21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (1413)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Það var mikið talað um þetta mál við 1. umr., og að ástæðulausu. Jeg hefði nú vel getað þagað núna, ef ekki hefðu komið fram brtt. Jeg verð að lýsa yfir því að nefndin heldur enn við sínar fyrri skoðanir, að leggja embættið niður nú þegar, en veita manninum sómasamleg biðlaun, eða styrk í fjárlögunum, eins og jeg gat um við 1. umr.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) kvaðst vera hlyntur stefnu nefndarinnar. Það var gott að heyra, en aðalstefna hennar er að fækka óþörfum eða lítt þörfum embættum. Get jeg ekki sjeð, að það skaði þjóðfjelagið, heldur virðist mjer það stefna til bóta og spara mikið fje.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) var að tala um samningsrof við manninn, sem í embættinu situr. En ef löggjafinn er sannfærður um, að embættið sje óþarft, þá verða það ekki talin samningsrof, þótt hann leggi embættið niður og veiti manninum sómasamlega uppbót. Það hefir verið dregið í efa, að sparnaðurinn yrði mikill, ef uppbót eða biðlaun yrðu veitt. Eftir núgildandi launalögum geta laun þessara tveggja manna, sem hjer ræðir um, orðið hæst eitthvað um 16 þús. kr. Þá mætti þó spara svo sem 8–9 þús. kr., þó að þeim væri báðum veitt sómasamleg biðlaun. Og þessir peningar sparast án þess að þjóðin biði á nokkurn hátt hinn minsta baga af þessu. En jeg álít rjett að líta á málið frá sparnaðarhliðinni.

Jeg vil segja það, að þingist skiljist ekki á neinn hátt ósómasamlega við þessa heiðursmenn, þó að þannig sje að farið, og að það haldi alla samninga við þá, þótt það sje á nokkuð annan hátt en verið hefir, þegar embættismönnum voru lögtrygð biðlaun eða eftirlaun.

Nefndin heldur fast við þetta frv. og mun greiða atkv. á móti brtt., en annars vil jeg ekki fara í neina harðneskju út af þessu máli nú. Það hefir þegar verið mikið rætt, svo að ekki er ástæða til að lengja umr. úr þessu, en að síðustu skal jeg geta þess, að jeg vona, að forlög þess verði að fullu ákveðin við þessa umr.