27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Úr því menn gerast nú svo vinnuharðir að halda hjer fundi nætur og daga og leyfa ekki þm. sæmilegan svefn, þá verður þó að reyna hvort maður ekki einnig getur verið liðtækur að næturlagi.

Það er þá fyrst viðvíkjandi 15. gr., að jeg verð að byrja að líta á búverk þeirrar ágætu sparnaðarnefndar hjer í þinginu, sem atkvgr. hefir sýnt, hve nærri stendur hug háttv. þm., þar sem hver einasta brtt. hennar hefir verið feld hjer í deildinni. (Margir: Nei, ekki ein, ekki till. um skólagjaldið fyrir Reykjavíkurnemendur). Nú, það hefir ein till. verið samþykt, og bið jeg því háttv. nefnd velvirðingar. (S.St.: Jeg geri það). Já, jeg sje það nú, að ein till. hefir marist í gegn með 13:12 atkv. Hefir deildin þar gert það fyrir búkonuna að samþykkja þá till. hennar, sem allra fráleitust var, enda mun sú till. vafalaust deyja drottni sínum í Ed.

Þessi háttv. búkona byrjar á því að lækka styrkinn til bókasafna í kaupstöðum. Byggir hún þá till. líkl. á því, hve bókband nú er orðið afaródýrt! En sumir munu þó vera svo heimskir að halda því fram, að þessi styrkur þurfi að hækka, en ekki að lækka, og byggja það á því, hvað bókband er nú afardýrt. Annars má það vel vera, að hitt sje ástæða nefndarinnar, að hún ætlist til, að hætt sje að kaupa bækur, að hún vilji þeyta sparnaðarlúðurinn svo mjög og segja, að Ísland sje nú á þeim heljarþremi efnalega, að alt verði að gera til þess að sporna við því, að menn eyði fje sínu í að kaupa nauðsynlegar og nytsamar bækur.

Sama er að segja um till. nefndarinnar um sýslubókasöfnin. Býst jeg við, að ekki sjeu bókasöfn í sýslum þessara háttv. sparnaðarnefndarmanna. (S.St.: Jú). Háttv. þm. N.-Ísf. (S.St.) neitar því, að hjer sje um hreppapólitík að ræða. En undarlega fanst mjer komið við hjartað í honum, þegar minst var á Hesteyrarsímann. Og mjer fanst satt að segja vera hreppapólitískur keimur að ræðu hans um það efni. En búkonurnar kunna auðvitað að haga sjer, eins og allir vita.

Þá þykir ekki háttv. sparnaðarnefnd þörf á því að halda áfram prentun Alþingistíðindanna. Má vera að þetta sje gert til þess að prentarar fái tækifæri til þess að leggja eitthvað fram til sparnaðar; því hvað gerir það, þótt prentarar sjeu atvinnulausir og að nauðsynlegar bækur sjeu óprentaðar, ef aðeins er til fje í landssjóðnum? Það er aðalatriðið fyrir sparnaðarnefnd, enda þykist hún ein eiga landssjóðinn. Annars er þessi till. slík fjarstæða, að ekki getur til mála komið að deildin samþykki hana. Jeg get aldrei hugsað mjer svo illa tíma, að þessi prentun þurfi að falla niður.

Og nú þegar tímarnir eru að batna og fjárhagurinn að rjetta við, þá er síst ástæða til að ráðast á þessa liði.

Eins og flestum er kunnugt, er Fræðafjelagið nú að gefa út nytsama bók og merkilega, og hefir til þess styrk af ríkissjóði. Nú vill sparnaðarnefnd taka þennan styrk af fjelaginu. En það er von mín, jeg geti fengið háttv. deild til þess að samþykkja ekki þessa sparnaðartill., ekki síst þar sem hjer á hlut að máli vísindamaður, sem hefir skrifað veglegar bækur um mig og fleira. Og þó ekki væri fyrir annað, þá ætti þó deildin að leyfa þessum manni að halda áfram að starfa og njóta sín. Mun vegur okkar síst of mikill, þó slík starfsemi fái að haldast áfram. En það lítur óneitanlega dálítið einkennilega út, ef þessi vísindamaður á að fá styrk, en fjelagið, sem hann starfar við, missir styrk þann, sem það hefir áður haft. Jeg býst því við, að þm. láti fjelag þetta njóta styrks framvegis, hvað sem Búkolla segir.

