03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (1674)

42. mál, landhelgisgæsla

Pjetur Ottesen:

Það gleður mig, að komið hefir fram till. um að auka og bæta landhelgisvarnirnar. Það hefði glatt mig enn meira, ef till. hefði farið fram á, að við gerðum eitthvað af eigin ramleik í því efni, eins og jeg benti á í umr. um þetta mál í fyrra, og að við tækjum sjálfir að einhverju leyti strandvarnirnar í okkar hendur. Þótt segja megi, að þær umræður, sem um málið urðu þá, leiddu ekki af sjer beinlínis nýja ályktun um málið, — hún var áður tekin og er í fullu gildi, sem sje að kaupa skip til landhelgisgæslu, — þá komu fram svo margar og miklar upplýsingar um nauðsyn á framkvæmdum í þessu máli, að ætla hefði mátt, að stjórnin hjeldi málinu vakandi og ynni ósleitilega að undirbúningi þess. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefir enn ekki skýrt frá, hvað stjórninni hafi orðið ágengt í því efni. Það er að vísu allmikið vorkunnarmál, þó að lítið hafi orðið úr framkvæmdum að því er skipakaup snertir, meðan tímarnir eru svona erfiðir, en á hinn bóginn er málið svo nauðsynlegt, að í því má einskis láta ófreistað.

Það var í fyrra farið fram á, að Danir ykju þá strandvarnirnar þannig, að öðru skipi yrði bætt við, og urðu þeir þá að nokkru leyti við þeim tilmælum, og það án þess að neitt fje væri sjerstaklega goldið fyrir. Enda get jeg ekki sjeð, að okkur sje í rauninni skylt, og því síður nauðsynlegt, að bjóða fram fje til þess, þó að tvö skip væru hjer við landhelgisgæslu af þeirra hálfu. Samkvæmt sambandslögunum eru Danir þó að minsta kosti skyldugir til að halda uppi strandvörnum eins og áður, þannig að þær verði ekki minni eða lakari en áður hafði verið. Þá hafði að vísu ekki verið hjer nema eitt skip, en störfin voru þá ekki heldur líkt því eins mikil og síðar hefir orðið. En Danir hafa líka eigin hagsmuna að gæta, þar sem þeir hafa innfæddra manna rjett hjer til fiskveiðanna, meðan samningar gilda þar um.

Auk þess finst mjer ekki úr vegi, að þeir bættu nú að einhverju upp það, sem niður fjell á ófriðarárunum. Mjer finst því, að það geti litið svo út, ef annar liður tillögunnar, um það að bjóða fram fje eða borgun, yrði samþyktur, eins og með því væri verið að ljetta skyldu af Dönum að ástæðulausu, en þó mun það trauðla hafa verið tilætlun nefndarinnar; en þann skilning mætti í það leggja. Mjer finst því ekki, að það geti komið til mála að samþykkja tillöguna eins og hún er orðuð.

Þess hefir verið getið til, og jeg held, að það sje vikið að því í greinargerðinni fyrir tillögunni, að afturkippurinn frá Dana hálfu stafi af blaðagreinum hjer og ummælum Alþingis. Á Alþingi snerust umræðurnar hvað landhelgisgæslu Dana hjer snerti aðallega um, hversu ljeleg hún hefði verið, og má segja það Dönum til lofs, að þeir ljetu sjer þær átölur að kenningu verða og bættu landhelgisgæslu að miklum mun árið sem leið. Var það allmikil framför frá því, sem verið hefir. Foringjar varðskipanna sýndu mun meiri árvekni í starfinu en áður hafði oft á löngum verið sýnd, þótt því sje ekki að neita, að meira hefði mátt í því efni vænta af okkar eigin mönnum. Í þessu sambandi vil jeg benda á, að það hefir ekki síst staðið strandgæslunni fyrir þrifum, hve oft hefir verið skift um foringja á skipunum, og jafnframt vil jeg beina því til hæstv. stjórnar, að hún geri sitt til, að eigi verði skift um foringja að þessu sinni.