04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (1480)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Frsm. (Jón Þorláksson):

Eins og nál. á þskj. 91, sem prentað er fyrir þrem vikum, ber með sjer, hefir allshn. ekki getað fundið neina gilda ástæðu á móti frv. þessu og mælir því eindregið með því, að það fái fram að ganga.

Jeg skal leyfa mjer að gera nánan grein fyrir þessu, og er þá fyrst á það að líta, að þessi tvö lögsagnarumdæmi eru langfámennust af öllum þeim, er sjerstökum embættismanni er ætlað að þjóna, að undanteknum Siglufirði, sem er fámennasta lögsagnarumdæmi landsins, og Vestmannaeyjum, er hafa dálítið fleiri menn að telja, en bæði þessi umdæmi hafa verið tekin út úr sambandi annara sýslna, af því að þau þóttu svo afskekt, að embættin yrðu ekki starfrækt viðunanlega í sambandi við önnur umdæmi.

En þegar slept er Siglufirði og Vestmannaeyjum, og Dala- og Strandasýsla sameinaðar, þá verða þær þriðja mannfæsta lögsagnarumdæmið í landinu, með um 3800 manns (Dalasýsla 2000, Strandasýsla 1800); Skaftafellssýslur eru lægstar í manntalinu (ca. 3000), og Barðastrandarsýsla næst (með 3400). Í hinum 12 umdæmum landsins, utan Reykjavíkur, er mannfjöldinn þetta frá 8200 og niður í tæp 4000, sem er lítið eitt hærra en í Dala- í Strandasýslum til samans. Það er því ótvírætt, að þessar tvær sýslur skera sig svo algerlega út úr núverandi skipun lögsagnarumdæma landsins, að óeðlilegt er að halda tvo sýslumenn til að þjóna þeim. Það væri þá aðeins af þeim ástæðum, ef sannað yrði, að eins stæði á um þær og Siglufjörð og Vestmannaeyjar, að þær væru svo afskektar, að sami maður gæti ekki þjónað þeim báðum; en slíku er ekki til að dreifa. Að vísu má segja, að umdæmi þetta verði víðlent, en þó verður það ekki víðlendasta umdæmið. En á hitt ber einnig að líta, að þarna eru sæmilegir vegir, búið að bæta þá mikið frá því, sem áður var, símar komnir víða og von á nýjum, en þar af leiðir, að viðlendið verður því ekki til jafnmikillar fyrirstöðu nú sem áður, að embættið verði vel rækt.

Til samanburðar mætti nefna Þingeyjarsýslur, sem eru miklu erfiðari yfirsóknar, auk þess sem mannfjöldi þeirra telst full 5000, og Skaftafellssýslur, sem eru langerfiðastar yfirferðar af öllum lögsagnarumdæmum landsins.

Hitt er alkunnugt, að það tíðkast víða hjer á landi, að sami maður þjónar fleiri sýslum en einni; meira að segja hafa sumir sýslumennirnir á hendi formensku tveggja sýslunefnda og eru bæjarfógetar að auki. Kæmist þessi sameining á, væru 6 sýslumenn, sem hefðu formensku tveggja sýslna, og þar að auki 3 umdæmi, þar sem sami embættismaður hefir 2 sýslur og 1 kaupstað til yfirsóknar.

Af þessum ástæðum hefir nefndin fallist á rjettmæti þessa frv., og hefir með athugunum sínum þessu máli samhliða, ekki getað fundið annað en að hjer stæði svo sjerstaklega á, að þessi sameining sje rjettmæt, þótt ekki sje önnur breyting gerð á skipun lögsagnarumdæma.

Við þetta frv. hafa komið fram tvær brtt., og finst mjer ekki, að jeg geti gengið fram hjá þeim án þess að athuga þær lítils háttar.