Jeg hefi nærri gleymt, að jeg var hjer frsm. nefndar. Vil jeg því nú geta þess, að nefndin hefir verið öll á móti þessum liðum, sem nú hefi jeg nefnt að undanskildum einum manni, sem ljeð hefir þeim flestum atkvæði sitt.

Þá kem jeg að tveim brtt. frá háttv. 1. þm. Reykv. (Jak.M.). Var fyrri till. feld í fjvn. með 5:2 atkv. En jeg vil geta þess, að jeg var annar þessara tveggja, er samþyktu till., og mun hún og njóta míns atkv. í deildinni. Meðmæli þessa manns, Páls Ísólfssonar, voru svo góð, að jeg hefi aldrei vitað einn mann fá jafnmörg góð meðmæli frá ágætum mönnum. Af meðmælunum sjest, að þýskir kennarar hans telja manninn framúrskarandi. Vil jeg því öllum árum að því styðja, að Alþingi hjálpi nú þessum manni til þess að fullkomna sig jafnvel þó hann staðnæmist erlendis fyrst um sinn.

Það er ekki einskis vert, ef þessi maður verður eins frægur og t. d. Pjetur Jónsson. Jeg man til þess að þingið neitaði þeim manni um 800 kr. styrk, þegar hann, þá ungur stúdent, var að byrja á söngnámi sínu. Nú mundu margir þm. hafa óskað, að Alþingi hefði þá styrkt þann mann og reynst honum betur; yfirleitt munu flestir telja það sóma að eiga hönk upp í bak þess, sem frægur er. Og jeg hygg áreiðanlega, að jeg tengi ekki of miklar vonir við þennan mann, þótt jeg spái honum mikilli frægð í framtíðinni. Því fylgi jeg eindregið þessari brtt.

Hin brtt. er styrkur til Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara. Um þá till. hefir nefndin óbundin atkv. Nefndin viðurkennir, að verk Þórarins, að æfa hljóðfærasveit hjer, sje ágætt verk. Og þó nefndin gæti ekki hiklaust samþykt þessa till., áskilur hún sjer óbundin atkv. um hana. Og jeg legg eindregið til, að þessi styrkur verði veittur. Því það er eyðsla af versta tægi að láta mann, sem miklu hefir til kostað mentunar sinnar, mann, sem er ágætur söngstjóri og söngskáld — það er eyðsla segi jeg, að láta hann drafna niður og verða að engu í kaffihúsareyk hjer í Reykjavík. Hann getur ekki iðkað list sína, nema hann fái styrk; annars verður hann að þræla á kaffihúsunum og kenna frá morgni til kvölds, en hefir engar tómstundir til að göfga list sína. En þessari eyðslu — því eyðsla er það — er hægt að afstýra með þeim sparnaði að veita þessum ágæta manni styrk. Jeg vil minna á það nú, af því háttv. þm. hættir svo oft til að gleyma því, að það eru til þeir hlutir, sem ekki verða keyptir fyrir fje, og að þá hluti megum við ekki ónýta með heimskulegum sparnaði, sem er í eðli sínu versta eyðsla.

Þá kem jeg að till. frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.), sem sætir firnum.

Raunar þyrfti hún ekki að undra neinn þann, sem sá þá till. þessa sama þm., sem hjer var áðan drepin í deildinni, en þó keyrir um þvert bak, að því er þessa seinni till. snertir. Eða hver hefir heyrt hjer í deildinni meiri óskammfeilni en þá, að vilja hafa af sextugum vísindamanni, sem auk þess er fátækur barnamaður, umsamið kaup? Hjer er svo langt gengið, að lengra verður naumast farið. — Þegar fyrverandi forsætisráðherra (J.M.) eyðilagði orðabókarstarfið að miklu leyti, með því að veita svo lítið fje til hennar, að ekki nema einn maður gat að henni starfað, þá sagði hann þó, að ekki kæmi til mála, að þessi maður hefði minni laun en dósentslaun. En þau laun eru ca. 7000 krónur í þessum fjárlögum. Og það eru áreiðanlega þau minstu laun, sem hægt er að komast af með hjer í Reykjavík fyrir mann, sem hefir heimili og á fyrir börnum að sjá. Þessi maður, Jóh. L. L. Jóhannsson, er kominn yfir sextugt. Hann hefir varið öllum sínum tómstundum frá barnsbeini til rannsókna og lestrar íslenskra fræða og er vafalaust fróðastur allra lifandi manna í þeim efnum. Hann hvarf og frá prestsskap og allgóðum launum, til þess að takast þetta starf á hendur, og hefir unnið að því af kappi síðan. Og á það síðan að vera umbun þingsins til þessa ágæta manns að svifta hann í elli sinni þeim launum, sem hann með rjettu á heimting á?

