirnar bákn og kvað það vera eitt helsta atriðið á stefnuskrá stjórnarinnar að fá þessu skuldabákni ljett af.

Það er ekki skemtilegt að sitja þing eftir þing hjer á hv. Alþingi og neyðast til að neita um fje til þjóðþrifafyrirtækja, sem nauðsynleg eru til að stuðla að velmegun þjóðarinnar. Aldrei hefir verið eins mikil þörf á tekjum og nú, og verðum við því að taka upp nýtt búskaparlag — að spara sem allra mest.

Það er gott og blessað að ætla sjer að auka framleiðsluna. En með hverju á að gera það, þegar ekki hefst inn meira fje en það, sem þarf til afborgunar og vaxta af skuldunum og til að halda uppi embættis- og starfsmannabákninu, en það bákn hefir óðum aukist á síðustu tveim árum, en atvinnuvegirnir hafa að mestu orðið að sjá um sig sjálfir og eru nú komnir í hið mesta öngþveiti.

Allir segjast nú vilja spara, en jeg hygg, að það sje meira í orði en á borði; að minsta kosti er eins og flestir leggi fram alla krafta sína til að hindra hverja sparnaðartilraun, sem fram kemur. — Mesta metnaðarmál þessa fullvalda ríkis á að vera fjárhagslegt sjálfstæði, og eins og nú er komið, verður helsta bjargráðið að spara á öllum sviðum, Hvert sparnaðarsporið er spor í rjetta átt, og margt smátt gerir eitt stórt.

Þetta frv. er ein tilraun í sparnaðaráttina. Jeg tók það fram í gær, að á þessum neyðartímum væri ekki hægt að komast hjá ráðstöfunum, er gengju nærri ýmsum mönnum og stofnunum, og jeg stend við það enn.

Lögin um stofnun kennarastóls í klassiskum fræðum voru samin þegar fjárhagur landsins var tiltölulega góður. Það var því ekki mikil ástæða til að vera á móti þessari embættisstofnun þá, enda þótt enginn fullyrti, að hún væri sjerstaklega nauðsynleg. Við stuðningsmenn þessa embættis tókum það þá skýrt fram, að þetta væri ekki stórvægilegt mál, en væri dálítið metnaðarmál fyrir prestana, að þeir væru ekki vankunnandi í því máli, sem Nýjatestamentið var skrifað á upphaflega. En sá metnaður er nú löngu kafnaður í skuldabaslinu.

Jeg stend því hvorki bleikur nje rauður, þótt jeg vilji losa ríkissjóð við þennan bagga. Það má gera án þess að skerða á nokkum hátt heiður prestastjettarinnar. Þótt prestarnir kunni ekki grísku, geta þeir verið jafnuppbyggilegir og guðs kristni til eflingar. Enda höfum við nú fengið þýðingu af Nýjatestamentinu, sem að allra dómi tekur öllum öðrum þýðingum fram. Jeg skal taka fram, að þótt jeg hafi lært grísku, álít jeg mjer ekki fært að dæma um það, en hefi fyrir mjer lærðari menn í því efni. Þessi vegsauki prestastjettarinnar verður því að lúta í lægra haldi fyrir fjárkreppunni. Það er margt þarfara, sem kallar að, og brýnustu nauðsynjamál verða ekki int af hendi vegna fjeleysis.

Hvað viðvíkur þeim heiðursmanni, sem hefir haft þetta starf á hendi, þá skal jeg játa, að þessi ráðstöfun er allóþægileg fyrir hann, og það því fremur, sem hann hefir ekki eftirlaunarjett og eftirlaun eru nú numin úr gildi. Tel jeg það illa farið — enda var jeg altaf andvígur því — að eftirlaun og biðlaun skyldu úr lögum numin. Það hefir líka sýnt sig, að síðan hafa eftirlaunin aukist hröðum skrefum, svo sparnaðurinn að því varð minni en enginn, og á hv. Alþingi þar sökina.

Jeg skal því taka það fram, frá mínu eigin brjósti — ekki fyrir hönd nefndarinnar — að þar sem hjer er ekki um stóra upphæð að ræða, mun jeg ekki vera á móti því, að þeim manni, sem hjer á hlut að máli, verði veitt einhver biðlaun eða uppbót.

Það er hægra að búa til embættabákn en ljetta því af. En þó ekki sje hægt að gera það alt í einu, verðum við að vinna að því, að það takist með tíð og tíma.

Jeg skal svo ekki hafa lengri formála út af þessu frv., en vona, að út af því rísi ekki deilumál eða kappræður.