14.03.1922
Neðri deild: 22. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (1607)

49. mál, sérleyfi til vatnavirkjunar

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg átti von á dauða mínum, en ekki því, að hæstv. atvrh. (Kl. J.) reyndi að fá út úr þessu saklausa frv. úrskurð um eignarrjettinn á vatnsorkunni í landinu. Það er of fyndið til þess að mjer hefði getað dottið það í hug. Hafi jeg orðað eitthvað í frv. svo, að það megi skilja á þennan hátt, þá hefir það áreiðanlega orðið óvart. Það er fjarri mjer að hafa ætlað að ginna háttv. þm. eins og þursa til að samþykkja hjer eitthvað, sem þeir væru mótfallnir, enda sje jeg ekki eitt einasta atriði í þessu frv., sem skeri úr þeirri deilu. Þó einhverjum manni væri bannað að virkja foss, þá er ekki bar með skorið úr eignarrjetti hans á honum. Því þótt hann ætti hann eins tvímælalaust eins og hringinn á hendi sinni, þá mætti samt setja lög um það, hvort hann megi nota hann og hvernig. Þetta hefir líka oft og mörgum sinnum verið gert, og mun altaf verða gert.

Þó talað sje um veitingu á leyfi til vatnavirkjunar, getur eigi verið að ræða um tilraun til að taka eignarrjett af mönnum.

Tilgangur þessa frv. er að komast hjá hættunni við, að sjerleyfi yrði veitt, án þess þó að koma nálægt deiluatriðunum. Í 2. gr. frv., um veitingu leyfisins, stendur eingöngu hvenær og hvernig skuli leyfa, og ætlun mín var aðeins að setja skorður við því. — En eftir yfirlýsingu hæstv. atvrh. (Kl. J.) horfir málið alt öðruvísi við. Jeg tel mig hafa náð tilgangi frv. með því að fá þá yfirlýsingu, og eftir að jeg hefi fengið hana læt jeg mig litlu skifta, hvort hv. þm. ætla frv. með öllu óþarft. Jeg gæti því ef til vill tekið aftur tillöguna, því jeg efast ekki um, að hæstv. atvrh. (Kl. J.) efni orð sín, en hugsanlegt væri þó, að hann dæi og að annar, er kæmi í hans stað, áliti sig ekki bundinn af yfirlýsingu fyrirrennara síns, og er því rjettara að fara varlega.

Hins vegar mátti ekki skilja tillögu mína sem áreitni við stjórnina eða hæstv. atvrh. (Kl. J.), en er hann lagði svo ríka áherslu á eignarrjettinn, virtist þó enn meiri ástæða en áður til að fá fulla tryggingu fyrir, að eigi yrði hafist handa í málinu að öllu óviðbúnu.

Jeg get ekki sjeð, að eignarrjetturinn sje nokkursstaðar vjefengdur í þessu frv., en líki mönnum ekki orðalagið, má breyta því svo, að skýlaust sje tekið fram, að ekki sje verið að skera úr neinni deilu um það atriði.

Hvað viðvíkur tölunni, 1000 hestöflum, sem jeg vildi í mesta lagi veita leyfi til að virkja, þá er hún tekin nokkuð af handahófi; mætti eins segja 500 hestöfl. Rjettast væri, að alt yrði geymt þangað til skipulag er komið á fossamálið.

Því, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði hjer um, læt jeg ósvarað. Í ræðu hans var ekkert, sem svara þyrfti, enda var hún eigi annað en endurtekning á ræðu, sem hann hafði haldið hjer áður, og jeg efast ekki um, að hann hafi munað.

Að lokum skal jeg geta þess, að í frv. bjó ekkert annað en það, sem hver maður mátti lesa, og var það eigi ætlað til þess að fleka hv. þm. til þess að skera á einn eða annan hátt úr deilumálunum um eignarrjett fossanna.

Legg jeg svo undir dóm hv. þm., hvort þeir vilja vísa frv. til 2. umr. og þeirrar nefndar, er hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á sæti í.