Kjör þessa manns eru eigi svo góð sem þau voru, er hann sat í embætti. Og alleinkennileg umbun væri það, er þjóðin veitti honum fyrir að leggja stund á móðurmál sitt, ef hún tæki nú af honum laun hans. Hann hefir látið af embætti sínu til þess að geta gefið sig óskiftan við þessu starfi í þarfir þjóðarinnar. En jeg spyr: Hvað græðir landið á þessu? Jú, það, að maðurinn neyðist til þess að taka að sjer kenslutíma, og getur því eigi lagt fram til þessa starfs nema hálfa starfskrafta sína. Er þetta að mínu viti hið sama og að gera laun fyrir vel unnið verk að fátækrastyrk.

Því hefir verið hreyft hjer í deildinni, að starf þetta væri eigi annað en bitlingur. En það er ósatt mál. Þessi maður kom einmitt að starfinu þegar það hætti að vera bitlingur, því jeg skal játa það, að það var það um eitt skeið. Nú er svo komið málum, að þetta er orðið mesta þjóðnytjafyrirtæki. Annars þykir mjer mestu furðu gegna, að menn skuli leyfa sjer að koma fram með slíka firru sem þessa hjer í deildinni, enda vona jeg, að háttv. þm. ljái till. ekki atkv. sitt.

Þá kem jeg að till. frá háttv. þm. Barð. (H.K.) og háttv. 2. þm. Árn. (Þorl.G.) um hækkun á styrk Helga Pjeturssonar úr 3 þús. kr. upp í 4 þús. Nefndin hefir látið óbundin atkvæði um þennan lið. Jeg fyrir mitt leyti trúi því vel, að maðurinn sje eigi auðugri en það, að hann þurfi á hækkun þessari að halda. Hann hefir bæði margt og mikið fram að færa og vinnur að því af mikilli elju. Tel jeg víst, að hann leggi mikið í kostnað við starf sitt. Jeg ann honum því vel þessarar styrkhækkunar.

Þá kem jeg að einni sparnaðartill. enn. Hún gengur út á það að taka styrkinn af einum okkar góðu, rosknu mönnum, og er hann þó ekki sístur af þessum gömlu fræðimönnum vorum, sem notið hafa 500 kr. styrks af almannafje, hvorki að gáfum nje atorku. Og það hygg jeg, að orðskviðasafn hans verði talið stórmerkilegt er fram líða stundir. Jeg á bágt með að trúa því, að þessi háttv. deild taki mann þennan svona út í bláinn út úr og greiði atkvæði með till.

Þá kem jeg að 19. lið á þskj. 153, það er að í stað 1500 kr. til Íþróttasambands Íslands komi 2000 kr. Lið þennan feldi nefndin með 4:1 atkv. Jeg skal ekki vera margorður um lið þennan, en það er hyggja mín, að margir óski þess, að íþróttir fari vaxandi með þjóð vorri, og vilji því ljetta undir með þeim, sem að þeim málum standa. Menn þessir vinna, enda þótt um mikið starf sje að ræða, algerlega kauplaust, og því tel jeg það vel farið, að Alþingi Íslendinga sýni þeim þá höfðingslund á móti, að hlynna að þessu menningarstarfi þeirra í þarfir alþjóðar. Það eitt væri Alþingi Íslendinga sæmilegt.

Þá kem jeg að 20. lið á sama þskj., um námsstyrk til Sigurðar Guðmundssonar. Er till. sú frá fjvn. Hefir maður þessi haft námsstyrk undanfarin ár, en nú er ætlunin að skerða hann, þannig að færa styrkinn úr 1500 kr. niður í 1200. Mál þetta kom eigi til 2. umr. sökum þess, að umsóknin kom svo seint vegna óhagstæðra skipaferða. Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að orðlengja um lið þennan. Maðurinn er deildinni að góðu kunnur og hefir fengið styrk undanfarin ár með miklum atkvæðafjölda.

