18.02.1922
Neðri deild: 4. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (1531)

12. mál, vatnalög

Bjarni Jónsson:

Jeg á bágt með að skilja, hvers vegna hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) vill ekki hafa 7 manna nefnd. Fjöldi þm. eru þó eigi í 2 nefndum, eins og leyfilegt er þó samkvæmt þingsköpum, og auk þess margir þm. ókomnir, sem fúsir mundu að ljetta á störfum hinna. Einnig eru mannaskifti heimil o. s. frv. Hins vegar er margt óunnið í málinu og því full þörf 7 manna nefndar, ef leiða á það til lykta nú. Fer jeg annars að þessu sinni ekki út í málið sjálft.

Það hafa verið skiftar skoðanir um eignarrjettinn á vatninu og verða víst framvegis.

En jeg sje, að hæstv. stjórn hefir ekki fallist á stefnu meiri hl. þingnefndarinnar frá því í fyrra. Nú verður ekki deilt við hæstv. fjrh. (M. G.) um þetta mál, því að það hefir ekki legið í hans verkahring. Aftur næst ekki til þess, sem hafði málið. Hann er nokkuð fjarri. Og þótt hann væri á annari skoðun en jeg, mun jeg fylgja reglunni: nil de mortuis nisi bene, og ekki vekja þær deilur, sem milli okkar kynnu að hafa orðið.

Jeg held nú, að ekki væri nein hætta, þótt þetta mál drægist úr hömlu á þessu þingi. Jeg þykist þekkja svo vel fjárhag í nálægum löndum, að mjer sje óhætt að fullyrða, að fjesýslumenn muni þykjast hafa annað við fje sitt að gera en að leggja það í vafasöm fossafyrirtæki. Þeir munu því ekki bæra á sjer til næsta þings. En þótt nú svo ólíklega bæri við, þá má gera ráð fyrir, að við höfum landsstjórn, er hefði einurð til þess að segja umsækjendum að bíða næsta þings. Því að jeg fæ ekki skilið, að sá gæti orðið ráðherra hjer hjá bændaþjóðinni, sem væri sá höfuðhleypingur, að vilja hleypa stóriðju inn í landið að óundirbúnu máli. Slíkt hefði ef til vill verið hugsanlegt meðan peningamontið bar hæst hjer, en nú virðist mjer sem það sje nokkuð tekið að lækka.

Sparnaðarmönnum, sem vilja jafnvel fara að hætta að prenta umræður þær, er hjer fara fram, til þess að geta talað ábyrgðarlaust, vil jeg benda á, að rjett er að forðast stapp um mál, sem fresta má að skaðlausu. Og þeim, sem vilja stytta þingið, má benda á, að rjettara er að fækka málum heldur en flaustra þeim af. Þingmenn eiga ekki að vera hjer til þess að flaustra málunum af, heldur athuga þau sem grandgæfilegast. Og undarleg er sú skoðun sumra hv. þm., að vera þeirra hjer sje þjóðinni frekar til niðurdreps en viðreisnar.