27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (1473)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Flm. (Magnús Pjetursson):

Jeg skal ekki ræða þetta mál mikið að þessu sinni, því þeir, sem vilja fá svar við ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), geta flett upp í þingtíðindunum 1919. (B J.: Þeir, sem vilja sjá, hvernig ekki eigi að svara henni). Hann hjelt sömu ræðuna þá, hefir aðeins bætt við hana tveim nýjum athugasemdum. Hin fyrri er, að frv. kæmi fram af því, að Strandamönnum kæmi ekki vel saman við sýslumann sinn, vegna þess, að hann sæti á öðrum enda sýslunnar. En það er ekkert nýmæli; svo hefir verið um langan tíma, og því ótrúlegt, að Strandamenn væru fyrst nú að taka eftir því. Hitt er, að nú hafi ríkinu hlotnast jörð í Dölunum, sem sýslumaðurinn þar búi á.

Jeg leyfi mjer nú að skjóta því til háttv. nefndar, til athugunar, hvort þessi jörð sje svo mikill vandræðagripur, að ekki sje unt að fá henni nokkurn ábúanda, nema niður sje þar settur sýslumaðurinn.

Jeg skal ekki fara í mannjöfnuð um Dalamenn og Strandamenn, þó jeg áliti, að áhöld verði um, hvorir hafi þar betur, en við þingmann Dalamanna þori jeg hvenær sem er, að fara í mannjöfnuð.