12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (1513)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Magnús Jónsson:

Jeg stend ekki upp til þess að hlaupa í skörðin fyrir hv. frsm. (Ó. P.), það er óþarfi, heldur af því að jeg var nefndur hjer í umr. áðan, og sagt, að okkur hv. frsm. (O. P.) hefði ekki að öllu leyti borið saman. Var því haldið fram, að í ástæðunum fyrir frv. væri gert ráð fyrir að samningsbinda allar skuldir áður en gengisskráningin færi fram, en jeg hefði aftur á móti sagt, að ekkert gerði til um 4 miljónir, hvort samningsbundnar væru eða ekki. En hvorugt þetta er alls kostar rjett. Að vísu sagði jeg eitthvað á þá leið, að 4 miljónir þyrftu ekki að hafa skaðleg áhrif á gengið, en þau orð sagði jeg í alt öðru sambandi, sem sje í ástæðum mínum fyrir afnámi innflutningshaftanna. Það stendur og ekki í nál., að skilyrðið fyrir skráningunni sje að samningsbinda allar skuldir, heldur „að mestu leyti“, og er það því á valdi stjórnarinnar, hvenær hún lætur skráninguna fara fram.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hjelt því fram, bæði áður og nú, að um leið og skuldir landsins væru samningsbundnar myndi íslenska krónan hækka í jafngildi danskrar krónu, og því væri skáningin óþörf. Þetta er ekki fullkomlega rjett.

Þó að allar skuldir landsins væru samningsbundnar, þá myndu þær þó geta haft áhrif á gengið, vegna þess að framleiðslan þyrfti þá auk annars að bera uppi rentur og afborganir af þessum föstu lánum.

Það er alveg rjett hjá þessum hv. þm. (Jak. M.), að ráðið til þess að laga gengið er að borga lausu skuldirnar eða semja um þær. En í þessu frv. er einmitt hvöt til stjórnarinnar um að vinda að slíku bráðan bug.

Um árangur gengisskráningarinnar má lengi deila, og um það, hvort matsnefndin muni geta haft áhrif á gengið eða ekki. Hygg jeg, að hún geti ekki skapað gengi, heldur muni hún aðeins slá föstu því gengi, sem er. Og einmitt þess vegna legg jeg ekki mikla áherslu á, hvernig nefndin er skipuð. Jeg játa, að fram geti komið nokkuð mismunandi áhugamál hjá nefndarmönnum, því útflytjendur vilja hafa lágt gengi, en innflytjendur hátt. Og þess vegna var það lagt til, að fulltrúar beggja ættu sæti í nefndinni. Annars finst mjer þetta ekkert aðalatriði, og engri átt nær að vera á móti frv. vegna þessara ákvæða; þeim má auðveldlega breyta.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) þykir ekki líklegt, að gengi íslenskrar krónu verði hærra en hinnar dönsku. En jeg hygg, að vel geti svo farið, þótt ekki verði í bráð. Í Danmörku eru einmitt nú mikil peningavandræði, og líklegt, að danskir bankar eigi erfitt með að veita bönkum vorum þau lán, sem þeir þurfa á að halda. Því er ekki ólíklegt, að viðskifti vor verði nú meira en áður við aðrar þjóðir en Dani. Ríkislánið var tekið utan Danmerkur, og jeg hefi heyrt, að bankarnir hafi einnig leitast fyrir um lán í Englandi.

Jeg var með að flytja þetta frv., með það fyrir augum, að það væri algerlega hættulaust, en hvetti til þess að samningsbinda skuldir vorar og yki þannig lánstraustið og lagaði gengið.