03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (1677)

42. mál, landhelgisgæsla

Bjarni Jónsson:

Mál þetta er alkunnugt frá síðustu þingum. Jeg hefi á fyrri þingum gerst svo djarfur að halda fram, að betra væri, að við eignuðumst skip sjálfir til að gæta strandanna, heldur en að biðja Dani um að gera það.

Mjer skildist, að ætlast væri til þess, er sáttmálinn var gerður við Dani 1918, að þeir skyldu framvegis látnir í friði og að við mundum ekki kvabba á þeim framar. En á því virðast litlar efndir ætla að verða. Út yfir tekur þó, er þetta svonefnda sparnaðarþing vill fara að bjóða Dönum fje til þess að halda úti tveim döllum hjer við land.

Jeg skil nú, hvers vegna spornað er svo mjög á móti hæstarjetti. Það mun vera til þessa, sem hafa á fjeð, er við það sparist. En fyrir þá fúlgu, sem þyrfti til þessa, mætti hafa tíu hæstarjetti.

Jeg vona, að ekki þurfi að tala langt mál á móti þessari till., því sparnaðarhugurinn, sem hjer virðist ríkjandi, ætti einn að vera nægur til að fella hana, og það því fremur, sem margt af því, sem um strandgæsluna er rætt og ritað. er markleysuhjal. Á öllu því svæði, þar sem eigi er fiskað á bátum eða smáskipum, má einu gilda, hvort vörpunni er beitt utan eða innan landhelgi. Hagnaðurinn að varðskipinu er því að miklu leyti ímyndaður. En fyrir landið er það vansi, ef nú er farið fram á, að Danir leggi meira af mörkum en til var ætlast, er samningurinn var gerður við þá.

Jeg mun því aðeins vera með fjárveitingu í þessu skyni, að henni sje varið til að koma upp innlendu skipi.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta mál meira; en jeg sje, að maður verður að hafa nákvæma gát á hverri einustu till., sem kemur fram á þessu þingi, svo að maður geti sýnt sig hreinan af henni og þvegið hendur sínar.