07.03.1922
Efri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (1715)

42. mál, landhelgisgæsla

Halldór Steinsson:

Jeg verð að segja það, að jeg get ekki fylgst með skoðunum hv. þm. Vestm. (K. E.), sem aðeins sjer eina hlið á málinu og virðist telja aðra strandvörn þýðingarlausa en þá, að mörg skip, rekin á landsins kostnað, sjeu látin annast gæsluna. Ef við athugum þetta dálítið nánar, þá sjáum við, hversu fráleitt þetta er. Minna en 7–8 skip kæmumst við ekki af með til að annast strandvarnir kringum alt landið á þennan hátt, og vil jeg því spyrja hv. þm. (K. E.), hvernig þjóðin fer að halda uppi slíkum vörnum eða eftirliti. Auðvitað játa jeg það, að með þessu fyrirkomulagi væri landhelgin best trygð, en allir sjá, að þetta er óframkvæmanlegt. Ríkið hefir aldrei bolmagn til þess. Jeg get ekki verið því fylgjandi, að ekkert gagn sje í 1 eða 2 skipum, veit vel, að sú vörn er ekki eins fullkomin og hún ætti að vera, en er þó svo góð, að vel má við una. Það kann vel að vera, að strandgæslan við Vestmannaeyjar hafi ekki verið góð nú upp á síðkastið, en það verð jeg að segja, að fyrir Vesturlandinu hefir hún verið svo góð, að telja má, að við höfum aldrei orðið hennar varir fyr en nú, eða 1921.