Þá er það till. viðvíkjandi sandgræðslu. Nefndin var ekki samþykk henni. Ýmsum gekk það til, að þeir óttuðust, að fjárveiting til hennar væri torfengin, ef þessi till. væri samþykt. Annars væri æskilegt að vita, hvort eigendur sandfoksgeira vilja ekki leggja fram fje á móti landssjóði í fyrirtækið. Ef þeir geta það ekki, þá verður þeim vafalaust hjálpað til þess, en vilji þeir það ekki, þá ætti að mega taka lögtaki hjá þeim upp í kostnaðinn, eða taka jarðirnar eignarnámi, því það er í almennings þágu að stöðva jarðskemdir. Því fer fjarri að nefndin sje á móti sandgræðslu. Hún álítur hana þvert á móti bráðnauðsynlega, enda hefir hún hækkað styrkinn.

Þá kem jeg að 22. till. á þskj. 153, frá hinum óþrotlega tillögubrunni sparnaðarnefndar, sem fer fram á það, í samræmi við að fella niður kenslu iðnaðarmanna, að neita þeim um ferðastyrk. Með öðrum orðum, úr því ekki má byrja að læra, þá má auðvitað ekki heldur halda áfram. Jeg býst við því, að deildin verði sjálfri sjer samkvæm og felli þetta ekki frekar en hitt. Annars hefi jeg altaf álitið landinu mikið gagn að því að iðnaðarmenn ferðuðust til annara landa til þess að auka þekkingu sína, sjerstaklega til Þýskalands. Því betri verða auðvitað þau verk, sem unnin eru í landinu, því betur sem þeir eru að sjer, sem verkin vinna, svo jeg ekki tali um það, hve mikið gagn hlýst af því, að menn þessir breiði út þekkingu sína, er heim kemur. Jeg tel það ilt, að hver sitji þar, sem hann er kominn, en hitt tel jeg mikils virði, að menn auki þekkingu sína, enda mun það sannast, að slíkt margborgar þann kostnað, sem það hefir í för með sjer. Álít jeg, að til slíkra utanfara ætti að veita tugi þúsunda.

En enginn skyldi undrast, að till. þessi er fram komin, því þeir menn eru til, sem hafa það á stefnuskrá sinni að amast við allri þekkingu, og eru þannig í sannleika vistráðin hjú heimskunnar.

Þá er 23. till., um bryggjugerð, frá þm. Ak. (M.K.) og 2. þm. Reykv. (J.B.). Um hana hefir nefndin látið óbundin atkv. Hefi jeg ekkert um þá till. að segja, enda býst jeg við, að þeir geri það, sem næstir henni standa.

Þá kem jeg að till. um fjárveitingu til Bjarna Þorkelssonar skipasmiðs, til eftirlits með bátum og skipum. Nefndin hefir lagst á móti þessari till., en jeg hefi litið öðruvísi á málið. Jeg álít sem sje, að slíkt eftirlit sje bráðnauðsynlegt og að það sje langt frá því að vera fullnægjandi eins og það er nú. En sem sagt, meiri hluti nefndarinnar telur slíkt eftirlit óþarft, eða að minsta kosti nægilegt eins og það er, og því óþarfa að auka það.

Þá er till. frá háttv. þm. Barð. (H.K.) um eftirgjöf á láni. Eru till. um þetta 2, ein aðaltill., en önnur til vara. Meiri hluti nefndarinnar er mótfallinn báðum till., en jeg hallast að varatill.

Þá kemur næst till. háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) viðvíkjandi lánveitingu til Ólafs Hvanndals. Hefir nefndin fallist á þá tillögu.

Þá er það 27. brtt. frá fjárveitinganefnd, um að veita Búnaðarfjelagi Íslands 35 þús. kr. lán til þess að kaupa sljettil fyrir. Fjelagið vildi helst kaupa fleiri vjelar, en nefndin leit svo á, að nægilegt væri fyrst um sinn að bæta við sig einni slíkri vjel. Annars skal jeg geta þess, að nefndin hefir komið sjer saman um nýtt orð sem heiti á þessum vjelum, nefnilega „sljettil“ á íslensku, en ekki „sljettir“. Bæði er orðið munntamt og auk þess engin hætta á því, að það verði beygt rangt, en sú hætta fylgir orðinu sljettir, sbr. hellir, sem alment er rangt beygt. Hefði vafalaust mátt finna fleiri góð heiti, og er nefndin fús til að taka á móti uppástungum um það.

