13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (1402)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Björn Hallsson:

Það hafa nú þegar orðið allsnarpar umr. um þetta mál, en jeg ætla mjer ekki að taka annan þátt í þeim en þann, að gera grein fyrir skoðun minni.

Jeg býst nú við, að hv. deild viti að mestu um álit mitt og atkv. frá því 1914, er embætti þetta var stofnað. Jeg talaði þá á móti því við 3. umr. og taldi það óþarft. Síðan hefi jeg ekki skift skoðun um það, en tel nú, eins og þá, að kensla í þessum fræðum eigi heima í mentaskólanum, en ekki í háskólanum, og að ekki hefði þurft að mynda sjerstakt embætti til þess, að prestaefni fengju kenslu í undirstöðuatriðum í þessum fræðum þar.

Þetta embætti er óþarft, og hefði aldrei átt að stofna það, því að það er hægara að mynda embættin en leggja þau niður. En nú verðum við að hefjast handa og leggja niður öll óþarfaembætti, og þá verður þetta fyrir. Jeg vil helst, að það yrði afnumið nú þegar, en fáist því ekki framgengt, vil jeg heldur, að það verði lagt niður undir eins og hv. þm. Dala. (B. J.) hefir látið af því, heldur en það standi áfram.

Almenningur úti um land starir á embættafjöldann og kostnað þann, er af honum leiðir, og hann krefst þess af fulltrúum sínum, að hvert þeirra, sem ekki er bráðnauðsynlegt, sje lagt niður; en á þingi er ekkert gert. Þar er altaf að vænta mikillar mótstöðu, ef tilraun er gerð til þess að afnema óþörf embætti. Veitir því ekki af að vera á verði fyrir stofnun þeirra.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) sagði í fyrri ræðu sinni, að aðalráðið til viðreisnar fjárhagnum væri aukning framleiðslunnar. Þetta er að vísu að nokkru rjett, en það er fleira, sem kemur hjer til greina, og þá fyrst og fremst það, að lækka útgjöld ríkissjóðs með gætni í fjárveitingum og lækkun á gjöldum til starfsmanna ríkisins. Það dugir ekki að hampa því, að alt lagist með aukinni framleiðslu. Nú undanfarið hafa framleiðendur skaðast á framleiðslunni og sjá allir, að svo getur ekki haldið áfram, án þess þeir sökkvi í skuldum. Eitt aðalráðið er því að spara bæði gjöld innanlands og kaup á óþörfum vörum frá útlöndum. Þá þurfum við minni gjaldeyri þangað.

Háttv. þm. (Gunn. S.) sagði, að við yrðum að læra að lifa sem mest á eigin framleiðslu. Það er nú hægara að kenna heilræðin en halda þau. Við þurfum vöruskifti, eins og lifnaðarhættir okkar eru nú, og seljist ekki vörur okkar, er ekki annað fyrir hendi en taka lán, eins og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S ) hampar altaf hjer í þinginu. En jeg er enginn lánspostuli, þótt jeg sje ekki á móti þeim, þegar nauðsyn krefur. En altaf kemur að skuldadögunum, og tel jeg því best fyrir okkur að forðast lántökur, nema brýn nauðsyn sje til.

Það má enginn skilja orð mín svo, að jeg sje að ráðast á hv. þm. Dala. (B. J.) persónulega, enda stend jeg hjer í samræmi við skoðun mín fyr og síðar; en jeg tel það skyldu mína að fylgja sem flestum frv., er í sparnaðaráttina ganga.