Önnur þeirra, á þskj. 116, er fram borin af hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). sem sæti á í allshn., og fer hún fram á, að sýslumaðurinn skuli vera búsettur í Dalasýslu. Jeg verð nú að líta svo á, að annaðhvort sje, að brtt. þessi sje fram borin af ókunnugleika vestur þar, eða ekki af fullri sanngirni. Sá staður sem best liggur við sem sýslumanns setur eftir sameininguna, ef sýslumaðurinn vill búa í kaupstað, er í Strandasýslu, og er það Borðeyri, þar sem sýslumaður Strandamanna er búsettur nú. Væri því óviðkunnanlegt að ákveða hitt með lögum, ekki síst þegar á það er litið, að hvergi er ákveðið í lögum að skylda sýslumenn til að sitja á vissum stað. Þar að auki er Borðeyri stærsta þorpið þar um slóðir, og styttra þaðan á fjarlægasta bæ í Dalasýslu heldur en í Strandasýslu. Nú, vilji sýslumaðurinn heldur búa búi sínu í sveit, þá eru til hentugir staðir innan beggja sýslna, en nefndin er á móti því að ákveða nokkuð þar um með lögum.

Þá er það hin brtt., á þskj. 189, frá hv. þm. Dala. (B. J.). Af henni er ekki annað að sjá en að hún sje sjálfstætt frv. um gagngerða breyting á allri dómaskipun í landinu. Það verður ekki vel sjeð, hver meiningin er með þessu, en virðist þó vaka fyrir flm. (B. J.), að lögsagnarumdæmin eigi að vera 5 á öllu landinu, og hefir nú engin sýslan týnst á þessu uppprentaða skjali, en áður hafði ein sýslan gleymst á skjali því, er fyrst var útbýtt.

Við 4 nefndarmennirnir, sem athugað höfum þetta lítils háttar, getum ekki annað sjeð, en það sje fjarstæða að bera þetta fram sem brtt, og erum því algerlega á móti því á þessum grundvelli.

Að vísu mun hv. þm. Dala. (B. J.) hafa sótt fyrirmynd brtt. sinnar til launanefndarinnar frá 1914. Meiri hluti hennar vildi aðgreina umboðsvald og dómsvald, vildi hafa 6 dómara á landinu og kalla starfssvið hvers þeirra „lögdæmi“. En nefndin komst aldrei svo langt, að hún leiddi þetta mál í lagaform, og var það mikið óhagræði fyrir hv. þm. Dala. (B. J.). Annars hefði hann getað skrifað það upp og flutt svo sem sína lausn á málinu. En úr því svo var ekki, varð hann að taka af því, sem til var inni fyrir hjá sjálfum honum, og hefir ekki tekist það betur en svo, að hvorki hann nje aðrir geta vitað, hver meiningin er með þessari till. hans.

Það sjest hvergi, hvernig skipa eigi störfunum. Það mun þykja sennilegast., að þessir 5 sýslumenn, sem annars er ekki neitt nafn gefið í brtt., eigi að fara með dómsvaldið, en viðkunnanlegra hefði það verið, að skýrt ákvæði væri þar um í lögunum. Jeg vil ekki gera ráð fyrir, að það sje meining flm. (B. J.), að þessir 5 embættismenn eigi að taka að sjer 19 manna starf, eins og það er samkvæmt núgildandi embættaskipun landsins, en annað er þó ekki hægt að fá út úr brtt. En, sem sagt, jeg geri ekki ráð fyrir því, fyr en jeg þá heyri það af vörum hv. flm. sjálfs, og læt því hjer staðar numið um það atriði að sinni. Enda get jeg látið úttalað um brtt. þangað til hv. flm. (B. J.) hefir einhverja vörn flutt í máli þessu. Hinu treysti jeg, að hv. þd. lofi frv. að ná fram að ganga óbreyttu.

En fyrir sjálfan mig vil jeg geta þess að lokum, að framan af var jeg í nokkrum vafa um það, hvort rjett væri að sameina þessar sýslur. Mjer fanst álitamál, hvort ekki mundi rjettara að sameina Dalasýslu við aðra hvora sýsluna við Breiðafjörð, sem hún liggur á milli, því þar væri um líka hagsmuni að ræða, og bæta Strandasýslu við Húnavatnssýslu. En við nánari athugun sá jeg, að þetta mundi athugavert, og erfitt líka að fá bæði sýslumannsembættin afnumin. Hvor sýslan fyrir sig getur verið sjálfstætt sýslufjelag, þótt sami maður þjóni þeim báðum, og haft því sína eigin hagsmuni út af fyrir sig. Þess vegna fjelst jeg á rjettmæti þessarar sameiningar og vinn eindregið að því, að hún nái fram að ganga.