Þó að nefndin sje sammála um, að búnaðarframfarir, sem byggjast á skynsamlegri jarðrækt, sjeu nauðsynlegar, þá vildi hún ekki rasa um ráð fram og kaupa fleiri vjelar að sinni. Vjelarnar eru lítt reyndar enn þá og órannsakað, hve mikið verk má vinna með þeim. Einnig er örðugt að flytja þær, og því má búast við, að þær komi ekki að eins miklum notum og ella. Jeg efast eigi um, að háttv. deild sje fús á að veita þetta lán, og ef hún skyldi vilja veita hærra lán, t. d. 70–100 þús. kr., þá mun nefndin taka það til athugunar, ef það kemur fram.

Þá kem jeg að till. um að veita lán til stofnunar nýrrar klæðaverksmiðju, eða rjettara klæðaverksmiðja. Mönnum mun hafa orðið bumbult af till., vegna þess að nefndin lýsti yfir því, að hún væri fús á að styðja alt að 50 þús. kr. lán til stofnunar slíkrar klæðaverksmiðju á þeim stað, er hentugastur reyndist. Æskilegt væri, að stjórnin ljeti menn sína rannsaka alt um þetta.

Annars telur nefndin það ekki hættulaust að láta iðnaðarfyrirtæki sem þessi þjóta upp hvert á sínu landshorninu, því það er mjög vafasamt, hvað mikið landsmenn vilja kaupa af klæðum sínum. Hingað til hefir það verið venja að selja hráefnin óunnin út úr landinu, en kaupa í staðinn inn vonda og dýra vöru. En þetta er ekki nema í fullu samræmi við það, sem jeg hefi orðið var við hjer í deildinni, að sumum hefir þótt nauðsynlegt að slátra mönnum og málefnum til þess að spara smáupphæðir, og að sá háttv. þm., sem hæst talar um sparnað, hefir gert ráðstafanir til þess að kasta mörgum embættismannalaunum í sjóinn, þar sem er úrgangur úr þorski, svo sem lifur o. fl., sem annars mætti selja fyrir mikla peninga. Og menn taki eftir því, að ef verksmiðjur hafa gerst svo djarfar að vinna áburð úr þessum fiskleifum, þá hefir verið lagt á þær hátt gjald, já, meira að segja verið sektaðar, eins og átti sjer stað í Vestmannaeyjum.

Þó að nefndin fylgi því fast og fylgi því öll að enginn ullarhnoðri ætti að fara út úr landinu óunninn, þá vill hún samt ekki styðja það, að stofnaðar verði 2 nýjar verksmiðjur án þess menn viti, hvort þær koma til með að uppfylla kröfur tímans og vissa fæst um það, að landsmenn kaupi af þeim klæði sín. Snöggar og stórar breytingar eiga sjer vanalega skamman aldur, en hugsaðar og hægar breytingar eru til frambúðar. Nefndin sá þó eigi ástæðu til að koma með þannig orðaða till.; bjóst við að till.nefndin gerði það sjálf. Ef meiri hluti nefndarinnar snýst á móti till. af því að einn lítur til austursmiðjunnar, en annar til suðursmiðjunnar, þá er það að mínu viti eigi svo háskalegt. Því miður gleymdi jeg að koma með till. nú, en ef enginn kemur með hana, þá mun jeg gera það.

Þá kem jeg að 28. brtt., frá háttv. 2. þm. Reykv. (J.B.), um það, að ríkisstjórninni sje heimilt að ganga í ábyrgð fyrir sveitarfjelög og bæjarfjelög, ef þau vilja taka lán til fyrirtækja, er um atvinnuleysi er að ræða. Eins og stendur virðist mjer engin ástæða til að óttast atvinnuleysi, en ef svo færi, þá er sjálfsagt, að ríkisstjórnin geri alt, sem hún getur, til þess að bjarga mönnum, og álít jeg eigi, að hún þurfi til þess sjerstaka heimild, og þannig hefir nefndin öll litið á málið, og því lagst á móti till. Fjvn. er, þó sparsöm sje, sammála mjer um það, að landssjóður sje eign landsmanna, og því sje skylda hans að bjarga mönnum frá hungurdauða, ef svo ber undir. Þessi nefnd, þó sparsöm sje, vill ekki ráðast á einstaka menn nje fyrirtæki, nje reita rjúpur eins og búkona deildarinnar, og því skal jeg nú láta staðar numið og leyfa öðrum mönnum að ræða þennan hluta fjárlaganna.